Eftirlaun og launuð vinna

Kolbrún

„Eft­ir­launa­fólk á að fá að vinna eins lengi og það vill án skerðinga og njóta afrakst­urs vinnu sinn­ar eins og aðrir.“

Á fundi borg­ar­stjórn­ar 15. júní mun full­trúi Flokks fólks­ins leggja til að borg­ar­stjórn samþykki að setja á fót Vinnumiðlun eft­ir­launa­fólks í Reykja­vík.

Full­trúi Flokks fólks­ins legg­ur til að Reykja­vík stofni Vinnumiðlun eft­ir­launa­fólks. Um er að ræða hug­mynd að sænskri fyr­ir­mynd þar sem eft­ir­launa­fólk get­ur skráð sig og tekið að sér af­mörkuð verk­efni tíma­bundið. Sam­bæri­leg hug­mynd er nú til skoðunar á Húsa­vík og hef­ur verið fjallað um verk­efnið í tíma­riti LEB (Lands­sam­bands eldri borg­ara). Hug­mynd­in er að nýta þekk­ingu og verkkunn­áttu eldri borg­ara og eft­ir­launa­fólks og vinna í leiðinni gegn ein­mana­leika sem marg­ir þeirra upp­lifa. Hugs­un­in að baki Vinnumiðlun eft­ir­launa­fólks er að sýna að þótt fólk sé komið á ákveðinn ald­ur þýði það ekki að fólk geti ekki gert gagn leng­ur. Aðstæður þessa hóps eru afar ólík­ar. Stór hóp­ur eft­ir­launa­fólks hef­ur verið á vinnu­markaði allt sitt full­orðins­líf og hef­ur haft mikla ánægju af vinnu sinni enda er hún oft einnig áhuga­mál fólks.

Allt sam­fé­lagið myndi stór­græða á að nýta þekk­ingu og kunn­áttu eldra fólks eins lengi og fólk hef­ur vilja til að vinna. All­ir græða á því að vera úti í sam­fé­lag­inu, taka þátt og kom­ast í virkni. Það dreg­ur úr ein­mana­leika og vinn­ur gegn þung­lyndi hjá þeim sem glíma við það. Hér er ekki verið að tala um sjálf­boðastarf held­ur launuð störf. Það er fátt sem hef­ur eins mikið til­finn­inga­legt gildi og að upp­lifa sig virk­an og að maður sé að gera gagn.

Hvernig mun vinnumiðlun­in virka?

Vinnumiðlun eft­ir­launa­fólks myndi virka þannig að fólk sem vill vinna skrá­ir sig og síðan geta ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki leitað til vinnumiðlun­ar­inn­ar ef þá vant­ar fólk í ákveðin verk­efni. Þegar búið er að skrá sig er farið yfir hvað viðkom­andi hef­ur gert áður, við hvað hann hef­ur starfað og hvar færni hans og áhugi ligg­ur. Sá sem skrá­ir sig til vinnu ræður því hvenær hann vinn­ur og hversu mikið. Sum­ir vilja ráða sig í starf hálf­an dag­inn, aðrir geta hugsað sér að starfa tvo daga í viku og svo fram­veg­is. Nú er hægt að vinna sér inn 100 þúsund krón­ur á mánuði án þess að elli­líf­eyr­ir skerðist. Auðvitað er eng­in sann­girni í þessu. Úrræðið myndi að sjálf­sögðu virka bet­ur ef dregið er úr skerðing­um vegna at­vinnu­tekna elli­líf­eyr­isþega. Eft­ir­launa­fólk á að fá að vinna eins lengi og það vill án skerðinga og njóta afrakst­urs vinnu sinn­ar eins og aðrir. Meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn get­ur ef hann vill ákveðið að fylgja ekki al­manna­trygg­inga­kerf­inu og boðið eldra fólki upp á úrræði til að auka virkni og tekj­ur.

Vinnumiðlun­in yrði milliliður. Hún myndi síðan ann­ast inn­heimtu hjá fyr­ir­tæki/​stofn­un þar sem viðkom­andi vinn­ur og greiða svo laun til þátt­tak­enda. Fjöl­mörg störf koma til greina fyr­ir þenn­an hóp enda er mannauður­inn mik­ill og fólk með langa reynslu. Fyr­ir­komu­lagið geng­ur vel í Svíþjóð og er auk þess til skoðunar á Húsa­vík. Því ætti Vinnumiðlun eft­ir­launaþega að geta blómstrað í Reykja­vík. Oft kem­ur upp sú staða að fyr­ir­tæki vanti starfs­kraft með stutt­um fyr­ir­vara eða tíma­bundið. Hægt er að hugsa sér alls kon­ar birt­ing­ar­mynd­ir í þessu sam­bandi. Full­trúi Flokks fólks­ins von­ar að full­trú­ar meiri­hlut­ans í borg­ar­stjórn og aðrir kjörn­ir full­trú­ar sjái kost­ina við þessa til­lögu og vísi henni þangað sem hún á heima til frek­ari skoðunar og þró­un­ar.

Eftir Kolbrúnu Baldursdóttur

Deila