Er veruleikafirringin algjör?

Hér á landi eru fjár­sterk­ir og valda­mikl­ir hóp­ar sem haga segl­um eft­ir vindi.

Sama hvernig viðrar þá er annaðhvort of lít­ill eða of mik­ill hag­vöxt­ur fyr­ir launa­hækk­an­ir. Venju­legt fólk fær aldrei að upp­skera ávöxt erfiðis síns, hvað þá að njóta vaf­ans. Við skul­um ekki ef­ast um að verðbólg­an hent­ar hinum fjár­sterku. Við sjá­um það á hagnaði bank­anna og ým­issa stór­fyr­ir­tækja, þar sem hvert metið er slegið á fæt­ur öðru. Veiðilend­ur viðskipta­bank­anna eru heim­ili lands­ins sem mörg berj­ast nú í bökk­um vegna yf­ir­gengi­legr­ar græðgi og arðsem­is­kröfu fjár­festa.

Kröf­ur venju­legs launa­fólks um að eiga fyr­ir fæði, klæði og hús­næði, eru eit­ur í bein­um þess­ara hópa. Þeim þykir það fá­rán­leg og óá­byrg krafa að verka­lýðsfé­lög fari fram á laun sem duga til fram­færslu, því það get­ur komið eitt­hvað niður á of­ur­hagnaði þess­ara fyr­ir­tækja, en gera mun ít­ar­legri kröf­ur um ávöxt­un eig­in hluta­fjár. Rík­is­stjórn­in og Seðlabank­inn ger­ast hand­bendi fjár­magnseig­enda. All­ar aðgerðir miða að því að tryggja þeirra hlut. Það er al­menn­ing­ur sem ber þung­ann og búið er að flokka sem „ásætt­an­leg­an fórn­ar­kostnað“.

Breiðfylk­ing verka­lýðsfé­lag­anna setti fram vel ígrunduð samn­ings­drög með það að mark­miði að ná niður verðbólgu og vöxt­um og auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur fólks með öðrum hætti en bein­um launa­hækk­un­um. Til­lög­um þeirra hef­ur verið hafnað, bæði af rík­is­stjórn­inni og Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins, með til­vís­un í „heild­ar­hags­muni“. Heild­ar­hags­muni hverra? Ekki eru það hags­mun­ir heim­il­anna.

Formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins sagði, um leið og hann hengdi ábyrgðina á kjara­samn­ing­um um háls Grind­vík­inga, að það yrði að gera þá kröfu til allra að þau „tækju til­lit til heild­araðstæðna“ því eng­in ættu að vera tek­in úr þeim „heild­araðstæðum sem við öll vær­um föst í“.

Heild­araðstæðurn­ar eru ein­fald­lega þær að þúsund­ir heim­ila standa ekki und­ir hús­næðis­kostnaði sín­um. Hvernig ætl­ar rík­is­stjórn­in að bregðast við því?

Staðreynd­in er sú að vegna óhóf­legra vaxta­hækk­ana, þar sem öllu meðal­hófi var fleygt út um glugg­ann, standa þúsund­ir heim­ila höll­um fæti. Ef ekki væri fyr­ir vaxta­byrðina, þyrftu verka­lýðsfé­lög­in ekki að kalla eft­ir 25 millj­arða króna leiðrétt­ingu á til­færslu­kerf­un­um.

Við vit­um að vaxta­lækk­an­ir hugn­ast ekki þeim sem rík­is­stjórn­in hef­ur fram­selt vald sitt til, Seðlabank­an­um. Því þó það sé erfitt að ímynda sér það er veru­leikafirr­ing­in jafn­vel enn meiri þar en hjá rík­is­stjórn­inni. Í Svörtu­loft­um virðast vaxta­lækk­an­ir hljóma eins og föður­lands­svik á meðan því er ein­mitt þver­öfugt farið.

Það er lyk­il­atriði að lækka vexti og létta þannig byrðar heim­il­anna. Verka­lýðshreyf­ing­in hef­ur unnið heima­vinn­una sína. Rík­is­stjórn­in ætti að taka hana sér til fyr­ir­mynd­ar og fara að vinna fyr­ir fólkið í land­inu.

Deila