Tölum um skerðingar og keðjuverkandi skerðingar í almannatryggingakerfinu sem setur þá sem reyna af fremsta megni að tóra í þessu ömurlega bútasaumaða kerfi á Íslandi ekki bara í fátækt, heldur í sárafátækt.
Núverandi ríkisstjórn ef hún heldur völdum mun halda áfram að skerða atvinnutekjur, dánarbætur, mæðra- og feðralaun, sjúkrabætur, lífeyrissjóð, leigubætur, sértækar leigubætur, barnabætur, aldurstengdu uppbótina, heimilisuppbótina og fleiri flokka og það með tilheyrandi skelfingu fyrir þá sem fyrir keðjuverkandi skerðingunum verða.
Afleiðingarnar fyrir þá sem reyna að lifa af á lægstu almannatryggingalaununum eru vannæring, þunglyndi og kvíði fyrir afkomu viðkomandi og fjölskyldna þeirra.
Hugsið ykkur áhrifin sem þetta hefur á öll börnin sem verða að lifa í þessum ömurlegu aðstæðum og afleiðingar sem það hefur á þau í nútíð og framtíð að vera í sárafátækt svo árum skiptir?
Þetta er það sem ríkisstjórnin býður þeim upp á sem verst hafa það á Íslandi. En á sama tíma hafa þeir sem hafa óheftan aðgang að auðlindum þjóðarinnar aldrei grætt meira og vita ekki aura sinna tal.
Hvers vegna í ósköpunum setti ríkisstjórnin aftur á „krónu á móti krónu skerðingar“ hjá þeim sem verða fyrir búsetuskerðingum, þ.e.a.s. eldra fólki og öryrkjum. Hvað er að hjá þeim sem geta beitt þá verst settu svona ömurlegum skerðingum, sem er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð.
Það var sagt fyrir síðustu kosningar að nú væri tími þeirra verst settu í okkar samfélagi kominn og að þessir hópar gætu ekki beðið lengur. En þeir bíða og bíða og bíða enn.
Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur byggt upp þetta ömurlega bútasaumaða almannatryggingakerfi og viðhaldið því með ekki bara skerðingum, heldur keðjuverkandi skerðingum þar sem allar hækkanir renna í gegnum vasa öryrkja og eldra fólks og beint aftur í ríkissjóð. Ekkert annað hægt hjá þessum verst setta hóp í íslensku samfélagi, en að herða enn frekar sultarólina.
Flokkur fólksins segir fólkið fyrst og svo allt hitt og það á enginn á Íslandi að fá minna en 350.000 krónur á mánuði skatta- og skerðingarlaust
Á biðlista til komast á biðlista?
Um 2.000 börn eru á biðlista eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu, hundruð barna á biðlista til að komast á annan hundraða barna biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem sinnir börnum með alvarleg veikindi. Það er allt að þriggja og hálfs árs bið hjá börnum með alvarleg veikindi. Hvað næst, biðlisti til að komast á biðlista, til að komast á biðlista?
Skýrsla sem ég fékk í vor um fjölgun á biðlistum sýnir að biðlistar eru að lengjast og lengjast í heilbrigðiskerfinu og það er óþolandi að ár eftir ár styttast ekki biðlistar barna heldur lengjast og að hafa á annað þúsund börn á bið er okkur til háborinnar skammar. Hvað verður þá um þau börn sem eru komin fram á bjargbrúnina með skólagönguna og hvaða afleiðingar mun það hafa á framtíð þeirra og fjölskyldna?
Flokkur fólksins segir eitt barn á biðlista er einu barni of mikið.
Á biðlista
Heilbrigðiskerfið er á ystu nöf og biðlistar eftir flestum aðgerðum eru að lengjast. Kulnun í starfi og að manna störf í heilbrigðiskerfinu er að verða stórt vandamál og þá einnig að álagið sé að buga marga þá sem eru í fremstu víglínu í þessu kerfi.
Þá hefur ekki enn verið samið við sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga og sérfræðilækna. Þá skora læknar einnig á stjórnvöld að standa við nauðsynlegar aðgerðir og úrbætur í heilbrigðiskerfinu.
Hjúkrunarheimilin eru komin á ystu nöf vegna fjárskorts og áhyggjulaust ævikvöld verður alltaf fjarlægari og fjarlægari draumur. Vonandi er ekki enn verið að útskrifa aldrað fólk af sjúkrahúsi og heim til sín þar sem það eina sem er til í ísskápnum er lýsisflaska og maltdós.
Þá verðum við að sjá til þess að allir sem þurfa læknisaðstoð fái hana strax, en lendi ekki í langri bið eftir lífsnauðsynlegri aðgerð vegna Covid-19. Þá ber að upplýsa þá sem hafa beðið lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð að þeir eiga rétt á að fara til útlanda í þá aðgerð, á kostnað ríkisins.
Flokkur fólksins segir réttlæti fyrir alla í ríku landi.
Guðmundur Ingi Kristinsson, alþingismaður og oddviti Suðvesturkjördæmis