Í gær bárust fréttir af því að fjárfestingafélagið SKEL hefði selt hlutinn sem félagið keypti í Íslandsbanka fyrir mánuði síðan og keypt 2,5% hlut í VÍS fyrir 800 milljónir króna. Að einhverjum hluta fengu þeir sem seldu bréfin í VÍS greitt með bréfum fjárfestingafélagsins í Íslandsbanka.
Fyrir þá sem ekki vita þá heitir stjórnarformaður SKEL Jón Ásgeir Jóhannesson en hann fer fyrir eignarhaldsfélagi sem á yfir 50% í SKEL.
Kannski muna einhverjir eftir því að fyrir nokkrum árum átti Jón Ásgeir ráðandi hlut í þessum sama banka. Sá banki, ásamt nokkrum öðrum, tók eftirminnilega kollsteypu eftir glæfralegan bankarekstur Jóns og félaga hans. Jón gerði sér lítið fyrir og stakk af úr landi með fenginn, og skildi heilt þjóðfélag eftir í sárum.
Litlar heimtur voru frá honum og félögum hans upp í þann skaða sem þeir höfðu valdið, en hitt er ljóst að ekki hafa þeir liðið skort síðan og komið ár sinni ágætlega fyrir borð á ný, eins og fréttir síðustu vikna og dagsins í dag bera með sér.
Það sama verður ekki sagt um þá sem sátu í illa þefjandi súpunni sem Jón og félagar hans í hinum bönkunum skildu eftir.
Þúsundir heimila sátu uppi með reikninginn frá Jóni og félögum og að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín vegna þess skaða sem hann og nokkrir aðrir ollu og þá eru enn ótaldar þær þúsundir sem rétt náðu að halda heimili sínu með því að gera nauðasamninga við bankann sem setti þau í klafa fátæktar og skorts.
En „Jón er kominn heim“ eins og segir í gömlu dægurlagi og hann er kominn með stæl.
Ekki til að biðjast afsökunar á misgjörðum sínum og skaðanum sem hann olli. Nei, hann er kominn til að taka meira. Hann er kominn til baka með peningana sem hann, með beinum eða óbeinum hætti, fékk úr bankanum til að kaupa hann aftur.
Jón Ásgeir ætlar sér stóra hluti og slær um leið blautri tusku fast í andlit fórnarlamba sinna.
Gríðarlegur hagnaður Íslandsbanka á undanförnum árum byggir á lífsstarfi þeirra sem var fórnað til að bæta skaðann sem Jón Ásgeir olli.
Jón Ásgeir keypti banka, setti hann á hausinn, skeytti engu um afleiðingarnar, kom aftur, keypti bankann, seldi bankann og keypti tryggingafélag fyrir bréfin í þessum banka.
Geri aðrir betur.
Engin skömm, engin auðmýkt, hvað þá að hann biðji fórnarlömb sín afsökunar.
Bara hroki, ÉG á þetta, ÉG má þetta, ÉG get þetta.
Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.