Flokkur fólksins gefst aldrei upp

Tilvitnun úr sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis: „Löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis verður styrkt á kjörtímabilinu með auknum…Tilvitnun úr sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis: „Löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis verður styrkt á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndastörf og þingflokka. Auk þess vilja ríkisstjórnarflokkarnir ýta nokkrum verkefnum úr vör með þverpólitískri nálgun og tryggja þar betur en venja er að sú umfangsmikla þekking og reynsla sem þingið býr yfir nýtist í þágu lands og þjóðar óháð því hvaða flokkar skipa stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma.“

Eins og margt annað í þessum sáttmála, voru þessi fögru orð innantómt lýðskrum. Alþingi er enn stjórnað af gömlum meginreglum valdapólitíkurinnar. Stjórnarandstöðuflokkar eru hunsaðir. Þeirra mál eru svæfð í nefndum, og gildir einu hversu góð þau eru.

Nú liggja 18 þingmannamál Flokks fólksins inni í fastanefndum þingsins og fá ekki að koma inn í aðra umræðu í þingsal. Öll lúta þau að bættum kjörum borgaranna. Öll eru komin í gegnum umsagnarferli og tilbúin til frekari meðhöndlunar. Framlögð frumvörp og þingsályktunartillögur Flokks fólksins eru hér eftir nefndum:

Velferðarnefnd: Skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja til tveggja ára. Búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Hagsmunafulltrúi aldraðra. Upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir. Fjárhæð bóta fylgi launavísitölu. Aldurstengd örorkuuppbót haldist eftir töku ellilífeyris. 100.000 kr. frítekjumark vegna lífeyristekna. Afnám „Vasapeningafyrirkomulags“. Almannatryggingar (kostnaður við framkvæmd greiðslna).

Efnahags- og viðskiptanefnd: Skattleysi launatekna undir 350.000 kr. Staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð. Aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum.

Atvinnuveganefnd: Niðurfelling strandveiðigjalds. Tilhögun strandveiða.

Umhverfis- og samgöngunefnd: Mat á umhverfisáhrifum (vatnsorkuver, vindbú).

Allsherjar- og menntamálanefnd: Greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota (hækkun bótagreiðslna). Skaðabótalög (launaþróun og gjafsókn). Höfundalög (mannvirki).

Lagafrumvarp Flokks fólksins um afnám verðtryggingar á fasteignalánum neytenda, hefur verið skráð, en fær nú ekki aðgang að dagskrá Alþingis.

Flokkur fólksins mun halda ótrauður áfram að leggja fram þingmál í baráttu fyrir réttlátara samfélagi. Við gefumst ekki upp þó að við getum ekki sótt í meirihlutastuðning við þingmálin okkar, næstum sama hversu góð þau eru. Við vitum að dropinn holar steininn. Okkur tókst að breyta lögum um tekjuskatt sem felldu niður skerðingar á styrkjum sem öryrkjar og lífeyrisþegar fá út af kostnaði vegna veikinda. Þetta er eina þingmál okkar sem ríkisstjórnin hefur gefið eðlilega meðferð og skilaði strax réttlátum kjarabótum. Baráttan heldur áfram.

Deila