Til hamingju með daginn þinn,“ syngja vinir mínir og nánustu vandamenn og knúsa mig þrátt fyrir Covid eins metra regluna og grímuskylduna. Ég hugsa; það er gott að eiga afmæli. Lífið er ómetanlegt og yndislegt að fá að eldast ef heilsan stendur með manni.
Það er gott að vera til fyrir flesta þá sem fá að njóta þeirra forréttinda að búa á eyjunni okkar fögru. Ég nudda stírurnar úr augunum, er alltaf jafn hissa á því sem mætir mér í speglinum. Er þetta ég? Hvernig stendur á þessum gráu hárum þegar mér finnst ég nýfermd. Það er broslegt hvernig umbúðirnar breytast í algjöru taktleysi við eigið sjálf. Kannski er ég háfleyg núna fyrir suma, en það er allt í lagi. Við erum ekki öll eins, sem betur fer.
Í kolli mínum syngja þau Raggi Bjarna heitinn og Lay Low hið ómetanlega fallega „Þannig týnist tíminn.“ Það var okkar frábæri listamaður Bjartmar Guðlaugsson sem samdi bæði lag og texta. Og í stað þess að þreyta ykkur með pólitík vil ég nú þegar sumarið stendur sem hæst senda ykkur öllum þetta fallega ljóð. Lesið með bjartsýni, brosi og kærleika að leiðarljósi. Það er mín einlæga og staðfasta trú að okkur muni þrátt fyrir allt argaþras farnast vel sem ein stór fjölskylda sem erum hér saman komin til að vernda og vera góð hvert við annað.
Líkt og ástarljóð sem enginn fékk að njóta
Eins og gulnað blað sem geymir óræð orð
Eins og gömul hefð sem búið er að brjóta
Þar er ég, þar ert þú, þar er allt það sem ástin okkur gaf
Þannig týnist tíminn þó hann birtist við og við
Líkt og sumarást sem aldrei náði að blómstra
Líkt og tregatár sem geymir falleg bros
Þarna er gömul mynd sem sýnir glaðar stundir
Þar er ég, þar ert þú, þar er allt það sem ástin okkur gaf
Þannig týnist tíminn þó hann birtist við og við
Líkt og mynd sem bjó í vonarlandi þínu
Eins og æskuþrá sem lifnar við og við
Býr þar sektarkennd sem að ennþá nær að særa
Þar er ég, þar ert þú, þar er allt það sem ástin okkur gaf
Þannig týnist tíminn þó hann birtist við og við
Við eigum aðeins eitt líf. Látum það vera til gæfu eins og við best getum. Hendum fordómum, vanþekkingu og leiðindum út um gluggann. Við eigum ekki að gefa neinu slíku eina einustu mínútu af okkar dýrmæta tíma. Afmælisdagarnir hrannast upp á ljóshraða. Sumir eiga erfitt á meðan öðrum líður vel. Þegar upp er staðið þá erum við öll samferða.
Ingva Sæland