Ekkert eftir fyrir mat þennan mánuðinn

Fyrir nokkrum dögum réðist ég í fyrirbyggjandi viðhald á fasteign minni. Framkvæmdin var ekki stór í sniðum né tímafrek, ég keypti efni og vinnu iðnaðarmanns í fimm tíma.  Kostnaður við verkið með virðisaukaskatti var nokkru hærri en samanlagðar netto mánaðartekjur mínar frá lífeyrissjóði og Tryggingarstofnun, eftir skatt.

Ekkert eftir til að kaupa mat þennan mánuðinn!

Ólafur Kristófersson, Ritari Öldungaráðs Flokks fólksins

Ég fæ greiðslur úr allsæmilegum lífeyrissjóði  og að auki lágmarksgreiðslu frá Tryggingarstofnun,  skerta vegna tekna frá lífeyrissjóðnum.
Margir eldri borgarar hafa  lægri tekjur en ég. Samanlagðar eru  tekjur mínar kr. 300.000 á mánuði.

Ef ég á fé á bankareikning,  skerða vaxtatekjurnar greiðslur frá Tryggingarstofnun.
Ef ég á maka  sem á fé á bankareikning, þá eru vaxtatekjur okkar lagðar saman og deilt með tveimur, og við skerðumst jafnt hjá TR. Var einhver að tala um fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga?

Nýjustu rannsóknir sýna að meðallaun launafólks eru um kr. 700.000 á mánuði, fyrir skatt. Hefur rannsókn verið gerð á launum og lífeyri eldra fólks? Ekki svo ég viti, en ég veit að margt eldra fólk býr við þröngan kost, einkum fólk sem ekki hefur áunnið sér mikil réttindi í lífeyrissjóði. Sumir lífeyrissjóðir hafa skorið niður greiðslur af ýmsum orsökum.

Lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er  dýrt í rekstri. Þar er hægt að bæta úr til dæmis með því að sameina sjóði og  fækka þeim og lækka kostnað. Upphaflega áttu greiðslur frá lífeyrissjóðum að vera viðbót við lögbundinn lífeyri frá Almannatryggingum (nú Tryggingarstofnun). Það breyttist. Hverjir samþykktu þá breytingu?
Stundum er sagt að eldri borgarar viti ekkert hvað þeir vilji í kjaramálum. Nokkrar réttlætiskröfur ættu þó allir að geta sameinast um. :

  1. Skerðingar á greiðslum frá Tryggingarstofnun, vegna atvinnutekna, greiðslna úr lífeyrissjóðum og fjármagnstekna ber að afnema. Svona skerðingar þekkjast ekki í nálægum löndum. Afnema millifærslur vegna tekna maka, og banna  alla mismunun á því hvort fólk búi eitt, eða sé í sambúð eða hjónabandi. Heimilisuppót verði færð inn í grunngreiðsluna, sem verði jöfn til allra  sem rétt eiga á greiðslum frá TR.
  2. Tekjur undir kr. 300.000 verði skattfrjálsar. Þetta eigi jafnt við eftirlaunafólk og launþega. Þarna erum við samstíga verkalýðshreyfingunni. Hætt verði að skattleggja fátækt. Þar á að láta virðisaukaskattinn nægja, sem allir sem kaupa eitthvað.

Að mínu mati eru þetta lágmarkskröfur.

Er þetta ekki dýrt? Svar.: Alls ekki. Stór hluti kostnaðarins við þessar aðgerðir mun koma aftur til ríkisins sem virðisaukaskattur af aukinni veltu. Eldra fólk og láglaunafólk mun veita sér meira, kaupa meira af vörum og þjónustu. Það verður kærkomin innspýting í efnahagslífið þegar ferðaþjónustan sér fram á samdrátt.

Þetta kæmi einnig fram sem innlánaaukning hjá bönkum, og ekki síst í lækkandi sjúkrahúskostnaði og ummönnunarkostnaði hjá öldruðum. Langvarandi fátækt skerðir líkamlega og andlega heilsu. Er ekki  betra að eldra fólk geti valið þá þjónustu sjálft sem það þarfnast, og greitt  fyrir hana, en að halda því í fátækt?

Er hægt að ná þessu fram? Svar.: Já. Verkalýðshreyfingin er að fara af stað með sína kjarabaráttu í haust. Kjararáð og stjórnvöld hafa lagt línurnar fyrir  kjarabætur.
Eldri borgarar eiga að ganga í lið með verkalýðshreyfingunni og fá þar stuðning. Stjórnir Landssambands eldri borgara, og félaga eldri borgara eiga að vera í forystu. Þótt við getum ekki farið í verkfall, þá getum við mótmælt  á Austurvelli og víðar. Ég þakka Björgvin Guðmundssyni fyrir allar vel skrifuðu  greinarnar sem hann hefur birt um kjaramál eldra fólks. Er ekki kominn tími á breytingar?

Höfundur er Ólafur Kristófersson, ritari öldungaráðs Flokks fólksins.

 

Deila