COVID-19

Kórónuveiran Covid-19 fer nú eins og logi um akur heimsbyggðarinnar. Sýktum tilfellum fjölgar stöðugt. Nú hefur veikin greinst í um 70 löndum. Alþjóða heilbrigðisstofnunin dregur lappirnar við að lýsa yfir heimsfaraldri þó Covid-19 uppfylli tvö af þeim þremur skilyrðum sem til þurfa að koma svo það sé það megi verða. Í fyrsta lagi: Veiran smitast milli manna veiran er banvæn og þriðja skilyrðið er svo að hún finnist um heim allan, og þannig er staðan í dag. Það er nóg að skoða kort til sjá það.

            Nú hafa um 90 þúsund manns fengið veikina. Þar af eru rúmlega þrjú þúsund dáin. Það eru ríflega þrjú prósent þeirra sem hafa fengið sjúkdóminn. Átján prósent þeirra sem glíma við sjúkdóminn sem stendur eru skilgreind sem alvarlega veik. Dánarhlutfallið er enn alvarlegra ef litið er til þess hve margir annað hvort ná bata eða deyja. Tæp 47 þúsundum er batnað, þrjú þúsund dáin. Það eru sex prósent.

             Ef tölurnar eru réttar þá eru þetta staðreyndirnar sem við horfumst í augu við. Hér á landi hafa dyrnar fyrir smit inn í landið staðið galopnar. Áherslan lögð á að byrgja brunninn eftir að við værum dottin ofaní hann. Sex hafa þegar greinst með veiruna og um 260 eru í sóttkví.

Nú er að taka saman höndum öll sem eitt til að koma í veg fyrir faraldur út um allt land. Í spænsku veikinni 1918, sem líka var inflúensa og allir kannast við, létust um 2,6% þeirra sem sýktust í Reykjavík. Talið er að 2/3 Reykvíkinga hafi fengið veikina. Á Akranesi fór hlutfall látinna upp í 4,6%. sem eru álíka, eða ívið lægri tölur, en við sjáum nú.

            Gagnvart slíkri vá, þjónar engum tilgangi að tala niður hættuna sem af henni steðjar. Við verðum að nálgast vandann af yfirvegun og raunsæi. Fólk fer ekki varlega nema það viti hvað er í húfi. Nú ætti þetta kannski ekki að vera svo alvarlegt mál að sumra mati sem segja að þetta sé nú bara eins og hver önnur flensa. Dánartíðnin segir þó allt annað. Samt gerir jafnvel menntaður, og hingað til almennt virtur læknir, lítið úr því sem nú stendur fyrir dyrum og getur þróast í stórslys. Ég sem kjörinn fulltrúi sæti jafnvel óbeinu ámæli, og er mætt með fyrirlitningu í ríkisfjölmiðlinum RUV, fyrir það að ég skuli dirfast að spyrja spurninga og veita stjórnvöldum aðhald í þessu máli.

            Það er alveg ljóst að staðan er alvarleg. Í nágrannalöndum okkar er talað af fullri alvöru um hættuna. Það mun ég líka gera og aldrei láta þagga niður í mér.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila