Er erfitt að skilja réttlæti?

Réttlæti hefur verið gert að bannorði í íslenskri pólitík. Það er talið of „gildishlaðið“ orð sem erfitt er að skilgreina. En er það svo? Alþingismaður hefur sagt mér að ekkert þýði að ræða „réttlæti“ inni á Alþingi. Þannig orðræða sé alltaf skotin í kaf. Einnig sagði lögfræðingur orðrétt þegar ég var ekki sátt við hvernig brotið var mér: „Þú verður að átta þig á að þetta snýst ekkert um réttlæti“ og var þá m.a. að vísa í lög og dómstóla.

Þetta er eitt af því sorglegasta sem ég hef heyrt. Því ég hreinlega skil ekki hvað stjórnmál, störf Alþingis, lög, réttur, dómstólar og bara „kerfið“ allt á að snúast um, ef ekki réttlæti.

Réttlæti er ekki flókið

Það er hagur „kerfisins“ og allt of margra stjórnmálamanna, að gera einföld mál flókin. Jú, réttlæti er gildishlaðið hugtak en það er einfaldlega af því það felur í sér gildi. Það felur í sér þau grundavallargildi sem öll samfélög eiga að byggjast á.

Ég held að fæstum lesendum finnist erfitt að þekkja eða skilja réttlæti. Það þarf sérstaka „hæfni“ sem sprettur af margra ára samsömun með óréttlátu kerfi fyrir slíkt uppgerðar skilningsleysi.

Það eru þeir sem þrífast og hagnast á óréttlæti sem vilja gera hugtakið flókið og óskiljanlegt.

Staðreyndin er hins vegar sú að almennt spáum við ekkert mikið í réttlætið fyrr en við horfumst í augu við óréttlætið, en þá er fjarvera réttlætisins líka svo augljós að hún er næstum því líkamlega sár.

Þess vegna verður ákall um réttlæti oft tilfinningaþrungið sem passar illa í tilfinningalausa stjórnmálaumræðu.

Sjálfsagðar og réttlátar kröfur

Flokkur fólksins berst gegn óréttlæti. Kröfur okkar eru svo sjálfsagðar að fyrir þeim ætti enginn að þurfa að berjast.

Krafan um að allir geti lifað hófsömu og mannsæmandi lífi er bæði sjálfsögð og réttlát.

Krafan um að fólk fái að eldast með reisn og geti notið efri áranna eftir því sem heilsan leyfir, er bæði sjálfsögð og réttlát.

Krafan um að allir eigi kost á góðri heilbrigðisþjónustu er bæði sjálfsögð og réttlát.

Krafan um að börn upplifi ekki mismunun á grundvelli efnahags er bæði sjálfsögð og réttlát.

Krafan um að arðurinn af auðlindum þjóðarinnar skili sér til þjóðarinnar í stað þess hlaðast í fárra hendur, er bæði sjálfsögð og réttlát.

Krafan um að þeir sem urðu fyrir óréttlæti og jafnvel misstu heimili sín í kjölfar bankahrunsins fái uppreist æru, er bæði sjálfsögð og réttlát.

Málsvarar réttlætis fyrir alla

Lífið á Íslandi er mörgum mjög gott. Margir geta leyft sér ýmislegt og notið þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er gott og þannig á það að vera.

Gallinn er bara sá að það eru allt of margir sem hafa það alls ekki gott. Stór hluti þess hóps eru fólk sem lent hefur í áföllum, slysum eða veikindum sem gerðu engin boð á undan sér og ekki má gleyma þeim hluta aldraðra sem hefur lítið sem ekkert handanna á milli, þrátt fyrir að hafa aldrei fallið verk úr hendi á starfsævinni.

Við erum öll sammála um að það er alveg nóg að takast á við erfiða sjúkdóma án þess að búa í ofanálag við stöðugar fjárhagsáhyggjur. Fólk í þessari stöðu hefur alvöru fjárhagsáhyggjur. Ekki áhyggjur af því að hafa eytt aðeins um efni fram í útlöndum eða keypt þér nýjan bíl. Nei, þeirra áhyggjur snúast um næstu máltíð, að hafa efni á nauðsynlegum lyfjum, að halda húsnæði sínu.

Það er ekkert réttlæti í því að sumir veikjast og aðrir ekki. Við getum ekkert gert í því en við getum sleppt því að gera slæmt ástand verra. Við getum séð til þess að „kerfið“ okkar takið utan um þetta fólk í stað þess að hrinda því frá sér til fátæktar.

350.000 skatta- og skerðingalaust

Flokkur fólksins vill að lágmarkstekjur almennings hér á landi verði 350.000 kr. á mánuði, skatta og skerðingalaust.

Þó það myndi breyta lífi þessara einstaklinga, sjáum við öll að þessi tala er engin ofrausn, hún er algert lágmark til að fólk fái lifað mannsæmandi lífi

Getum við ekki að minnsta kosti staðið saman um þessa kröfu?

————————————————

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og í 1. sæti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi

Deila