Fjárhagslegt ofbeldi gagnvart öryrkjum

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, gagnrýnir harðlega nýtt frumvarp félagsmálaráðherra sem á að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Segir Guðmundur að samkvæmt frumvarpinu verði skerðingin 65 aurar á móti krónu. Í umræðu á Alþingi um frumvarpið kallaði Guðmundur frumvarpið fjárhagslegt ofbeldi.
 
„Ég segi þá fyrir mitt leiti. Jú, maður á að þakka fyrir hungurlúsina sem kemur en eins og ég hef sagt þá er þetta fjárhagslegt ofbeldi. Í staðinn fyrir að sparka þrisvar í viðkomandi öryrkja má bara sparka í þá tvisvar. Og það er ekki ásættanlegt,“ sagði Guðmundur á Alþingi í dag. 
 
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, leggur fram frumvarpið á Alþingi. Segir hann að frumvarpið sé skref í rétta átt.
 
„Við höfum til ráðstöfunar á þessu ári 2,9 milljarða til handa til að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Hugsunin á bak við þetta frumvarp er að stíga fyrstu skrefin til afnáms skerðinga og það er svo sannarlega gert,“ sagði Ásmundur í svari sínu á Alþingi í dag.
Guðmundur Ingi Kristinsson alþingismaður og varaformaður flokks fólksins

Deila