Ég skal hundur heita

Viðhorf almennings gagnvart hundahaldi hefur vissulega breyst til hins betra síðustu ár. Saga hundahalds í Reykjavík er harmsaga. Hundar og eigendur þeirra máttu þola margar hörmungar allt fram til þess að hundahald var leyft í Reykjavík. Bann við hundahaldi ríkti á árunum 1924 til 2006. Reglum var eitthvað hagrætt 1984 þannig að hundahald var enn bannað en einstakir hundaeigendur gátu sótt um leyfi til undanþágu að uppfylltum ströngum skilyrðum og hélt það fyrirkomulag til ársins 2006, þegar hundahald var loks gert leyfilegt. (Martha Elena Laxdal: Saga hundahalds í Reykjavík 1924–1984. 2014).

Enda þótt viðhorf til hundahalds og til hunda almennt sé orðið jákvæðara býr enn undir niðri ákveðinn fornaldarhugsun hjá stjórnvöldum þegar kemur að málaflokknum, þ.m.t. hundaeftirliti. Í borgarráði 4. febrúar samþykktu flokkar meirihlutans að sameina alla þjónustu við dýr í Dýraþjónustu Reykjavíkur sem verður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Formlega á nú að leyfa hundahald í Reykjavík, halda á áfram að innheimta eftirlitsgjald en það lækkað. Aðeins ef skráningum fjölgar en stefnt á frekari lækkun. Gera á tilraun til þriggja ára og sjá hverju fram vindur.

Eftirlitsgjald tímaskekkja

Tillaga um eftirlit og eftirlitsgjald endurspeglar tímaskekkju. Slíkt fyrirkomulag telst úrelt í nágrannalöndunum. Verkefnum hundaeftirlits Reykjavíkur hefur fækkað verulega síðastliðin 20 ár. Alls voru 159 hundar vistaðir í geymslu árið 2000, en aðeins 8 hundar árið 2018. Kvörtunum hefur fækkað um mörg hundruð niður í nokkra tugi. Við breytinguna á ekki að fækka starfsgildum þrátt fyrir að verkefnum hafi snarfækkað. Þetta er léleg nýting á fjármunum hundaeigenda. Hvernig má það vera að hundaeftirlitið kosti það sama árum saman þegar verkefnum hefur fækkað eins og raun ber vitni? Langflestir hundaeigendur/hundar þurfa aldrei á neinni þjónustu borgarinnar að halda. Miðlægt eftirlit er ekki nauðsynlegt í Reykjavík og innheimta eftirlitsgjalds er í raun ekkert annað en skattur sem vel kann að vera að standist ekki lög.

Skráning hunda hjá sveitarfélagi þjónar engum tilgangi enda eru allir hundar skráðir í landlægan gagnagrunn. Matvælastofnun hefur eftirlit með velferð allra dýra og þar með gæludýra og sú stofnun getur tekið dýr af heimili ef aðbúnaður er ekki viðunandi. Hundaeftirlitið hefur ekki umsjón með velferð dýranna.

Rök borgarinnar fyrir því að hafa fullan aðgang að þeim gagnagrunni eru þau að nauðsynlegt sé fyrir borgaryfirvöld að fá að vita hvar hver einasti hundur á heima. Þetta endurspeglar fordómafullt viðhorf gagnvart hundaeigendum. Það skýtur skökku við að Reykjavíkurborg krefjist þess að vita nöfn og heimilisföng allra hundaeigenda og fram til þessa hefur listi með nöfnum og heimilisfangi þeirra sem fengið hafa hundaleyfi verið birtur á netinu. Sú aðgerð er á gráu svæði með tilliti til persónuverndar.

Tilfærsla hundaeftirlits yfir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sparar ekkert en fyrirkomulagið er sett í snyrtilegri búning í þeirri von að fleiri muni skrá hunda sína. Af þeim rúmlega 9.000 hundum sem áætlað er að búi í Reykjavík eru aðeins 2.000 skráðir hjá hundaeftirlitinu. Eigendur þeirra halda uppi allri dýraþjónustu borgarinnar. Sú ákvörðun sem nú hefur verið samþykkt er ekki tekin í sátt við hagsmunasamtök hundaeigenda.

Nú á að setja á laggirnar stýrihóp til að útfæra tillögurnar og í þeim hópi er engum fulltrúa hagsmunasamtaka hundaeigenda boðin þátttaka. Hagsmunasamtök hundaeigenda hafa markvisst og kerfisbundið verið skilin út undan í vinnu við endurskipulagningu á dýraþjónustu í borginni.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila