Ríkisstjórnin státar af því að hér sé kaupmáttur hvað mestur. Jafnvel mun meiri en í löndunum í kringum okkur. Vita þau ekki að það dettur engum í hug að trúa þessu bulli? Er eitthvað sambærilegt að miða saman viðvarandi verðbólgu og okurvexti sem við erum að bugast undan, við lönd þar sem farsællega hefur tekist að kveða verðbólgudrauginn í kútinn og halda vöxtum mörgum sinnum lægri en hér? Eitt er víst að enginn af stjórnmálaleiðtogum þjóðanna sem við berum okkur saman við hefði ráðist að samfélaginu með krónutöluhækkunum og milljarða kosningaloforðum um hallarbyggingu og Borgarlínu. Hver og ein einasta þessara ríkisstjórna barðist af afli gegn hvers konar þensluvaldandi aðgerðum og uppskáru eins og þær sáðu. Náðu að koma jafnvægi á efnahagsreikninginn og vernda samfélagið gegn þeirri ágjöf sem íslenska ríkisstjórnin hefur sturtað yfir skuldsett íslensk heimili og fyrirtæki. Það er sama hvernig þau reyna að fegra hlutina, við vitum öll að það er innantómt blaður.
Á sama tíma og ráðamenn reyna að telja þeim sem eru að sligast undan okurlánunum trú um að þeir séu jú í fínum málum þá birti milliinnheimtufyrirtækið Motus yfirlýsingu um 20,1% vöxt á alvarlegum vanskilum heimilanna frá áramótum. En þetta er jú „allt í lagi“ þar sem eignamyndun heimilanna okkar hefur verið svo rífleg eins og forsætisráðherra fær ekki leiða á að minna okkur á. Við erum alltaf að græða á ófremdarástandinu og óráðsíunni sem hann og ríkisstjórn hans hefur komið til leiðar.
Staðreyndin er sú að við erum ekki að fara að selja ofan af okkur þakið til að innleysa þennan uppsafnaða hagnað, er það? Við etum ekki steinsteypuna, er það? Skiptir það einhverju máli hvers virði fasteignin okkar er ef hún er heimilið okkar og eina þakið sem við eigum yfir höfuðið? Hinn almenni borgari er ekki fjárfestir sem safnar fasteignum í taumlausri græðgi. Þar sem Matador-stemningin ríður röftum og engu er eirt. Þar sem hátt í 80% leiguíbúða á landinu er komið í fang græðgisvæddra leigufélaga sem njóta þess ófremdarástands sem skapast hefur í skortstefnu stjórnvalda. Það er hjákátlega aumkunarvert að heyra þessa óhæfu ríkistjórn guma af því að aldrei hafi verið byggt meira. Hvaða máli skiptir það í samhengi hlutanna þegar það er aldrei byggt nóg? Það er stórkostleg vöntun á húsnæði. Það er staðreynd.
Það að koma sér þaki yfir höfuðið þykja sjálfsögð mannréttindi í öllum siðmenntuðum samfélögum. Á Íslandi eru það forréttindi, nema fyrir suma.
- +354 831-6200
- flokkurfolksins@flokkurfolksins.is