Dapurt er að líta í baksýnisspegilinn og sjá niðurrifið og eyðilegginguna sem stjórnvöld hafa kinnroðalaust látið raungerast í mörgum af fallegustu sjávarbyggðum landsins. Kvótasetning sjávarauðlindarinnar er ein mesta meinsemd Íslandssögunnar. Ekki nóg með að fáir útvaldir fengju gefins þúsundir tonna af óveiddum fiski heldur beit forheimskan hausinn af skömminni og heimilaði framsal á öllu saman. Við þekkjum öll sorgarsöguna sem því hefur fylgt. Áður blómlegar sjávarbyggðir hafa fallið í flokk brothættra byggða þar sem nánast enga atvinnu er lengur að fá.
Ég er fædd og uppalin á Ólafsfirði sem áður var blómlegt sjávarpláss sem iðaði af orku og lífsþrótti. Þar gátu allir sem vildu fengið að vinna eins mikið og þá lysti. Bjartsýni og bros, uppbygging og kraftur, einkenndi Ólafsfjörð á þeim tíma. Fallegi bærinn minn sem hafði vaxið og dafnað jafnt og þétt frá því að þar fór að myndast þéttbýliskjarni undir lok 19. aldar. Kaupstaðarréttindi fékk Ólafsfjörður árið 1945. Til að öðlast þann rétt þurftu íbúar sveitarfélagsins að vera 1.000. Þegar ég flutti að heiman voru íbúarnir 1.321. Hver hefði trúað því að þann 1. janúar 2015 myndi þeim hafa fækkað á 70 árum niður í 782 samkvæmt Hagstofu Íslands?
Smám saman færðist allur afli burt úr bæjarfélaginu. Sæberg, stöndugt og glæsilegt útgerðarfyrirtæki í eigu ólafsfirskra stórlaxa, stóð eitt eftir. Átti nægan kvóta og hélt uppi útgerð í sveitarfélaginu eftir að allt annað var horfið á braut. Svo varð gróðinn ekki nægur, það þurfti að finna einhvern taprekstur til kaups svo milljarðaútgerðin þyrfti ekki að greiða óþarfa krónur til samfélagsins. Þess sama og hafði fært þeim allan auðinn. Þeir sameinuðust Þormóði ramma á Siglufirði til að geta bókfært taprekstur þess félags sem hafði komið til vegna rækjubrests. Einnig rann fyrirtæki Magnúsar Gamalíelssonar inn í samsteypuna. Allt þetta sagt gert til hagkvæmni og meiri auðlegðar fyrir bæði Ólafsfjörð og Siglufjörð. Sem nú heitir Fjallabyggð eftir sameiningu sveitarfélaganna sem gekk í gildi þann 11. júní 2006.
Af hverju þessi sögustund, kunna einhverjir að spyrja? Jú, það er vegna þess að núna hefur nánast allur aflinn sem haldið hefur uppi sjávarútveginum í Fjallabyggð verið seldur í burtu. Enn og aftur hið óafsakanlega og fyrirlitlega framsal að leggja enn eitt sveitarfélagið í rúst. Hvenær ætla stjórnvöld að hætta þjónkun við milljarðamæringa og sægreifa sem hugsa ekki um neitt annað en að græða og græða meir? Hvenær er nóg komið nóg?
Og nú vill VG kvótasetja grásleppuna.
Flokkur fólksins segir nei takk, hingað og ekki lengra.