Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, segir óviðunandi að námsmenn hafi engan rétt til atvinnuleysisbóta þrátt fyrir að greitt sé af launum þeirra, eins og annarra, í atvinnuleysistryggingasjóð þegar þeir vinna með námi.
Guðmundur vakti máls á stöðu stúdenta í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag og benti meðal annars á að 72% íslenskra stúdenta segist verða að vinna með námi til að framfleyta sér samkvæmt niðurstöðum nýrrar samevrópskrar rannsóknar. Er það hærra hlutfall en í nokkru öðru Evrópulandi.
Guðmundur vísaði í tölur frá stúdentaráði um að fjórir milljarðar hefðu frá árinu 2010 verið greiddir í atvinnuleysistryggingasjóð af launum námsmanna, án þess að þeir fengju nokkuð fyrir. „Stúdentar hafa ákveðnar og skýrar kröfur um rétt til atvinnuleysisbóta. Eiga námsmenn ekki betra skilið?“ spurði Guðmundur.
Stúdentaráð hefur undanfarið barist fyrir því að námsmenn, sem missi hlutastarf sitt, fái atvinnuleysisbætur í hlutfalli við vinnuframlag. Lögum samkvæmt eiga þeir, sem eru skráðir í 12 eða fleiri einingar í háskóla, hins vegar ekki rétt á bótum. Segja þeir að hópurinn hafi verið skilinn eftir í aðgerðum stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum, sem hafi annars átt að miða að því að verja hag þeirra sem missa vinnuna.
Námsmenn ekki skildir eftir
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var til andsvara. Hún benti á að árið 2010, í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna, hefði réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta verið afnuminn en á sama tíma hefði framfærsla námsmanna verið tryggð yfir sumartímann hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (nú Menntasjóði).
Þá sagði Katrín að málefni námsmanna hefðu verið í forgrunni hjá ríkisstjórninni, bæði með því að styrkja betur við háskólastigið með framlögum og með sérstökum aðgerðum til að tryggja stúdentum sumarstörf, bæði hjá sveitarfélögum og nýsköpunarsjóði námsmanna.
Þá benti hún á að á síðasta ári hefði verið samþykkt á Alþingi að 30% af námslánum stúdenta yrðu felld niður við námslok og því veitt sem styrkur.
Fréttin birtist á mbl.is