Étið það sem úti frýs

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, hóf fyrsta óundirbúna fyrirspurnatíma Alþingis á nýju ári á því að spyrja félagsmálaráðherra hvort til skoðunar væri að framlengja tímabil atvinnuleysisbóta úr þrjátíu mánuðum.

Guðmundur reifaði atvinnuleysistölur og sagði þrisvar sinnum fleiri glíma við langtímaatvinnuleysi nú en árið 2019. Útlit væri fyrir að fleiri hundruð falli af bótum á þessu ári. 

Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á fólk samtals átt rétt á atvinnuleysisbótum í þrjátíu mánuði frá því að sótt er um bætur hjá Vinnumálastofnun. Guðmundur Ingi sagði mikilvægt að lengja þetta tímabil í ljósi stöðunnar til þess að „einhver von sé fyrir þetta fólk að lenda ekki í sárafátækt.“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir þetta hafa verið til skoðunar. Félagsmálaráðuneytið fundi reglulega með Félagsþjónustu sveitarfélaga og sé með tölfræði frá Vinnumálastofnun um hversu margir séu að klára sinn bótarétt. „Við höfum skoðað þetta en það er ekki liggur ekki fyrir ákvörðun um framlengingu.“

Guðmundur Ingi sagði svör ráðherra heldur rýr. „Að skoða þetta. Það er eins og að segja fólkið: Étið það sem úti frýs, en þar er ekkert að hafa lengur. Það er ekkert að hafa fyrir þetta fólk. Það er stór hópur fólks sem bíður í röðum eftir mat og þessi hópur mun bætast við.“

Ásmundur Einar ítrekaði að fylgst væri með málinu. „Við erum áfram að vakta þetta, við ætlum okkur að halda utan um fólk í þessum faraldri eftir því sem hann dregst á langinn. Þá munum við grípa til frekari aðgerða. Það höfum við sýnt á síðasta ári og það munum við líka gera á því ári sem nú er að hefjast.“

Frétt þessi birtist á vísir.is

Deila