Fjárhagslegt öryggi tugþúsunda fjölskyldna er fokið út í veður og vind. Vandinn sem heimilin standa frammi fyrir er tilbúinn í boði Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar og þau ættu ekki að standa frammi fyrir honum. Vandinn stafar eingöngu af því að aðgerðirnar gegn verðbólgunni eru svo miklu verri en verðbólgan sjálf. Ráðherrar hafa ítrekað sagt að lækkun verðbólgunnar sé stærsta hagsmunamál heimilanna.
Stærsta hagsmunamál heimilanna er að koma í veg fyrir að bankar og leigusalar geti hækkað afborganir eða leigu svo mikið að heimilin standi ekki undir því. Stærsta hagsmunamál heimilanna er að eiga fyrir fæði, klæði og húsnæði. Nú er mælt með því að heimilin lengi í snörunni með því að skuldbreyta yfir í verðtryggð lán en þá stöndum við frammi fyrir alvarlegri þversögn.
Yfirlýstur tilgangur vaxtahækkana er að minnka ráðstöfunarfé fólks til að draga úr þenslu. Að sögn seðlabankastjóra er ekki hægt að lækka vexti því að þá muni ráðstöfunarfé heimilanna ekki minnka og verðbólga aukast. Nú er staðreyndin sú að 45% húsnæðislána eru verðtryggð sem þýðir að stýrivaxtahækkanir hafa ekki áhrif á ráðstöfunarfé viðkomandi fjölskyldna. Um 30% heimila eru enn með óverðtryggð lán á föstum vöxtum þannig að ráðstöfunarfé þeirra hefur ekki heldur minnkað vegna 14 vaxtahækkana í röð. Eftir stendur að einungis 25% heimila hafa séð vaxtabyrði sína nær þrefaldast og ráðstöfunarfé minnka vegna þessara grimmdarlegu vaxtahækkana. Er það réttlætanlegt eða vænlegt til árangurs að aðeins 25% heimila séu að leggja sitt af mörkum til að halda niðri verðbólgu og þenslu? Og þrátt fyrir þetta hvetur Seðlabankinn heimilin til að koma sér undan vaxtahækkunum með því að fara í verðtryggð lán þannig að ráðstöfunarfé þeirra minnki örugglega sem minnst og þessi heimili geti haldið áfram að valda þenslunni. Hann hvetur fólk sem sagt til að draga úr virkni stýrivaxtanna. Sér viðskiptaráðherra heila brú í þessari hagfræði seðlabankastjóra? Og væri ekki bara best að hætta þessum vaxtahækkunum ef allir geta komist undan þeim með því að fara í verðtryggð lán?
Eða er leikurinn kannski til þess gerður að koma sem flestum þangað?