Eldra fólk á sama rétt

Hér á landi hafa ýmis embætti verið sett á laggirnar í því skyni að standa vörð um hagsmuni ákveðinna hópa í samfélaginu. Sem dæmi má nefna Umboðsmann barna sem hefur það hlutverk að vernda börnin gegn því að brotið sé á réttindum þeirra.

Hér á landi hafa ýmis embætti verið sett á laggirnar í því skyni að standa vörð um hagsmuni ákveðinna hópa í samfélaginu. Sem dæmi má nefna Umboðsmann barna sem hefur það hlutverk að vernda börnin gegn því að brotið sé á réttindum þeirra. Réttindagæslumenn fatlaðs fólks gæta þess að ekki sé brotið gegn réttindum fatlaðra og veita þeim aðstoð við að fylgja eftir réttindum sínum. Á vegum Umboðsmanns Alþingis er starfrækt svokallað OPCAT-eftirlit sem hefur það hlutverk að fylgjast með því, hvort yfirvöld virða réttindi frelsissvipts fólks, svo sem í fangelsum og á geðheilbrigðisstofnunum.

Það er löngu tímabært að tryggja eldra fólki sambærilega réttindavörslu. Aldraðir hafa lent utan garðs hjá stjórnvöldum sem taka ekki tillit til þeirra sem skyldi. Ekki er nóg með að lífsgæði aldraðra og sjálfstæði sé heft með því að skilja þá eftir varnarlausa gagnvart þeirri öru stafrænu þróun sem við þekkjum orðið vel. Sama hvað við hin höfum um hana að segja sem getum og höfum tileinkað okkur tæknina, þá treysta þúsundir aldraðra sér ekki til þess. Eldra fólk þarf oftar að eiga í samskiptum við hið opinbera en áður. Það sem þótti sjálfsagt og vafðist ekki fyrir í daglegu lífi getur með hækkandi aldri orðið að yfirþyrmandi hindrun sem veldur óöryggi, vanlíðan og kvíða.

Sambandsleysi

Ég bý við þau ómetanlegu forréttindi að eiga báða foreldra á lífi. Þar af leiðandi hef ég fengið að kynnast því hvernig breytingarnar á samfélaginu, sem okkur hinum yngri þykja svo sjálfsagðar, hafa verið þeim fjötur um fót. Öll samskipti við lífeyrissjóði, Tryggingastofnun, læknisþjónustu, og að skila skattframtalinu er óyfirstíganlegur þröskuldur sem þarf aðstoð við. Allt það sem kallar á .is eins og skilaboðin sem segja: farðu inn á heilsuvera.is eða farðu inn á tr.is, svo eitthvað sé nefnt, er gjörsamlega að taka þau úr sambandi. Sjálfstæði þeirra er mölbrotið í boði stjórnvalda sem hafa gleymt því í öllum flýtinum við að innleiða nýja tækni, að enn eru á lífi þúsundir Íslendinga sem einfaldlega treysta sér ekki til að vera með í þessari framþróun.

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram á Alþingi tillögur um stofnun embættis hagsmunafulltrúa aldraðra. Loks sl. vor samþykkti þingið tillögu sem felur stjórnvöldum að semja frumvarp í samráði við helstu hagsmunasamtök eldra fólks og skila drögum um málið fyrir 1. apríl 2022. Von mín er sú að komandi ríkisstjórn sýni öldruðum þá vinsemd og virðingu að færa þeim hagsmunafulltrúann sem þau hafa beðið eftir allt of lengi.

Léttum öldruðum lífið, það er það minnsta sem við getum gert.

Höfundur er formaður Flokks fólksins.

Deila