Eldhúsdagsumræður – Ræða Ingu Sælands um fátækt og skerðingar.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Mikið afskaplega væri gaman ef við gætum horft á öll þau fögru orð sem hér hafa verið sögð verða að veruleika. Mikið væri nú gaman að vera Íslendingur, í hvaða stétt og stöðu sem er, ef við sem hingað komum reglulega upp til að hæla okkur af eigin verkum sýndum það virkilega og sönnuðum að við værum hér til að standa við orðin.

Flokkur fólksins var stofnaður til að berjast gegn fátækt á Íslandi. Ég horfi um öxl, hér stóð ég fyrir rúmu ári, jafnvel bjartsýn um að hugsanlega myndi eitthvað breytast, að hinn góði, yfirlýsti vilji ríkisstjórnarinnar yrði sýndur í verki. Það myndi kannski losna aðeins um fátæktargildrurnar sem herðir hér að kverkum okkar minnstu bræðra og systra.

En sú er ekki raunin, virðulegi forseti. Nú hellast inn um bréfalúguna skerðingarnar miklu frá Tryggingastofnun. Og hugsa sér, flestir þeir sem fá þessa miða inn um lúguna átta sig engan veginn á því hvers vegna þeir sem eru með rúmar 200.000 kr. í framfærslu á mánuði verða skertir núna á bilinu 25.000–30.000 kr. á mánuði vegna þess að þeir skulda, þeir fengu of mikið. Er ekki eitthvað að kerfi sem getur ekki einu sinni komið því betur til skila en svo til þeirra sem þurfa að stóla á þetta almannatryggingakerfi hvernig verður að umgangast þetta skrímsli svo ekki þurfi að horfast í augu við skerðingarnar hvert einasta ár og verða fyrir mismiklum áföllum þess vegna?

Virðulegur forseti. Flokkur fólksins hefur komið með mörg þingmál, þingsályktunartillögur og frumvörp, allt góð mál, allt mál sem eru í þá átt að reyna að koma til móts við okkar minnstu bræður og systur.

Eitt mál langar mig að nefna sérstaklega, afnám skerðingar á launatekjur aldraðra. Það er alveg sannað mál að það kostar ekki neitt. Oft er ríkisstjórnin á bremsunni og segir: Það er ekki endalaust hægt að ætlast til þess að mokað sé peningum úr ríkissjóði þar sem við þurfum að sýna aðhald núna, þar sem við horfum upp á að hagvöxturinn hefur fallið um tíma, þar sem við horfum upp á lægð. Hvernig er þá hægt að rökstyðja að ekki sé með góðu móti a.m.k. hægt að koma til móts við þennan litla þjóðfélagshóp? Það er lýðheilsumál fyrir þennan þjóðfélagshóp að gefa fólki kost á því að leggja sitt af mörkum og halda áfram að vinna án þess að vera skert.

Hvernig stendur á því að ár eftir ár skuli vera komið í eldhúsdagsumræður og talað um hluti og bjartsýni og allt svo æðislega frábært á meðan við vitum að þúsundir landa okkar sem eru að fylgjast með þessum umræðum eiga ekki eitt einasta orð og hugsa: Hvers vegna hef ég ekki fengið að taka þátt í þessu góðæri? Af hverju ekki ég? Hvar er öll þessi velsæld? Hvað hef ég gert af mér til að þurfa að þola það að lepja dauðann úr skel?

Ég hef ítrekað talað um að við höfum lög og reglur sem væri kannski lágmark að fylgja, sérstaklega af stjórnvöldum í landinu. Við eigum 2. málslið 69. gr. almannatryggingalaga sem segir að samkvæmt ákvörðun um launaþróun skuli aldrei hækka minna en verðlag samkvæmt neysluvísitölu en hún skal þó ávallt fyrst vera samkvæmt almennri launaþróun í landinu.

Hvar eru nú lífskjarasamningarnir fyrir þá sem eru í almannatryggingakerfinu? Hvar eru þeir lífskjarasamningar? Hvers vegna má ekki koma til móts við fátækasta fólkið í landinu og hækka hjá því um leið og er hækkað hjá öllum öðrum? Af hverju þarf að bíða þangað til 1. janúar ár hvert til að fylgja eftir þeirri lögbundnu skyldu sem ríkinu er lögð á herðar, að hækka samkvæmt 69. gr. framfærslu þeirra sem þurfa að nýta sér almannatryggingakerfið?

Ég á ekki svör við þessu. Ég get bara ekki skilið þetta. Allt sem við erum að glíma við í dag, allt sem við tölum um hér og nú, er mannanna verk. Ef við viljum breytingar og ef við ætlum að sjá breytingar eru þær einnig mannanna verk. Ég efast ekki um það í eina einustu mínútu að ef það væri raunverulegur vilji gætum við öll hér tekið saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, og gjörbreytt þessu landslagi. Við þurfum ekki að búa við kerfi sem er svo niðurnjörvað og grjóthart að það virðist ekki vera nokkur lifandi leið að hnika til nokkrum sköpuðum hlut nema þegar maður er löngu dauður. Það tekur marga áratugi að breyta einhverju svo ærlega að eftir verði tekið.

Mig langar að nefna nokkur mál sem Flokkur fólksins hefur reynt að koma inn í þinglega meðferð. Svo einkennilegt sem það er, og þannig virkar það að vera í stjórnarandstöðu, er alveg sama hversu gott málefnið er, það skal daga uppi í nefnd. Jú, það eru sendar út umsagnarbeiðnir. Jú, jú, það koma gestir, en nú er ekki hægt að gera neitt frekar fyrir málið — og farðu að sofa, ágæta mál. Þú færð aldrei að fara í þinglega meðferð vegna þess að sá sem leggur það fram er í minni hluta, er í stjórnarandstöðu. Þingmannamál eiga ekkert sérstaklega upp á pallborðið á þessu háa Alþingi. Það er kannski eitt sem væri vert að breyta, ekki satt?

Mig langar að segja ykkur eitt, það er ekki hægt að hætta hér án þess að nefna það. Hér er hópur formanna allra stjórnmálaflokkanna og við erum að vinna að breytingu á stjórnarskrá. Það er góður vilji. Mér er alveg sama hvað hver segir og mér er alveg sama í hvaða flokki og hvernig maður á að tala sem fulltrúi stjórnarandstöðu — það er virkilega góður vilji til að koma auðlindaákvæðinu inn í stjórnarskrá. Það er búið að senda það í umsagnargáttina. Fólkið okkar — þið, kæru landsmenn — getur farið og sagt álit sitt. Þið getið mótað auðlindaákvæðið með okkur og virkilega látið það ganga upp þannig að það virki. Ég furða mig hins vegar á því þegar við tölum núna — og ég ætla að nefna þriðja orkupakkann sem þið hafið örugglega aldrei heyrt nefndan áður [Hlátur í þingsal.] — það er merkilegt að ekki sé hægt að salta þann pakka þangað til auðlindaákvæðið er komið inn í stjórnarskrána sem verður væntanlega við næstu kosningar. Hvers vegna var það ekki hægt? Ég er frekar ung í faginu og hef kannski ekki allt of mikið vit á því hvernig þessi pólitík virkar en ég veit a.m.k. hvað ég sé hér og nú. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig engan veginn á því. Ég skora á ykkur öll hér: Hvernig væri að útrýma saman þjóðarskömminni fátækt? Hvernig væri að taka saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, og virkilega halda utan um auðlindirnar okkar og koma í veg fyrir að þær gangi undir eitthvert boðvald í Brussel? Hvernig væri það, virðulegi forseti? — Gleðilegt sumar, kæru landsmenn.

Deila