Fagurgali bjargar ekki bágstöddum

Að ferðast um fal­lega landið sitt, fylla lung­un af hreinu tæru sjáv­ar­lofti og geta hlaupið út um all­ar koppa­grund­ir óhindruð og frjáls er ekki sjálfsagt og ekki öll­um gefið. Þúsund­ir og aft­ur þúsund­ir samlanda okk­ar búa við skerta heilsu, van­líðan og fá­tækt. Sjálf hef ég glímt við heilsu­brest, fötl­un og fá­tækt og á því auðvelt með að setja mig í spor þeirra sem þannig er ástatt um, m.ö.o. ég veit um hvað ég er að tala. Það er vegna þessa sem Flokk­ur fólks­ins varð til og hef­ur, svo ekki verður á móti mælt, bar­ist af öll­um mætti fyr­ir auknu rétt­læti og út­rým­ingu fá­tækt­ar.

Þegar van­mátt­ur­inn og von­leysið tek­ur mann kverka­taki er ekk­ert dýr­mæt­ara en að fá hjálp. En hver á að hjálpa? Ligg­ur það ekki í aug­um uppi að við ger­um þær kröf­ur til okk­ar siðmenntaða sam­fé­lags að það taki utan um alla þá sem eiga bágt og þurfa á hjálp að halda? Hvaða guðlegi mátt­ur ætli stjórni því að fá­tækt barna á Íslandi hef­ur vaxið stig af stigi, að gjá­in milli þeirra ríku og fá­tæku gliðnar stöðugt? Nei, það er rétt hjá þér. Það er eng­inn guðleg­ur mátt­ur þar að baki, ein­ung­is van­hæf rík­is­stjórn sem hugs­ar ekki um neitt nema eigið skinn, ráðherra­stól­ana und­ir bor­una á sér og hags­muna­gæslu vild­ar­vina. Þetta er mann­anna verk!

Hæst­virt­ur for­sæt­is­ráðherra seg­ir kinn­roðalaust að það að láta fá­tækt fólk bíða eft­ir rétt­læt­inu sé það sama og að neita því um rétt­læti. Er furða þótt okk­ar minnstu bræður og syst­ur spyrji sig að því hvernig það sé mögu­legt að þessi sami ein­stak­ling­ur, s.s hæst­virt­ur for­sæt­is­ráðherra, sé æðstur allra ráðherra en á sama tíma skuli hún samþykkja að fá­tæk­ir ekki ein­ung­is bíði eft­ir rétt­læt­inu held­ur séu skattlagðir í sárri fá­tækt og allt að 130% af fram­færslu þeirra fari í að greiða húsa­leigu! Það er m.a. vegna þess hvernig græðgi­svædd leigu­fé­lög hafa fengið heim­ild til þess að níðast á þeim sem ekki eru tald­ir bær­ir til að fara í greiðslu­mat og kaupa sína eig­in íbúð.

Því miður hef­ur komið á dag­inn að það er hol­ur hljóm­ur í fag­ur­gala hæst­virts ráðherra þegar á reyn­ir um efnd­ir. Hvers vegna beit­ir hún sér ekki fyr­ir rétt­læt­inu nú þegar hún á þess kost? Hvers vegna er haldið áfram að níðast á þeim sem síst skyldi? Ég á eng­in svör, því miður.

Ég sakna þess að hafa ekki haft heilsu til að sinna þing­störf­um mín­um nú um sinn en ég heiti því að koma mar­gefld til baka í haust. Rödd Flokks fólks­ins mun hljóma sem aldrei fyrr!

Deila

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin