Í dag verður 154. löggjafarþing sett. Eðlilega eiga margir sér þann draum að loks verði tekið utan um þá sem verst hafa það í samfélaginu. Að ríkisstjórnin sýni loks vilja til að leiðrétta bág kjör þeirra sem lifa langt undir fátæktarmörkum. Persónulega er ég ekkert sérlega bjartsýn hvað það varðar, því það má öllum vera ljóst að þessi ríkisstjórn gerir allt annað en að forgangsraða fjármunum fyrir fólkið fyrst.
Það stendur ekki á Flokki fólksins að leggja fram og mæla fyrir hverju þingmannamálinu á fætur öðru sem öll byggja á því að bæta afkomu þeirra sem bágast standa. Við erum stolt af því að vera málsvarar þessa hóps. Þingmenn Flokks fólksins munu aldrei kvika frá því meginmarkmiði flokksins að berjast gegn fátækt. Til þess munum við nýta æðsta ræðupúlt landsins af öllum kröftum hér eftir sem hingað til. Strax í dag munum við leggja fram ríflega 60 þingmannamál sem eru m.a. til að tryggja öllum þau grundvallarmannréttindi að hafa þak yfir höfuðið, geta tryggt sér og sínum fæði, klæði og húsnæði. Við erum flokkurinn sem berst með kjafti og klóm gegn skattlagningu fátæktar. Við erum flokkurinn sem er raunverulegur málsvari málleysingjanna sem geta ekki varið sig sjálfir gegn ofbeldi og dýraníði. Við erum flokkurinn sem berst gegn útrýmingu sjávarbyggðanna og þeirri fjandsamlegu stefnu sem rekin hefur verið í sjávarútveginum. Þar sem sægreifar hafa sogað til sín hundruð milljarða úr sjávarauðlind sem á tyllidögum er sögð sameign þjóðarinnar. Á sama tíma er ráðist að smábátaútgerð sem tryggir afkomu hundraða fjölskyldna sjávarplássanna sem berjast fyrir tilveru sinni.
Á morgun flytur forsætisráðherra stefnuræðu sína fyrir komandi löggjafarþing. Ætli hún sé að fara að berjast gegn fátæktinni, verðbólgunni, okurvöxtunum, misskiptingunni, spillingunni, sjálftökunni? Skyldi hún boða bjartari tíma í heilbrigðismálum, styttingu biðlista? Getum við jafnvel ímyndað okkur að hún ætli að bæta stöðu eldra fólks sem býr við ótta og óöryggi? Eldra fólks sem skortir félagslegan stuðning, umhyggju og almennt öryggi? Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki hlaðin ótta og kvíða. Skyldi hún boða öryrkjum og eldra fólki aukin tækifæri til sjálfsbjargar án skerðinga? Boðar hún löggildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Katrín Jakobsdóttir hefur sagt að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu sé það sama og neita því um réttlæti. Ætlar forsætisráðherra að halda áfram að láta þau bíða, halda áfram að neita þeim um réttlætið?
Ég hvet alla til að fylgjast með stefnuræðu forsætisráðherra á miðvikudagskvöldið. Þar leggur hún línurnar fyrir þingveturinn fram undan.
Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.