Fyrirtækið Ísteka hefur undanfarin ár staðið fyrir stórauknum blóðmerabúskap á Íslandi. Fyrirtækið hefur samið við fjölda bænda um kaup á blóði úr fylfullum merum, en fyrirtækið á sjálft fjölda blóðmera. Ísteka þóttist koma af fjöllum þegar dýraverndarsamtökin AWF/TSB birtu heimildarmynd um blóðmerahald á Íslandi og stórfellt dýraníð sem fellst í blóðtöku úr fylfullum merum. Myndin sviptir hulunni af óréttlætanlegri meðferð á hryssum sem ganga með folöld, sem öllu sómakæru fólki býður við.
Flokkur fólksins lagði fram frumvarp um bann við blóðmerahaldi sl. vor við lítinn fögnuð hagsmunaaðila. Fjöldi umsagnaraðila fullyrti að velferð dýra væri í hávegum höfð og að virkt eftirlit MAST (Matvælastofnunar) og margrómað innra eftirliti Ísteka tryggði öryggi og velferð blóðmeranna og folalda þeirra.
Um frumvarp Flokks fólksins sagði framkvæmdastjóri Ísteka: Greinargerð sú sem fylgir frumvarpinu er gerð af svo mikilli vanþekkingu að því miður er ekki hægt að svara henni efnislega af neinu viti. Því verður ekki gerð tilraun til þess hér.
Nú er komið annað hljóð í strokkinn. Framkvæmdastjórinn sendi alþingismönnum bréf sama dag og frumvarp Flokks fólksins um bann við blóðmerahaldi var á dagskrá Alþingis nú í vikunni. Hvílík tilviljun! Í bréfinu lofaði hann ýtrustu umbótum til að tryggja velferð hryssanna. Það var þá eitthvað í ólagi eftir allt saman! Ég vona að hann átti sig á hve innantóm orð hans eru nú. Gleymum ekki að framkvæmdastjóri Ísteka hefur margdásamað innra eftirlit fyrirtækisins. Sami framkvæmdastjóri var viðstaddur það dýraníð sem kemur berlega í ljós í margumtalaðri heimildarmynd. Hvar var eftirlitið þá?
Ísteka sækist nú eftir að framleiða árlega frjósemislyf úr 600.000 lítrum af blóði. Til að ná slíkri framleiðslu þarf að níðast á hátt í 20.000 fylfullum hryssum.
Blóðmerahald er fordæmt víða um heim, m.a. af Evrópuþinginu. Íslendingar leggja mikið upp úr ímynd landsins og góðu orðspori. Það er óverjandi að loka augunum fyrir slíkri fordæmingu. Íslenski hesturinn er elskaður og dáður um allan heim. Íslandsstofa hefur varið miklum fjármunum í kynningu hans erlendis með frábærum árangri. Þriðja árið er röð er slegið Íslandsmet í sölu á íslenska hestinum til annarra landa. Áætlað verðmæti útflutningsins 2021 er um tveir milljarðar króna.
Tæplega 10% erlendra ferðamanna koma gagngert í þeim tilgangi að kynnast íslenska hestinum. Hestamannaleigur velta margfalt hærri fjárhæðum en Ísteka. Ekki er mögulegt að efast um að við sem þjóð erum að fórna svo miklum mun meiri hagsmunm fyrir minni ef þessi starfsemi verður ekki stöðvuð strax.
Setjum velferð dýra og orðspor þjóðarinnar í fyrsta sæti. Bönnum blóðmerahald!