Sjaldan er ein báran stök, segir framkvæmdastjóri Strætó í viðtali. Ég tek undir það. Það hefur mætt mikið á bs. fyrirtækinu Strætó á þessu kjörtímabili. Starfsfólk hefur tjáð sig um vanlíðan í starfi, kvartað er yfir yfirstjórn og stjórnunarháttum og talað um einelti og að þöggun ríki í fyrirtækinu. Strætó fær einnig mikið af ábendingum sem sagt er að sé öllum fylgt eftir. Strætó hefur reynt að taka til í sínum ranni, gert þjónustukönnun og segja að öllum kvörtunum og ábendingum sé fylgt eftir. Því fer fjarri að allir sem kvarta kannist við það.
Stjórn Strætó bs. fullyrðir að vagnarnir séu vel setnir. Til að meta nýtingu eru talin innstig. Heildarfjöldi innstiga árið 2021 var tæp 9,5 milljóna innstiga og hafði þeim fjölgað um tæp 8% frá árinu 2020. Stóran hluta dags eru vagnarnir engu að síður hálftómir
Sóun á metani!
Vart þarf að rekja áhrif og afleiðingar Covid faraldursins á samfélagið hér í löngu máli. Nú er staðan sú að Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Og svo kom stríð í Úkraínu og því fylgja olíuverðshækkanir sem munu að óbreyttu hafa rekstraráhrif. Vissulega hefur Strætó minnkað flota þeirra bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og fjölgað nokkuð vistvænni bílum en hér vil ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins, staldra við.
Þau eru nefnilega mörg málin, tillögur og fyrirspurnir frá Flokki fólksins sem snúast um af hverju Strætó notar ekki metanvagna í stórum stíl. SORPA bs. sem er einnig að stórum hluta í eigu borgarinnar, framleiðir ógrynni af þessu vistvæna gasi. Það hleðst hins vegar upp á söfnunarstað og er brennt á báli engum til gangs. Þvílík sóun!
Fram hefur komið skýrt að Strætó bs. og stjórn hugnist ekki metanvagnar. Meðal raka eru að þeir séu of hávaðasamir. Það er léttvægur fyrirsláttur í heildarsamhenginu. Nú stefnir í að kostnaðarauki vegna eldsneytishækkunar einn og sér gæti orðið 100-200 milljónir á þessu ári. Fátt væri því eðlilegra en að allir vagnar Strætó væru metanvagnar.
Það er hins vegar fyrirhugað hjá Strætó bs. að kaupa rafvagna fyrir um 400 m.kr. Nú þegar hefur verið auglýst útboð þar sem óskað er eftir allt að 9 til 10 rafvögnum.
Mismunandi aðgengi að Strætó
Öll óskum við þess að Covid sé brátt að baki og að lífið komist aftur í samt horf á öllum sviðum. Víkur þá sögunni að nýja greiðslukortakerfinu, Klappi. Eina leiðin til að borga sig inn í strætó núna, svona að mestu er að eiga farsíma og vera búin að koma sér upp „Klapp“ appinu til að geta keypt sér inneign. Nauðsynlegt er að hafa rafrænt auðkenni til að geta farið inn á „Mínar síður“ og endurnýjað inneignina.
En þessi tækni er ekki veruleiki allra. Það eiga ekki alveg allir farsíma og sumir, t.d. hælisleitendur sem nota strætó mikið, hafa ekki einu sinni kennitölu. Enn aðrir geta ekki t.d. vegna fötlunar sinnar sótt um rafrænt skilríki og geta því ekki notað „Mínar síður“. Reynt hefur verið að finna lausnir á þessu og á eftir að koma í ljós hvort þær gagnast. Vegna þessa m.a. hefur fækkað í notendahópi Strætó.
Það er forvitnilegt að fá upplýsingar um hvað þetta nýja greiðslukerfi kostaði og hversu margir sérfræðingar voru ráðnir til verksins. Versta er ef „kerfi“ sem þetta á eftir að hindra fólk í að nota strætó. Það er ekki gott ef viðkvæmir hópar og þeir sem hafa stólað mest á strætó treysti sér ekki til að nota strætó vegna nýja greiðslukerfisins Klapp
Ljós í þessu myrkri er þó hið svokallaða Klapp tía svo öllu sé nú haldið til haga. Hún felst í farmiðum með 10 fargjöldum fyrir fullorðna, ungmenni eða aldraða sem hægt er að kaupa á nokkrum stöðum. Þeir sem ekki hafa rafrænar lausnir geta bjargað sér með Klapp tíu sem eru tíu ferðir í senn.
Óskandi er að stjórnendur Strætó setji sig betur í spor þeirra sem ferðast með vögnum fyrirtækisins og sníði þjónustuna að þeirra veruleika. Vel mætti skoða að bjóða upp á meiri sveigjanleika í þjónustunni til að allir, sem það vilja og þurfa, geti notað strætó án vandkvæða.