Er best fyrir eldri borgara að kjósa Framsókn?

Þann 19. september skrifaði Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, grein í Morgunblaðið þar sem hún hrósar bæði sjálfri sér og flokknum fyrir allt sem þau hafi gert fyrir eftirlaunaþega á Íslandi. Nú, líkt og áður, á að dusta rykið af gömlu leikbókinni og innantóm kosningaloforð eru sett á oddinn. Látum í staðinn verkin tala og skoðum það sem raunverulega hefur verið gert á þessu kjörtímabili:

Ingibjörg byrjar á því að segja: „Við í Framsókn höfum lagt áherslu á að vernda hag eldri borgara og síðustu ár hafa mikilvæg skref verið tekin í átt að því að bæta kjör þeirra.“ Þessi fullyrðing er ekki á rökum reist.

Á þessu kjörtímabili hefur fjöldi aldraðra á biðlistum eftir hjúkrunarrými aukist um 30%. Þrátt fyrir brýna þörf fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma hefur þeim hlutfallslega fækkað um 10% og fjöldi aldraðra sem bíða á sjúkrahúsi eftir hjúkrunarrými hefur meira en tvöfaldast.

Landspítalinn stefnir í að verða stærsta hjúkrunarheimili landsins vegna eldra fólks sem liggur á göngum bráðalegudeildar á meðan það bíður, ásamt 800 öðrum, á biðlista eftir hjúkrunarrými. Heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins hefur íhugað að leysa þennan vanda með því að flytja þetta fólk burt frá fjölskyldum sínum með hreppaflutningum í önnur sveitarfélög.

Aðgengi eldra fólks að viðeigandi heilbrigðisþjónustu hefur skerst verulega á síðustu fjórum árum. Þeim sem þurfa að bíða í meira en þrjá mánuði eftir aðgerð hefur fjölgað um tæplega 20% og allt þetta kjörtímabil hefur ríkt neyðarástand á bráðamóttöku Landspítalans, þar sem aldrað fólk er látið dúsa heilu næturnar á opnum göngum. Aldraðir hafa heldur ekki sloppið undan húsnæðisskortstefnu stjórnvalda, þar sem alvarlegur skortur er á íbúðum fyrir aldraða.

Ingibjörg heldur áfram í grein sinni: „Eitt af þessum skrefum er tillaga í fjárlögum sem nú eru til umræðu á þinginu. Hækkun á almenna frítekjumarkinu fyrir eldri borgara.“ Þar vísar hún í tillögu ríkisstjórnarinnar um að hækka almennt frítekjumark eldri borgara úr 25.000 kr. í 36.500 kr. á mánuði.

Yfir síðustu tvö kjörtímabil hefur Flokkur fólksins sjö sinnum lagt fram frumvarp á Alþingi um að hækka frítekjumark vegna lífeyristekna úr 25.000 kr. í 100.000 kr. Í hvert skipti sem málið var lagt fram tók ríkisstjórnin afstöðu gegn því og svæfði það í nefnd til að koma í veg fyrir að frumvarpið fengi þinglega meðferð og færi í atkvæðagreiðslu.

Það er sérstaklega vandræðalegt fyrir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að þykjast berjast fyrir hagsmunum aldraðra á sama tíma og þeir hafa staðfastlega barist gegn málum þeirra síðastliðin sjö ár.

En hvers vegna leggur ríkisstjórnin allt í einu fram þingmál sem hækkar frítekjumark eldri borgara um aðeins nokkur þúsund krónur nokkrum mánuðum fyrir kosningar? Má vera að einhverjir sérfræðingar innan flokksins hafi áttað sig á því hversu óheppilegt það væri í komandi kosningabaráttu ef frítekjumörk eldra fólks hefðu staðið í stað í 15 ár? Nú þegar ríkisstjórnarflokkarnir fari að lofa eldri borgurum öllu fögru geti þeir stært sig af því að hafa hækkað frítekjumörkin, þótt það sé aðeins um nokkur þúsund krónur. Kannski dugar það í 15 ár í viðbót?

Ég trúi því ekki að eldra fólk láti blekkjast einu sinni enn. Augljóst er að hagsmunir eftirlaunaþega eru mjög aftarlega í forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Næst þegar einhver spyr hvort það sé „bara ekki best að kjósa Framsókn“, þá er ljóst að svarið hlýtur að vera: „Nei, takk!“

Deila