Fjármögnun aukinnar velferðar

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 endurspeglar enn og aftur raunverulegan vilja ríkisstjórnarinnar til að bæta ekki kjör þeirra sem lakast standa í samfélaginu. Ekki er fyrirhugað að ráðast í nauðsynlegar úrbætur í þágu aukinnar velferðar. Lífeyrisþegum Tryggingastofnunar verður áfram haldið úti í kuldanum. Fjármálaráðherra boðar víðtækar breytingar á skattkerfinu en þegar betur er að gáð skila þær skammarlega fáum krónum í vasa láglaunamannsins. Hækka á neysluskatta og vörugjöld en ekki á að breyta álagningu veiðigjalda og fyrirhugað er að lækka bankaskattinn á næstu árum. Þetta er ekki forgangsröðun fjármuna í þágu fólksins.

Breyttar forsendur

 Í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er því spáð að hagvöxtur verði 1,7% árið 2020. Það er 0,9% minni hagvöxtur en í þeirri spá sem frumvarp til fjárlaga byggðist á. Vegna þessa er útlit fyrir að tekjur ríkissjóðs verði talsvert lægri en frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til breytingar á frumvarpi til fjárlaga vegna breyttra forsendna. Taka á 4,2 milljarða kr. út úr sjóðum LÍN, fjármuni sem átti að nýta í Menntasjóð en verða þess í stað nýttir til að draga úr hallarekstri ríkissjóðs. Í staðinn verður í fjárlögum veitt heimild til að lána Menntasjóði allt að 5 milljarða kr. á árinu. Þannig á ekki að taka á vandanum með því að auka tekjur eða draga saman útgjöld heldur á að stinga hendi ofan í sparibaukinn.

    Þá fegrar það bókhald ríkissjóðs enn frekar að framkvæmdir við nýjan Landspítala hafa tafist. Því verða útgjöld vegna framkvæmdanna 3,5 milljörðum kr. lægri en áætlað var í frumvarpi til fjárlaga.
Áætlað framlag ríkissjóðs til rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun lækkar um 700 millj. kr. vegna ofmats á fjárþörf í fyrri áætlunum. Í frumvarpi til fjárlaga var áætlað að framlag ríkisins til þessara verkefna myndi aukast um 1,1 milljarð króna. Því hefur umtalsverð breyting orðið á áætluðum fjárframlögum til málaflokksins. Ástæðuna má rekja til reikniskekkju sem lýsir fordæmalausu kæruleysi við meðferð á almannafé.

    Fresta á áformum um breytta skattlagningu ökutækja og sérstakur skattur vegna urðunar úrgangs verður tekinn til frekari skoðunar. Fjórði minni hluti er sammála þeim tillögum. Skattar á bifreiðaeigendur eru nú þegar í hæstu hæðum og ekki á þá bætandi. Sömuleiðis er ljóst að skattur á urðun úrgangs myndi leiða til aukinna sorphirðugjalda. Þau gjöld myndu fyrst og fremst bitna á þeim sem fátækastir eru í samfélaginu.
    Það er áhyggjuefni að áætlaðar tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum verði 2,1 milljarði kr. lægri á næsta ári en ráð var fyrir gert þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í haust. Er það enn eitt dæmið um brostnar forsendur fjárlagafrumvarpsins. Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru ein helsta auðlind þjóðarinnar og fyrir afnot af henni skal greiða sanngjarnt endurgjald.

    Fjórði minni hluti bendir á að ástæða er til að vera á varðbergi gagnvart niðursveiflu í sjávarútvegi á næsta ári með tilheyrandi tekjutapi og jafnvel útgjöldum fyrir ríkissjóð. Allar líkur eru á að engar loðnuveiðar verði stundaðar á næsta ári. Það er þá annað árið í röð sem engar veiðar verða á þessum lengst af næstverðmætasta fiskistofni þjóðarinnar. Slíkt ástand er fordæmalaust. Djúp og viðvarandi niðursveifla loðnustofnsins gæti síðan haft neikvæð áhrif á vöxt og viðgang annarra fiskistofna, svo sem þorsks. Efnahagsleg áhrif af slíku fyrir afkomu ríkissjóðs gætu orðið slæm. Um þetta allt ríkir þó mikil óvissa sem stendur.
    Þrátt fyrir breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar er áætlað að ríkissjóður verði rekinn með halla annað árið í röð. Þegar ríkisstjórnin lagði fram fjármálaáætlun og endurskoðaða fjármálastefnu í vor lýstu margir yfir áhyggjum af því að stjórnvöldum væri sniðinn of þröngur stakkur. Nú hafa þær áhyggjur raungerst. Hallinn er til staðar og vonandi verður hann ekki meiri en efni standa til í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir.

Fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu.

    Samhliða frumvarpi til fjárlaga kynnti fjármálaráðherra breytingar á skattkerfinu. Á undanförnum árum hefur skattbyrði lágtekjuhópa aukist til muna. Þetta er ástand sem ráða þarf bót á með því að endurskipuleggja tekjuskattskerfið.
    Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu þess efnis að skattleysismörk verði hækkuð og að tekinn verði upp fallandi persónuafsláttur. Þannig mætti hækka ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa til muna. Fjármálaráðherra leggur hins vegar til lítils háttar breytingar á skattþrepum. Þær breytingar ganga ekki nógu langt.
    Samkvæmt upplýsingum úr frumvarpi fjármálaráðherra munu ráðstöfunartekjur einstaklings með 300.000 kr. mánaðarlaun einungis hækka um 2.470 kr. á mánuði árið 2020.
    Fjórði minni hluti telur að fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattskerfinu dugi engan veginn til þess að leiðrétta aukna skattbyrði lágtekjufólks og tryggja þeim viðunandi lífskjör.

Vandi heilbrigðiskerfisins.

    Það þarf að ráðast í átak til þess að efla mönnun og rekstur heilbrigðiskerfisins.
    Bráðamóttaka Landspítalans ræður ekki við það álag sem á henni hvílir. Við þurfum að stórefla starfsemi hennar. Daglega dvelur þar fjöldi sjúklinga sem ekki er hægt að vísa í viðeigandi úrræði vegna plássleysis eða manneklu.
    Vandi á bráðamóttöku er þó aðeins alvarlegasta birtingarmynd þess víðtæka vanda sem heilbrigðiskerfið glímir við. Það þarf að endurnýja tækjabúnað, fjölga starfsmönnum, bæta húsnæði og auka þjónustu á öllum sviðum heilbrigðiskerfisins. Þá þarf að efla sjúkraflutninga til muna. Það á að vera sjúkrabíll ásamt fagmenntuðum sjúkraliðum í hverri byggð.

    Framkvæmdir vegna byggingar nýs Landspítala ganga hægt. Það kemur ekki á óvart, enda kusu stjórnvöld að byggja nýtt sjúkrahús þar sem umferð er hvað þyngst á höfuðborgarsvæðinu. Enginn velkist í vafa um að framkvæmdirnar hefðu gengið mun skjótar og betur fyrir sig ef byggður hefði verið nýr spítali á nýjum stað.
    Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að fjárheimildir til sjúkrahúsþjónustu verði auknar um 600 millj. króna. Fjórði minni hluti telur að auka þurfi fjárheimildir til málefnasviðsins enn frekar.

    Svo að efla megi heilbrigðiskerfið með viðhlítandi hætti leggur 4. minni hluti til að útgjöld til málefnasviðs 23 verði aukin um 5 milljarða króna. Þá leggur 4. minni hluti til að fjárheimildir til málefnasviðs 24.40 verði auknar um 400 millj. kr. svo að efla megi sjúkraflutninga á landsbyggðinni.

Málefni öryrkja.

    Lífeyrir almannatrygginga hefur ekki fylgt launaþróun í landinu undanfarin ár. Ef tekið er mið af síðasta áratug er uppsöfnuð kjaragliðnun vegna þessa tæp 30%. Engin áform eru um það í fjárlagafrumvarpinu að leiðrétta þetta bersýnilega óréttlæti.
    Hækka á lífeyri almannatrygginga um 3,5%. Það er hækkun sem er lægri en þróun launavísitölu á liðnu ári, sem var 4,2% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Því á ekki að leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun heldur þvert á móti auka við hana. Þessa þróun hefur Öryrkjabandalagið gagnrýnt ítrekað undanfarin ár.

    Aðeins kemur fram í frumvarpi til fjárlaga hve mikið lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eigi að hækka en ekki hvers vegna. Umboðsmaður Alþingis hefur bent stjórnvöldum á að huga þurfi betur að því hvaða tilgangi ákvæði í lögum um almannatryggingar er varðar viðmið um launaþróun sé ætlað að þjóna og hvort gera megi það skýrara. Jafnframt bendir umboðsmaður Alþingis á að það væri í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að ítarlegri skýringar væru í fjárlagafrumvarpi á forsendum breytinga á fjárhæðum lífeyrisgreiðslna. Þessi tilmæli þarf að virða í fjárlagafrumvörpum komandi ára svo að lífeyrisþegar geti áttað sig á því á hvaða grundvelli stjórnvöld taka ákvörðun um að víkja frá kröfum laga um að lífeyrir almannatrygginga fylgi launaþróun.

    Þá hafa frítekjumörk almannatryggingakerfisins ekki fylgt launaþróun. Öryrkjabandalag Íslands bendir á í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið að frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega hafi ekki hækkað frá árinu 2009 þegar það var hækkað í 109.600 krónur. Ef frítekjumarkið hefði fylgt launaþróun væri það nú tæplega tvisvar sinnum hærra eða 207.000 krónur á mánuði. Lágt frítekjumark dregur úr hvata lífeyrisþegans til atvinnuþátttöku. Það er sama hvert litið er þegar kemur að málefnum öryrkja. Málefni þeirra eru fótum troðin.
    Fyrirhugað er að ráðast í breytingar á almannatryggingakerfinu til að einfalda það og auka skilvirkni. Mikilvægt er að við þá vinnu verði þess gætt að samspil réttinda sé ekki eins mikið og flókið og það er í dag. Það er ólíðandi að fólk þurfi að reiða sig á greiðslur úr óhóflegum fjölda réttindaflokka sem allir hafa að geyma mismunandi skerðingarreglur og skilyrði.
    Fjórði minni hluti leggur til að fjárheimildir til málefnasviðs 27.10 verði auknar um 10 milljarða kr. strax svo að draga megi úr sívaxandi kjaragliðnun.

NPA-aðstoð.

    Þegar þjónusta við fatlað fólk var flutt til sveitarfélaganna fengu þau aukna hlutdeild í skatttekjum ríkisins í formi hækkaðs útsvars. Markmiðið var að hækkunin myndi standa undir viðbótarkostnaði sveitarfélaganna vegna þjónustunnar. Raunin varð önnur. Reynslan sýnir að kostnaður við þjónustuna er mun meiri en þær auknu tekjur sem áttu að tryggja rekstur hennar. Fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar við frumvarp til fjárlaga að uppsafnað tap borgarinnar vegna þjónustunnar frá árinu 2011 er nú 11 milljarðar kr. og fer vaxandi ár frá ári.
    
Sveitarfélög hafa ekki sömu tækifæri til tekjuöflunar og hið opinbera. Því verður að tryggja fjármögnun með lögum þegar verkefni eru færð frá ríkinu til þeirra. Lagðar voru auknar skyldur á sveitarfélög þegar ný lög um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA-aðstoð) voru samþykkt árið 2018. Samhliða þessari lagasetningu tryggði ríkið ekki viðhlítandi fjármögnun þjónustunnar heldur færði ábyrgðina yfir á sveitarfélögin. Það fer gegn þeirri meginreglu að þjónusta við fatlað fólk skuli vera fjárhagslega tryggð.

    Öryrkjabandalagið leggur áherslu á það í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið að NPA-aðstoð sé mikilvæg þjónusta sem hafi valdið byltingu í lífsgæðum fatlaðs fólks. Tryggja þurfi fjármögnun þjónustunnar með viðhlítandi hætti. Fjórði minni hluti tekur heils hugar undir þetta.
    Því leggur 4. minni hluti til að fjárheimildir til málefnasviðs 08 verði auknar um 150 millj. króna. Þeir fjármunir verði nýttir til að auka hlut ríkissjóðs í fjármögnun NPA-samninga. Tryggja ber öllum sem þess þurfa aðgang að þjónustunni án mismununar.

Hættum að skattleggja fötlun.

    Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér afnám á virðisaukaskatti á hjálpartækjum vegna fötlunar. Undir þetta tekur Öryrkjabandalag Íslands í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið. Það er sannarlega nóg að þurfa að lifa við fötlun þótt ríkisvaldið skattleggi hana ekki líka. Með afnámi á virðisaukaskatti vegna hjálpartækja munu lífsgæði fjölda fólks batna til muna.

Í fíkniefnavá þarf að efla SÁÁ.

    Innflutningur ólöglegra vímuefa hefur aukist jafnt og þétt ár frá ári. Í dag er ástandið fordæmalaust og aldrei hafa fleiri dáið ótímabærum dauða vegna lyfjaeitrunar en nú. Hvergi í heiminum er önnur eins notkun þunglyndislyfja og hér. Fíkn er sjúkdómur sem við þurfum að viðurkenna fordómalaust. Allir þeir sem haldnir eru sjúkdómnum eiga rétt á heilbrigðisþjónustu strax. Það er því óverjandi með öllu að fárveikir sjúklingar skuli hundruðum saman þurfa að bíða eftir læknisþjónustu.
    
Undanfarin ár hefur SÁÁ þurft að greiða fyrir stóran hluta starfsemi sinnar með sjálfsaflafé. Með þjónustusamningi ríkisins við samtökin er einungis greitt fyrir 1.530 innlagnir árlega. Staðreyndin er sú að biðlisti eftir meðferð hefur aldrei verið lengri. Hátt í 800 sjúklingar bíða eftir hjálp á sjúkrahúsinu Vogi. Samtökin telja sig geta tekið á móti 2.700 sjúklingum á ári. Þannig má með góðum vilja vinna niður biðlistann á tiltölulega skömmum tíma.
  
  Fjórði minni hluti leggur til að fjárheimildir til málefnasviðs 25.20 vegna endurhæfingarþjónustu verði auknar um 400 millj. króna. Framlög til SÁÁ verði aukin um sömu upphæð svo að efla megi starfsemi samtakanna og útrýma biðlistum inn á sjúkrahúsið Vog. Samfélagslegur ábati af starfsemi SÁÁ er óumdeildur.

Vandi hjúkrunarheimilanna.

    Löng bið er og hefur verið eftir vistun á hjúkrunarheimili. Heilbrigðisráðherra hefur ráðist í aðgerðir til að freista þess að vinna bug á vandanum. Aðgerðirnar felast í fjölgun hjúkrunarrýma sem hefur þó haft ófyrirséðar afleiðingar. Ekki var einungis um það að ræða að byggja ný hjúkrunarrými heldur einnig gripið til þess úrræðis að endurskilgreina dvalarrými sem hjúkrunarrými. Þannig hefur dvalarrýmum fækkað verulega undanfarin ár. Þá eru auk þess fjölmörg rými auð á dvalar- og hjúkrunarheimilum landsins. Það má rekja til nokkurra þátta. Það kostar álíka mikið að reka eitt hjúkrunarrými og að reka tvö dvalarrými. Þegar tvö dvalarrými eru endurskilgreind sem hjúkrunarrými er því aðeins hægt að veita viðeigandi þjónustu fyrir einn heimilismann, enda er ekki til fjármagn til að veita þjónustu í hinu rýminu. Þá hafa kröfur til þjónustu hjúkrunarheimila aukist undanfarin ár. Einnig eru íbúar hjúkrunarheimila mun veikari nú en fyrir 10 árum. Ástæðuna má m.a. rekja til þess að bið eftir innlögn er lengri nú en áður. Fólk er því orðið veikara þegar það kemst inn á hjúkrunarheimili. Fjárframlög hafa ekki hækkað til samræmis við það sem kalla má „aukna hjúkrunarþyngd“. Því duga fjárveitingar ekki fyrir þeirri þjónustu sem krafist er.
 
   Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) benda á það í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið að daggjöld ríkisins til reksturs hjúkrunarrýma á vegum Landspítalans, t.d. á Vífilsstöðum, hafi árið 2019 numið 50.000 krónum. Það hafi þó ekki dugað fyrir rekstri heimilisins, en daggjöld til hjúkrunarheimila á grundvelli rammasamnings Sjúkratrygginga Íslands á árinu 2019 voru aðeins 35.000 krónur. Framlög ríkisins til hjúkrunarheimila eru því talsvert lægri en sú fjárhæð sem ríkið telur að þurfi til að standa undir sambærilegri þjónustu á eigin vegum.
    Þá gerir ríkisstjórnin kröfu um aðhald í rekstri hjúkrunarheimila. SFV benda á að vegna aðhaldskröfu fjárlaga muni ríkið að endingu greiða 1,3 milljörðum minna til reksturs hjúkrunarheimila og dagdvalar á tímabilinu 2018–2020.
   
 Þá eiga hjúkrunarheimili erfitt með að manna starfsemi sína og starfsfólk leitar í önnur störf þar sem betur er borgað. Vandi hjúkrunarheimilanna er því margþættur.
    SFV hafa ítrekað gagnrýnt þá stefnu ríkisstjórnarinnar að ráðast í uppbyggingu nýrra hjúkrunarheimila í stað þess að tryggja betur rekstrargrundvöll þeirra sem þegar eru fyrir í landinu. Fjórði minni hluti tekur undir þá gagnrýni. Það er óráðsía að ætla að laga vandann með fjölgun hjúkrunarrýma ef fjármagn er ekki til staðar til að reka þau.
    Fjórði minni hluti leggur til að fjárheimildir til málefnasviðs 25.10 verði auknar um 2 milljarða kr. til að koma til móts við rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna.

Ríkisstyrkir til einkarekinna fjölmiðla.

    Mennta- og menningarmálaráðherra hyggst styrkja einkarekna fjölmiðla um 400 millj. kr. á næsta ári. Þegar halli er á ríkissjóði skýtur það skökku við að ætla að styrkja auðmenn sem halda úti hagsmunatengdum fjölmiðlum og það á kostnað skattborgaranna.
    Fyrsta skrefið í að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla ætti að felast í því að taka ríkisfjölmiðilinn RÚV af auglýsingamarkaði í stað þess að bæta þeim öllum á ríkisspenann.
    Fjórði minni hluti leggur til að fjárheimildir til málefnasviðs 19.10 verði lækkaðar um 400 millj. króna.

Átak í löggæslu.

    Ríkisvaldinu ber að tryggja tvennt, allsherjarreglu og öryggi borgaranna. Þrátt fyrir það hefur ástandið í glæpa- og fíkniefnaheiminum hérlendis aldrei verið eins alvarlegt. Ólögleg vímuefni flæða inn í landið í óþekktu magni og skipulögð glæpastarfsemi hefur skotið hér rótum. Ástandið er fordæmalaust. Til að sporna gegn þessari vá þarf m.a. að efla frumkvæðislöggæslu til muna. Til þess þarf lögreglan að fá aukið fjármagn.
    Því leggur 4. minni hluti til að fjárveitingar til málefnasviðs 09.10 verði auknar um 2 milljarða króna.

Fjármögnun aukinnar velferðar.

    Nauðsynlegt er að ráðast í úrbætur á velferðarkerfinu. Þær þarf þó að fjármagna. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu þess efnis að staðgreiðsla verði við innlögn í lífeyrissjóði en ekki útgreiðslu. Þessi breyting myndi skila ríkissjóði talsverðum fjármunum án þess að skerða ráðstöfunartekjur borgaranna. Þeir fjármunir myndu duga til að rétta hallarekstur ríkissjóðs og fjármagna breytingartillögur 4. minni hluta að fullu og gott betur. Flokkur fólksins er þó ekki í ríkisstjórn og því er ólíklegt að þessi lausn verði nýtt. Í staðinn verður ríkissjóður rekinn með 9,4 milljarða kr. halla.
 
   Stjórnvöld ætla áfram að hanga á handónýtu mannvonskukerfi sem fáir eða enginn skilur. Veikt gamalt fólk fær ekki aðgang að hjúkrunarheimilum, stjórnvöld skattleggja fátækt grimmt og skerða kinnroðalaust þau sem veikast standa, 12–15% barna líða hér mismikinn skort. Grunnþörfum borgaranna er ekki mætt, fólk skortir fæði, klæði og húsnæði. Viljaleysi ríkisstjórnarinnar er algjört, þrátt fyrir þunga undiröldu og kröfur um aukið réttlæti til handa þeim sem eru með tekjur langt undir fátæktarmörkum.
    Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma státar ríkisstjórnin af fordæmalausu góðæri. Á sama tíma og hún neitar fátæku fólki um réttlæti.

Deila