Mynd: Morgunblaðið/Karítas
Rétt ár er liðið frá því Flokkur fólksins gekk til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna og Viðreisn. Ég lít um öxl til þess tíma þegar ég ákvað að berjast gegn fátækt á Íslandi og stofnaði Flokk fólksins. „Fólkið fyrst, svo allt hitt.“
Það sem knúði mig áfram í upphafi var aðgerða- og sinnuleysi stjórnvalda gagnvart vaxandi fjölda barna sem bjuggu við fátækt. Ég gat ekki lengur setið aðgerðalaus hjá í samfélagi sem dæmdi stóran hóp barna og fjölskyldna þeirra til sárrar fátæktar í okkar ríka landi.
Málefni efnaminni fjölskyldna, öryrkja og eldra fólks höfðu árum saman mætt afgangi hjá stjórnvöldum. Áhersla var lögð á meðaltöl en ekki kjör og aðstæður þeirra sem börðust í fátækt. Þessi hópur hafði ekki nægan raddstyrk til að hreyfa við þeim sem dreifðu gæðunum. Ég gerði það að baráttu minni að ljá þeim röddina mína.
Flokkur fólksins og ráðherrar hans hafa í kjölfarið mátt sæta ótrúlegum og ómaklegum árásum þeirra sem láta sér á sama standa um alla þá sem þurfa á hjálp okkar að halda. Árásum frá þeim sem líta niður á fólk sem er að berjast í bökkum frá degi til dags. Árásum frá þeim sem kunna ekki að skammast sín.
Ótrúlegur árangur á einu ári
Við höfum náð ótrúlegum árangri á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn fátækt. Ekkert hefur náð að slá á þá starfsgleði og vináttu sem ríkir í stjórnarsamstarfinu milli okkar forystukvennanna þriggja og allra þingmanna stjórnarflokkanna. Við höfum haldið ótrauð áfram og látið verkin tala.
Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar var að tryggja fjármagn til meðferðarstofnana þannig að ekki kæmi til sumarlokana síðastliðið sumar. Það var dapurt að sjá hvernig varðhundar sérhagsmunanna fórnuðu rúmum 150 klukkustundum í málþófi á vorþingi til að verja fjárhagslega hagsmuni ríkustu útgerðarfyrirtækja landsins. Um leið og þeir komu í veg fyrir að kjara- og réttindabætur til þeirra sem minnst eiga næðu fram að ganga.
Ríkuleg haustuppskera
Flokkur fólksins og ríkisstjórnin uppskáru ríkulega á haustþingi. Eftir margra ára baráttu varð frumvarp mitt um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks loks að lögum. Meira að segja þar reyndu stjórnarandstöðuflokkarnir að slá ryki í augu kjósenda. Héldu því blákalt fram að kostnaður sveitarfélaga við að uppfylla lagalega skyldu sína frá árinu 2018 um NPA-samninga við fatlað fólk og uppbyggingu á sértæku húsnæði fyrir 400 einstaklinga á biðlista væri kostnaður vegna lögfestingar samnings SÞ. Það er alrangt og stenst enga skoðun. Hvernig gæti það líka staðist, að kostnaður sem allir vissu að væri til staðar samkvæmt lögum áður en samningurinn var lögfestur, væri til kominn vegna hans?
Skuldbindingum létt af sveitarfélögum
Ein af mínum fyrstu aðgerðum var að létta kostnaði af sveitarfélögum við uppbyggingu hjúkrunarheimila, þar sem sveitarfélögin höfðu borið 15 prósent af kostnaði á móti ríkinu. Kyrrstaða og algjört ófremdarástand hafði ríkt í málaflokknum þegar ég tók hann í fangið. Biðlistar eldra fólks eftir öryggi og umhyggju lengdust dag frá degi. Nú ber ríkið allan kostnað og ég hef þegar hleypt af stokkunum uppbyggingu á tæplega 350 hjúkrunarrýmum í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hveragerði, á Akureyri og á Húsavík. Um 1.500 hjúkrunarrými verða ýmist í framkvæmd eða hafa þegar verið tekin í notkun við lok kjörtímabilsins. Burt með biðlistana. Við erum rétt að byrja.
Öflugra velferðarkerfi
Síðustu ríkisstjórn tókst ekki að innleiða eftir margra ára undirbúning nýtt örorkulífeyriskerfi. Við gerðum miklar betrumbætur á hugmyndum sem lágu fyrir og innleiddum nýtt kerfi í september. Nýja kerfið bætir bæði kjör örorkulífeyrisþega og veitir fólki margháttaðan stuðning, til að þeir sem geta verði á ný eða í fyrsta skipti þátttakendur á vinnumarkaði. Það býr mikið vannýtt afl og hugmyndaauðgi í hópi fatlaðs fólks.
Í vor samþykkti Alþingi lög um öflugra fæðingarorlofskerfi fyrir fjölburaforeldra og vegna veikinda á meðgöngu. Einnig var samþykkt frumvarp um að útvíkka sorgarleyfi til foreldra sem missa maka sinn þannig að foreldri geti unnið úr sorginni. Þá tryggðum við að réttur til fæðingarorlofs ræðst ekki lengur af þeim degi ársins sem barn fæðist.
Við sáum til þess að greiðslur almannatrygginga til eldri borgara og öryrkja munu hækka í samræmi við hækkun launa í landinu. Þannig fá aldraðir og öryrkjar ígildi sætis við borð kjaraviðræðna. Nú um áramótin munu greiðslurnar hækka um 5,2 pósent og verður þetta að fullu komið til framkvæmda eftir ár. Þessi aðgerð er sú mikilvægasta á þeirri vegferð að koma efnaminnsta fólkinu okkar í útborgaðar 450 þúsund krónur á mánuði.
Við stigum einnig fyrsta skrefið á þeirri vegferð að tæplega tvöfalda hið svokallaða almenna frítekjumark eldra fólks á kjörtímabilinu úr 36.500 krónum í 41.500 krónur á mánuði. Við lok kjörtímabilsins verður almenna frítekjumarkið komið í 60 þúsund krónur.
Við höfum lögfest réttinn sem lætur hina svokölluðu aldursuppbót öryrkja fylgja þeim út lífið. Þannig lækkar þetta fólk ekki í launum við það eitt að verða 67 ára. Gífurlega kjarabót fyrir þennan fátækasta hóp.
Fjölþættar aðgerðir í húsnæðismálum
Við þrengdum að vexti skammtímaleigu á húsnæði eins og Airbnb-íbúða með því að taka upp skráningarskyldu á öllu leiguhúsnæði. Þá mun skammtímaleiga takmarkast við eina íbúð í þéttbýli og aðra í dreifbýli. Þannig ætti framboð á íbúðum til langtímaleigu að aukast. Þá var samþykkt frumvarp mitt um að ekki megi hækka húsaleigu á fyrstu tólf mánuðum leigusamnings.
Rétt fyrir jól samþykkti Alþingi sömuleiðis frumvarp mitt um öflugra hlutdeildarlánakerfi. Þannig eiga tekjulágir sem og fyrstu kaupendur loks raunverulegan kost á að nýta sér hlutdeildarlán til fyrstu kaupa. Við bættum 1,5 milljörðum við pott hlutdeildarlána sem verður 5,5 milljarðar á næsta ári. Þetta úrræði verður fest í sessi þar sem öryggi og fyrirsjáanleiki bæði kaupenda og byggingarverktaka verður í fyrirrúmi. Lánin verða greidd út mánaðarlega og óvissu sem ríkt hefur um lánagreiðslurnar þannig eytt.
Þverstæð stjórnarandstaða
Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks lögðust meira og minna gegn öllum þeim málum sem ég hef talið hér upp. Gerðu allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir eða tefja afgreiðslu þeirra og settu óteljandi fyrirvara við þau öll.
Eitt af síðustu málunum sem urðu að lögum á haustþinginu var eingreiðsla til efnaminnstu öryrkja og eldra fólks, svokallaður jólabónus. Þetta er eitt af baráttumálum Flokks fólksins til að styðja við fátækasta fólkið okkar í jólamánuðinum. Á meðan við höfum ekki tryggt 450 þúsund kr. útborgaðar verður jólabónusinn til staðar. Greiðslurnar ná nú einnig til efnaminnsta fólksins í hópi aldraðra, en ég fékk því framgengt fyrir ári með stuðningi og velvilja meirihluta þingheims.
Þeir sem hafa engin önnur laun en greiðslur almannatrygginga, auk 100 þúsund kr. í öðrum greiðslum, fengu nú fyrir jólin fullan og óskertan jólabónus upp á tæplega 74 þúsund krónur. Þrátt fyrir skýr tekjumörk héldu þingmenn stjórnarandstöðunnar því fram að hátekju- og eignafólk myndi fá þessar greiðslur. Það er í einu orði sagt fráleitt.
Flokkur fólksins hefur allt frá upphafi barist fyrir því að fólk sem býr í fjölbýli hafi sama rétt og þeir sem búa í sérbýli til að eiga gæludýr. Þrátt fyrir harða andstöðu stjórnarandstöðunnar við málið, eins og önnur mál flokksins, tókst okkur að samþykkja ný lög um gæludýrahald í fjöleignarhúsum. Vert er að taka fram að lögin gilda einungis fyrir eigendur íbúðanna. Leigusalar geta eftir sem áður í krafti eignarréttar síns hamlað gæludýrahaldi í híbýlum sínum. Þannig gilda lög nábýlisréttarins fullum fetum.
Öflugur húsnæðismarkaður í jafnvægi skiptir sköpum í efnahagsmálum í heild sinni. Ríkisstjórnin kynnti fyrsta aðgerðapakka sinn í húsnæðismálum í haust og birtir annan á vorþingi. Meðal þess sem við kynntum var uppbygging á 4.000 íbúðum á nýjum lóðum í Úlafarsárdal sem er fyrsti áfangi í 10.000 íbúða uppbyggingu þar. Við erum að tryggja framboð á húsnæði á sanngjörnu verði.
Ég hef aðeins stiklað á stóru í þeim málum sem verkstjórnin okkar hefur náð fram á fyrsta ári sínu. Málin okkar eru svo miklu fleiri og fjöldi þeirra bíður afgreiðslu á vorþingi. Leiðarljós okkar var, er og verður alltaf: Fólkið fyrst, svo allt hitt.
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
___
Inga Sæland
félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður Flokks fólksins
