„En hvers vegna erum við enn að skatt­leggja fá­tækt?“

Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, spurði hvað hefði verið gert í mál­efn­um þeirra sem minna mega sín í sam­fé­lag­inu síðan hún og flokk­ur henn­ar komst á þing fyr­ir tveim­ur árum. Hún sagði það þyngra en tár­um tæki að sama og ekk­ert hefði gerst. 

Ólíkt flest­um öðrum þing­mönn­um sem ræddu um stefnuræðu Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra flutti Inga ræðu sína blaðalaust.

Stjórn­ar­liðar höfðu talað vel um vænt­an­leg­ar skatta­lækk­an­ir sem kynnt­ar hafa verið í fjár­mála­áætl­un næsta árs. Inga spurði hins veg­ar hvers vegna það væri verið að hrópa húrra fyr­ir skatta­lækk­un upp á tíu þúsund krón­ur sem yrði að veru­leika eft­ir tvö ár.

„Á sama tíma fá for­stjór­ar rík­is­fyr­ir­tækja og banka­stjór­ar vel yfir millj­ón í launa­hækk­un á mánuði,“ sagði Inga og var aug­ljós­lega mikið niðri fyr­ir.

Hún sagði að vænt­an­leg­ar skatta­lækk­an­ir handa þeim tekju­lægstu væru ekki neitt neitt. „242 þúsund krón­ur verða 252 þúsund krón­ur eft­ir tvö ár. Þessi frá­bæra vel­ferðar­stjórn hef­ur skilað því til fá­tækra,“ sagði Inga í kald­hæðnistón.

Hún nefndi að um tíu pró­sent barna liðu enn skort og stór hluti barna lifði hluta úr mánuði hverj­um á núðlupökk­um sem kosta 25 krón­ur. Auk þess minnt­ist hún á langa biðlista eldri borg­ara sem hefðu ekki efni á að leita sér lækn­inga eða lyfja. 

Eigi ekki að skatt­leggja fá­tækt

„Er eitt­hvað til ráða?“ spurði Inga og svaraði því fljótt sjálf að auðvitað væri hægt að gera eitt­hvað. „Bara ef við stönd­um sam­an og fram­kvæm­um í stað þess að tala hér og þykj­ast vera rosa­lega góð.“

Hún sagði Flokk fólks­ins vera með lausn­ir og að þær hefði hún boðað ít­rekað. Ein­hver stefnu­mál henn­ar hefðu gengið eft­ir og það væri gott. „En hvers vegna erum við enn að skatt­leggja fá­tækt?“

Hún sagði að 50% launþega hefðu 441 þúsund krón­ur á laun í mánuði fyr­ir skatt. „Hve stór hluti af þeim er fjöl­skyldu­fólk með börn? Hvað geta þess­ir for­eldr­ar veitt börn­un­um sín­um? Eins og einn ráðherra sagði áðan; frelsi til að njóta sín og skara fram úr í íþrótt­um. Nei, þau búa ekki við neitt frelsi. Þau búa í fjötr­um fá­tækt­ar. Það virðist þing­heim­ur aldrei ætla að geta skilið,“ sagði Inga. 

Hún sagði að það væri þing­heims að reyna að jafna kjör­in. Það væri kom­inn tími til að gefa Flokki fólks­ins tæki­færi til að standa við stóru orðin. „Við erum með fjár­magn og lausn­ir. Við vilj­um ekki skatt­leggja fá­tækt.“

 
Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila