Hér á landi eru fjársterkir og valdamiklir hópar sem haga seglum eftir vindi.
Sama hvernig viðrar þá er annaðhvort of lítill eða of mikill hagvöxtur fyrir launahækkanir. Venjulegt fólk fær aldrei að uppskera ávöxt erfiðis síns, hvað þá að njóta vafans. Við skulum ekki efast um að verðbólgan hentar hinum fjársterku. Við sjáum það á hagnaði bankanna og ýmissa stórfyrirtækja, þar sem hvert metið er slegið á fætur öðru. Veiðilendur viðskiptabankanna eru heimili landsins sem mörg berjast nú í bökkum vegna yfirgengilegrar græðgi og arðsemiskröfu fjárfesta.
Kröfur venjulegs launafólks um að eiga fyrir fæði, klæði og húsnæði, eru eitur í beinum þessara hópa. Þeim þykir það fáránleg og óábyrg krafa að verkalýðsfélög fari fram á laun sem duga til framfærslu, því það getur komið eitthvað niður á ofurhagnaði þessara fyrirtækja, en gera mun ítarlegri kröfur um ávöxtun eigin hlutafjár. Ríkisstjórnin og Seðlabankinn gerast handbendi fjármagnseigenda. Allar aðgerðir miða að því að tryggja þeirra hlut. Það er almenningur sem ber þungann og búið er að flokka sem „ásættanlegan fórnarkostnað“.
Breiðfylking verkalýðsfélaganna setti fram vel ígrunduð samningsdrög með það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum og auka ráðstöfunartekjur fólks með öðrum hætti en beinum launahækkunum. Tillögum þeirra hefur verið hafnað, bæði af ríkisstjórninni og Samtökum atvinnulífsins, með tilvísun í „heildarhagsmuni“. Heildarhagsmuni hverra? Ekki eru það hagsmunir heimilanna.
Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði, um leið og hann hengdi ábyrgðina á kjarasamningum um háls Grindvíkinga, að það yrði að gera þá kröfu til allra að þau „tækju tillit til heildaraðstæðna“ því engin ættu að vera tekin úr þeim „heildaraðstæðum sem við öll værum föst í“.
Heildaraðstæðurnar eru einfaldlega þær að þúsundir heimila standa ekki undir húsnæðiskostnaði sínum. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við því?
Staðreyndin er sú að vegna óhóflegra vaxtahækkana, þar sem öllu meðalhófi var fleygt út um gluggann, standa þúsundir heimila höllum fæti. Ef ekki væri fyrir vaxtabyrðina, þyrftu verkalýðsfélögin ekki að kalla eftir 25 milljarða króna leiðréttingu á tilfærslukerfunum.
Við vitum að vaxtalækkanir hugnast ekki þeim sem ríkisstjórnin hefur framselt vald sitt til, Seðlabankanum. Því þó það sé erfitt að ímynda sér það er veruleikafirringin jafnvel enn meiri þar en hjá ríkisstjórninni. Í Svörtuloftum virðast vaxtalækkanir hljóma eins og föðurlandssvik á meðan því er einmitt þveröfugt farið.
Það er lykilatriði að lækka vexti og létta þannig byrðar heimilanna. Verkalýðshreyfingin hefur unnið heimavinnuna sína. Ríkisstjórnin ætti að taka hana sér til fyrirmyndar og fara að vinna fyrir fólkið í landinu.