Flest er sjötugum fært

Kolbrún

Flokk­ur fólks­ins berst fyr­ir rétti og frelsi fólks til að vinna eins lengi og það vill. Staða eldri borg­ara á vinnu­markaði er ekki sem skyldi. Helsta meinið er að þeir eiga ekki auðvelt með að halda vinn­unni. Þeir fá laun frá sam­fé­lag­inu en kerfið er þannig að ef þeir sem komn­ir eru á eft­ir­launa­ald­ur vilja auka tekj­ur sín­ar með vinnu þá skerðir það þessi eft­ir­laun. Þetta er hin alþekkta „króna á móti krónu skerðing“. Hún hindr­ar áfram­hald­andi at­vinnuþátt­töku eldri borg­ara.

Sóun á mannauði

Líf­eyr­ir skerðist um 45% af at­vinnu­tekj­um um­fram 100.000 kr. á mánuði. Þá eru at­vinnu­tekj­ur auk þess skattlagðar. Því er ávinn­ing­ur líf­eyr­isþega af at­vinnu nán­ast eng­inn. Af hverju þarf þetta að vera svona? Hvers vegna má fólk sem „komið er á ákveðinn ald­ur“ ekki afla sér tekna og borga af þeim skatta eins og aðrir, hafi það á annað borð vilja og getu til og eft­ir­spurn sé eft­ir kröft­um þeirra?

Þessi skerðing er ekki hag­stæð fyr­ir sam­fé­lagið. Hún svipt­ir fólk mann­rétt­ind­um sem er frelsi til sjálfs­bjarg­ar og at­hafna. Fólk fær ekki að leggja sitt til sam­fé­lags­ins vilji það gera það. Því er meinuð sú and­lega og lík­am­lega heilsu­bót sem get­ur fal­ist í því að vera áfram þátt­tak­andi á vinnu­markaði. Óþarfa sóun á mannauði á sér stað. Borg­ar­ar með mikla reynslu og þekk­ingu eru dæmd­ir úr leik. Þetta stang­ast á við fyr­ir­komu­lag þess­ara mála í mörg­um ná­granna­lönd­um okk­ar. Víða í Evr­ópu hef­ur fólk rétt til að vinna eins lengi og það vill. Iðulega er kallað eft­ir störf­um fólks þótt það verði sjö­tugt.

End­ur­skoða þarf ein­streng­ings­leg­ar regl­ur um starfs­lok og skerðing­ar vegna at­vinnu­tekna eldri borg­ara hér á landi. Þótt fólk verði sjö­tugt þýðir ekki að heil­a­starf­semi þess stöðvist. Í dag er fólk um 70 ára ald­ur við betri heilsu en fyr­ir ára­tug­um. Aldrað fólk býr yfir um­tals­verðum kost­um, mennt­un og reynslu sem ger­ir það að góðum starfs­mönn­um. Flokk­ur fólks­ins á þingi hef­ur bar­ist gegn því að aldraðir séu þvingaðir til að láta af störf­um og hef­ur einnig flutt frum­varp um af­nám skerðinga líf­eyr­is vegna at­vinnu­tekna.

Til­lög­ur og umræða í borg­ar­stjórn

Sem borg­ar­full­trúi Flokks fólks­ins hef ég lagt fram til­lög­ur og staðið fyr­ir umræðu um sveigj­an­leg vinnu­lok í borg­ar­stjórn. Borg­in ætti að hætta að nota ald­ur­sviðmið og leyfa þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjö­tugs­aldri sé náð. Borg­in ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðing­um á líf­eyri vegna at­vinnu­tekna svo sem að frí­tekju­mark vegna at­vinnu­tekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða af­numið al­farið.

Fyr­ir þá sem vilja skipta um starf vegna ald­urs, eða t.d. minnka við sig, get­ur borg­in skoðað leiðir til að bjóða upp á tíma­bundn­ar ráðning­ar, hlutastarf eða verk­taka­vinnu við ákveðin verk­efni, allt sem hent­ar hverj­um og ein­um og styrk­ir at­vinnu­lífið. Eldri borg­ar­ar búa yfir mik­illi reynslu og þekk­ingu sem get­ur nýst áfram.

Borg­in ætti að vera fremst í flokki með öll störf í borg­inni og bjóða upp á sveigj­an­leika þegar komið er að starfs­lok­um. Reykja­vík sem stærsta sveit­ar­fé­lagið á að vera fyr­ir­mynd annarra sveit­ar­fé­laga og leiðandi þegar kem­ur að breyt­ing­um til bóta sem lúta að mann­rétt­ind­um og jafn­rétti.

Eftir Kolbrúnu Baldursdóttur, odd­viti Flokks fólks­ins í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur

Deila