Enn þá er erum við með svo arfavitlaust almannatryggingarkerfi að þrír af hverjum fjórum fá skerðingar upp á tugi eða jafnvel hundruð þúsunda króna aftur í tímann. 49.000 einstaklingar fengu ofgreitt og þurfa að endurgreiða í samræmi við það frá og með 1. september nk. og að meðaltali skulda þeir TR tæplega 164.000 krónur.
Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur síðustu áratugi komið þessu fjárhagslega ofbeldiskerfi á. Flokkur fólksins hefur enn og aftur lagt fram frumvarp á Alþingi um 400.000 króna lágmarksgreiðslur skatt- og skerðingarlausar. Ef það væri samþykkt væri ekki lengur verið að skerða afturvirkt tugi þúsunda af öldruðu og veiku fólki sem á ekki fyrir salti í grautinn og þarf núna að búa við ævarandi sárafátækt í boði ríkisstjórnarinnar.
Sérstöku uppbótinni, sem skerðist í dag 65% af hverri krónu, var komið á af Samfylkingunni og Vinstri-grænum eftir bankahrunið og er einn versti skaðvaldur almannatryggingakerfisins. Eingöngu Flokkur fólksins er með skýra stefnu um að hætta þeim skerðingum en ekki bara draga úr þeim.
Þá eru eftir skerðingarflokkar upp á 45%, 38,35%, 12,96%, 11,9% og 9% og er þá einhver hissa á tuga eða hundraða þúsunda króna afturvirkum skerðingum á lífeyrislaunum hjá um 49.000 aldraðs og veiks fólks í kerfinu? Inn í þennan ógeðfellda flokk skerðinga vantar 10% búsetuskerðinguna og þá einnig skerðingar á barnabótum, húsnæðisbótum og sérstökum húsnæðisbótum.
Afleiðingarnar af þessum skerðingarnauðungum eru þær að aldraðir og öryrkjar sitja uppi með óheyrilegan skerðingarkostnað og róa lífróður til að eiga fyrir húsaleigu, mat og öðrum nauðsynjum og neita sér á sama tíma um að fara til læknis og leysa út lífsnauðsynleg lyf.
Ný könnun félagsvísindadeildar Háskóla Íslands sýnir að stór hluti öryrkja býr við slæma heilsu og sækir ekki heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Að búa við fátækt og verða að neita sér um sjálfsögð mannréttindi árum og jafnvel áratugum saman veldur varanlegu heilsutjóni og styttri ævi hjá þeim verst settu í kerfinu.
Skertari ríkisstjórn er örugglega vandfundin í öllum heiminum og hún á örugglega heimsmet í skerðingum því skerðingarnar voru 62 milljarðar króna árið 2020 og hafa hækkað í 75 milljarða árið 2022, sem er hækkun upp á 13 milljarða á tveimur árum.
Að beita fátækt fólk á annan tug keðjuverkandi skerðinga á jafn grimmilegan og ómannúðlegan hátt í almannatryggingakerfinu er fáránlegt. Þessar skerðingarkreddur þeirra eru gerðar í þeim eina tilgangi að halda þessu fólki í ævarandi fátækt og eru ekkert annað en gróf aðför að veiku og öldruðu fólki sem getur á engan hátt varið sig fyrir þeim.
Og að gefnu því tilefni: Ríkisstjórn, hættið að skatta og skerða til sárafátæktar!