Er heilbrigðiskerfi á bið og yfir þolmörkum?

Í skýrslu heil­brigðisráðherra til und­ir­ritaðs og fleiri þing­manna um áhrif kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins á biðlista í heil­brigðis­kerf­inu var sér­stak­lega óskað eft­ir að fjallað væri um hvernig biðlist­ar hafa þró­ast eft­ir að kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn kom upp í land­inu, sem og hvaða aðferðum hef­ur verið beitt til að tak­marka vöxt biðlista og vinna niður biðlista í framtíðinni.

Í skýrsl­unni kem­ur fram að vegna Covid-19 hafi biðlist­ar lengst um 102% eft­ir ákveðinni aðgerð hjá kon­um og 118% eft­ir ann­arri, einnig hjá kon­um. Þar að auki er leng­ing á biðlista 94% vegna gall­steina, 78% vegna aðgerða á auga­stein­um, 67% vegna liðskipta á hné og 64% vegna liðskipta á mjöðm, allt vegna Covid-19.

Hjá átrösk­un­art­eym­inu er leng­ing­in 50,9% og hjá ADHD-teym­inu er hún um 43,4% vegna Covid-19. Hjá átrösk­un­art­eym­inu hef­ur biðin farið úr 18,4 vik­um í 44,7 vik­ur eða úr þrem­ur mánuðum í nærri 11 mánuði. Ástæðan er hús­næðis­vandi og þá einnig fækk­un starfs­manna, Covid-19, nýliðun, af­leys­ing­ar og starfsþjálf­un.

Hjá þung­lynd­is- og kvíðat­eymi er skort­ur á fag­fólki sem leng­ir biðlist­ann og hæg­ir á inn­töku nýrra mála. Fjöldi beiðna á bið eft­ir sál­fræðiþjón­ustu 1. fe­brú­ar 2020 var 539 en 2021 var hann 1.344. Þá tel­ur hluti heil­brigðis­stofn­ana á lands­byggðinni leng­ingu biðlista vera vegna mann­eklu frek­ar en Covid-19.

Flokk­ur fólks­ins mun berj­ast með öll­um ráðum fyr­ir að heil­brigðis­kerfið okk­ar sé í lagi og að ekk­ert barn sé á biðlista, því eitt barn á þeim lista er einu barni of mikið.

Því miður virðist heil­brigðis­kerfið okk­ar komið yfir þol­mörk, en spurn­ing­in er hversu mikið og hve al­var­lega? Hver er hætt­an á aukn­um heilsu­fars­leg­um skaða hjá veiku fólki á biðlist­um sem er núna að bíða eft­ir aðgerðum?

Ég get ekki annað en dáðst að heil­brigðis­starfs­fólk okk­ar eft­ir frá­bær­an ár­ang­ur við bólu­setn­ingu og það á svo sann­ar­lega lof skilið eft­ir bar­átt­una við Covid-19.

Það er stór­auk­inn mönn­un­ar­vandi í heil­brigðis­kerf­inu, hvers vegna? Er flótti úr kerf­inu vegna álags, kuln­un­ar í starfi, of fáir út­skrif­ist úr námi eða vegna Covid-19? Sjá­um til þess að heil­brigðis­fólk sé ekki að vinna við óboðlegt álag og brenni upp í starfi.

Við vit­um að það vant­ar marga sér­fræðinga á bráðadeild Land­spít­al­ans. Það hlýt­ur að skapa hættu.

Er það ekki fá­rán­legt að kona sem á að vera löngu kom­in í leg­háls­skimun segi að hún þori ekki að fara í skimun vegna þess að hún sé svo hrædd um að sýnið hjá henni týn­ist? Hún þorir ekki að fara og hún ætl­ar ekki að fara fyrr en búið verður að ganga frá því þannig að allt ferlið fari fram hérna heima.

Flokk­ur fólks­ins seg­ir fólkið fyrst og kom­um heil­brigðis­kerf­inu strax í lag og sjá­um til þess að eng­in sé á biðlista eft­ir lífs­nauðsyn­legri aðgerð.

Guðmundur Ingi Kristinsson

Deila