Nú þegar þjóðin sameinast um að hjálpa Grindvíkingum, sýna stjórnendur bankanna sitt rétta andlit, hafi það þá dulist einhverjum hingað til. Af sinni alkunnu rausn bjóða þeir Grindvíkingum upp á frystingu fasteignalána, með þeim hætti að greitt sé af lánum, en vextir og verðbætur bætast við höfuðstól. Þetta hljómar vel, þar til nánar er skoðað, því samkvæmt nýlegum greiðsluseðlum hafa lánþegar verið að greiða undir 10.000 krónur inn á húsnæðislán en allt að 490.000 krónur í vexti.
Í því samhengi er kostaboð bankanna ekki betra en að leyfa fólki að frysta tíuþúsundkallinn en bæta á sama tíma 490.000 krónum ofan á lánið á hverjum mánuði. Svona „lausnir“ voru boðnar í kjölfar bankahrunsins og enduðu án undantekninga með skelfingu. Það veit enginn hvað fram undan er þegar þetta er skrifað, en þó er ljóst að Grindvíkingar upplifa nú mikla fjárhagslega óvissu og er það með öllu óásættanlegt.
Það er ekki enn ljóst hvenær Grindvíkingar fá bætur fyrir það tjón sem þegar hefur orðið en með því að bjóða aðeins upp á frystingu afborgana opinberast sú ætlun bankanna að stinga hluta bótafjár Grindvíkinga í sinn eigin vasa.
Ef 50 milljónir hvíla á húsi með brunabótamat upp á 80 milljónir, þá mun bankinn að sjálfsögðu fá þær 50 milljónir til baka í því uppgjöri og húseigandinn 30 milljónir til að koma sér upp nýju húsnæði. Ef uppgjör dregst í þrjá mánuði, mun bankinn, samkvæmt fyrrnefndu dæmi, fá 51,5 milljónir í sinn hlut og dragist það í sex mánuði mun hann fá 53 milljónir og húseigandinn minna sem því nemur.
Venjulegt fólk sem hefur misst allt munar svo sannarlega um minna.
Maður spyr sig óneitanlega hvort enginn af stjórnendum bankanna búi yfir snefli af samkennd og hvort þeir finni aldrei fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni.
Bankarnir eru að fá sjálfsaflafé landsmanna í bílförmum til sín í formi vaxta, enda hafa þeir hagnast um 60 milljarða á fyrstu níu mánuðum þessa árs og hagnaður þeirra stefnir í 80 milljarða. Bankarnir eiga að gera betur en þetta gagnvart íbúum Grindavíkur. Í þetta eina skipti bið ég þá um að sýna snefil af samfélagslegri ábyrgð, í stað þess að senda reikninginn beint á fólkið sem þeir kalla viðskiptavini. Þeir verða einfaldlega að fella niður greiðslur af lánum Grindvíkinga þar til mál taka að skýrast.
Tímabundin niðurfelling vaxta og verðbóta felur ekki í sér tap fyrir bankana, heldur aðeins að hagnaður þeirra verður aðeins minni. Það er dropi í hafið hjá bönkunum en getur skipt sköpum fyrir fólk sem náttúruöflin hafa svipt öllu.
Krefjum bankana um samstöðu með Grindvíkingum.