Eitthvað fyrir alla konur og kalla

Flestar félagsmiðstöðvar eldri borgara sem nú eru starfræktar í borginni eru með svipuðu sniði og eflaust þjóna sínum tilgangi vel. Því hefur þó verið fleygt fram að karlmenn sæki þær síður en konur. Getur það verið vegna þess hvernig þær eru skipulagðar og uppbyggðar? Hafa ber í huga að þeir sem nú eru að hefja sín efri ár eru með annars konar reynslu en eldri borgarar fyrir 20-30 árum. Menntunarstig þeirra er hærra og lífstíll annars konar en var þegar flestar þeirra félagsmiðstöðva sem nú eru starfræktar voru opnaðar.

Karlmenn ekki eins áhugasamir

Það er álit sumra sem hafa kynnt sér þessi mál að tímabært sé að endurbæta starfsemi félagsmiðstöðva eldri borgara. Karlmenn sækja félagsmiðstöðvarnar og þeirra starf miklu minna en konur. Starfsemin er með svipuðu sniði á flestum stöðvunum, eftir því sem hefur heyrst. Alls staðar er handavinna af ýmsu tagi, félagsvist, gömlu dansarnir, sums staðar leikfimi fyrir aldraða, kirkjustarf á vegum þjóðkirkjunnar, söngur og víða gönguhópar. Hægt er að hugsa ýmislegt fleira sem bjóða má upp á og varðar alls kyns virkni og tilboð á tómstundum og afþreyingu sem ekki hefur áður sést á félagsmiðstöðvum.

Til að laða fólk til þátttöku þarf að vera eitthvað fyrir alla, konur og karla. Í boði þarf að vera nægt framboð af fjölbreyttum og áhugaverðum verkefnum fyrir huga og hönd þannig að fólk hafi ávallt val. Eldri borgarar eru eins og aðrir aldurshópar, breiður hópur með ólíkar þarfir og áhugamál. Á sumum félagsmiðstöðvunum er boðið upp á kínverska leikfimi, Boccia og Pútt sem dæmi. Einnig mætti skoða að nota tónlist meira í starfinu t.d. hlusta á gamlar grammófónplötur eða hljómplötur frá bítlatímanum.

Endurskipulagning og nútímavæðing

Eftir að hafa rætt við nokkra eldri borgara má heyra glöggt að margir eru ánægðir með starfið en aðrir ekki. Nokkrir voru sammála um að fátt sé í starfi a.m.k. einstakra félagsmiðstöðva sem höfðar til þeirra sem fæddir eru eftir 1943-1950.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram tillögu í velferðarráði þess efnis að settur verði í gang vinnuhópur sem beiti aðferðum nýsköpunar til að þróa nýjar þjónustuleiðir og afþreyingu fyrir eldri borgara Reykjavíkur. Vel kann að vera að einhverjir eldri borgarar vildu taka meira þátt í sjálfboðaliðastarfsemi af ýmsu tagi. Einnig ætti alls staðar að vera boðið upp á aðstæður þar sem eldri borgarar og börn geti átt stund saman. Eldri borgarar hafa svo margt fram að færa, mikla reynslu og sögur að segja frá fyrri árum sem börnin hefðu bæði gagn og gaman af því að heyra. Það gleður hjarta fjölmargra eldri borgara að eiga samneyti við ungu kynslóðina og einnig að fá tækifæri til að umgangast gæludýr. Heimsókn hunda hefur tíðkast sums staðar og vakið mikinn fögnuð. Leita þarf leiða til að veita notendum, eldri borgurum í þessu tilfelli enn meiri lífsfyllingu og ánægju á efri árum.

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg fari i skoðun á þessu með það í huga hvort hægt er að breyta, bæta og nútímavæða starfið. Mikla áherslu verður að leggja á virkt notendasamráð á öllum stigum þegar verið er að skipuleggja félagsstarf eldri borgara enda er þetta þeirra félagsstarf sem um ræðir. Notendur þjónustunnar vita alltaf best og ætti aldrei að að skipuleggja neitt nema í samráði við þá.
 

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila