Í skýrslu heilbrigðisráðherra til undirritaðs og fleiri þingmanna um áhrif kórónuveirufaraldursins á biðlista í heilbrigðiskerfinu var sérstaklega óskað eftir að fjallað væri um hvernig biðlistar hafa þróast eftir að kórónuveirufaraldurinn kom upp í landinu, sem og hvaða aðferðum hefur verið beitt til að takmarka vöxt biðlista og vinna niður biðlista í framtíðinni.
Í skýrslunni kemur fram að vegna Covid-19 hafi biðlistar lengst um 102% eftir ákveðinni aðgerð hjá konum og 118% eftir annarri, einnig hjá konum. Þar að auki er lenging á biðlista 94% vegna gallsteina, 78% vegna aðgerða á augasteinum, 67% vegna liðskipta á hné og 64% vegna liðskipta á mjöðm, allt vegna Covid-19.
Hjá átröskunarteyminu er lengingin 50,9% og hjá ADHD-teyminu er hún um 43,4% vegna Covid-19. Hjá átröskunarteyminu hefur biðin farið úr 18,4 vikum í 44,7 vikur eða úr þremur mánuðum í nærri 11 mánuði. Ástæðan er húsnæðisvandi og þá einnig fækkun starfsmanna, Covid-19, nýliðun, afleysingar og starfsþjálfun.
Hjá þunglyndis- og kvíðateymi er skortur á fagfólki sem lengir biðlistann og hægir á inntöku nýrra mála. Fjöldi beiðna á bið eftir sálfræðiþjónustu 1. febrúar 2020 var 539 en 2021 var hann 1.344. Þá telur hluti heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni lengingu biðlista vera vegna manneklu frekar en Covid-19.
Flokkur fólksins mun berjast með öllum ráðum fyrir að heilbrigðiskerfið okkar sé í lagi og að ekkert barn sé á biðlista, því eitt barn á þeim lista er einu barni of mikið.
Því miður virðist heilbrigðiskerfið okkar komið yfir þolmörk, en spurningin er hversu mikið og hve alvarlega? Hver er hættan á auknum heilsufarslegum skaða hjá veiku fólki á biðlistum sem er núna að bíða eftir aðgerðum?
Ég get ekki annað en dáðst að heilbrigðisstarfsfólk okkar eftir frábæran árangur við bólusetningu og það á svo sannarlega lof skilið eftir baráttuna við Covid-19.
Það er stóraukinn mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu, hvers vegna? Er flótti úr kerfinu vegna álags, kulnunar í starfi, of fáir útskrifist úr námi eða vegna Covid-19? Sjáum til þess að heilbrigðisfólk sé ekki að vinna við óboðlegt álag og brenni upp í starfi.
Við vitum að það vantar marga sérfræðinga á bráðadeild Landspítalans. Það hlýtur að skapa hættu.
Er það ekki fáránlegt að kona sem á að vera löngu komin í leghálsskimun segi að hún þori ekki að fara í skimun vegna þess að hún sé svo hrædd um að sýnið hjá henni týnist? Hún þorir ekki að fara og hún ætlar ekki að fara fyrr en búið verður að ganga frá því þannig að allt ferlið fari fram hérna heima.
Flokkur fólksins segir fólkið fyrst og komum heilbrigðiskerfinu strax í lag og sjáum til þess að engin sé á biðlista eftir lífsnauðsynlegri aðgerð.
Guðmundur Ingi Kristinsson