Fæst okkar munu í framtíðinni líta um öxl og horfa með eftirsjá til ársins sem er að renna sitt skeið á enda. Við höfum upplifað farsótt sem kom okkur öllum í opna skjöldu. Pestin hefur þvingað okkur til að grípa til aðgerða svo hindra mætti að hún ylli manntjóni og jafnvel viðvarandi heilsubresti meðal stórs hluta þjóðarinnar. Þannig hefur þetta verið um heim allan.
Hetjurnar okkar
Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta hér á þessum vettvangi. Faraldurinn hefur með einhverjum hætti haft áhrif á líf okkar allra. Hver og einn veit hvað hér er um að ræða. Þegar ég hugleiði þetta allt þá er mér efst í huga þakklæti til heilbrigðisstarfsfólksins okkar. Þau eru hetjur ársins.
Þetta góða fólk hefur verið undir mjög miklu álagi en staðist það með sóma. Frammistaða þeirra á þessum erfiðu tímum má aldrei gleymast. Þeim skal þakkað. AUGLÝSING
Verkin færast í dóma
Hvað snýr að stjórnmálunum og þingstörfum þá hygg ég að við sem vinnum á þeim vettvangi höfum öll reynt að gera okkar besta. Hvort réttar ákvarðanir hafi síðan alltaf verið teknar er svo annað mál. Vitanlega er umdeilanlegt hvernig staðið var að aðgerðum gegn veirunni á árinu sem er að líða.
Það er eðlilegt, og í raun nauðsynlegt í lýðræðissamfélagi, að jafn víðtækar og afdrifaríkar aðgerðir séu ræddar með gagnrýnum huga þar sem fólk skiptist á skoðunum. Á endanum eru það svo stjórnvöld með lýðræðislega kjörnum fulltrúum að baki sem taka ákvarðanir. Þessir fulltrúar meirihlutans sem fer með völdin bera líka hina endanlegu ábyrgð.
Verk þeirra verða færð í dóm kjósenda á nýju ári. Það verða líka verk okkar í Flokki fólksins. Við göngum ótrauð til kosninga á nýju ári og verðum óhrædd við að sýna almenningi og kjósendum hvað við höfum verið að vinna á kjörtímabilinu.
Horfum bjartsýn til framtíðar
Afgreiðsla fjárlaga nú í lok árs ber vitanlega keim af því að veiran hefur sótt harkalega að þjóðarbúinu. Við í Flokki fólksins gerum ekki athugasemdir við það að ríkisstjórnin kjósi þá leið að fleyta þjóðarskútunni gegnum ólgusjóinn og verja hana áföllum með lántökum og skuldsetningu ríkissjóðs. Við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga lögðum við í Flokki fólksins fram röð breytingartillagna sem allar snerust um velferðarmál – að meira fé yrði veitt til að vernda fólkið í landinu á erfiðum tímum. Því miður var þetta allt fellt af stjórnarmeirihlutanum.
Í Flokki fólksins gefumst þó aldrei upp og horfum við með bjartsýni fram á veginn. Dropinn holar steininn í baráttu okkar. Við vitum að umræðan um velferðarmálin og hagsmuni fátækra, öryrkja og eldri borgara, væri hvergi söm í sölum þingsins ef okkar nyti ekki við.
Við látum ekki veiruna draga úr okkur máttinn. Við treystum á læknavísindin og höfum fulla trú á því að bóluefni sé handan við hornið. Við greinum ljós í enda ganganna. Takist okkur öllum í sameingu að verja stoðir samfélagsins gegnum þessa erfiðu tíma þá mun okkur takast hratt og vel að endurreisa hagkerfið og koma hjólum atvinnulífsins í fullan gang að nýju. Við skulum hafa í huga að við búum enn við góða innviði. Við eigum frábæran mannauð, hraust fólk, duglegt og vel menntað. Nú gildir að við stöndum saman.
Fólkið fyrst
Meðan við þraukum þetta ástand er afar mikilvægt að við gleymum ekki að halda einmitt utan um fólkið okkar. Manneskjur mega ekki brotna niður í þessum aðstæðum, fólk má ekki hrekjast í fátækt og örbirgð. Fremsta leiðarljós stjórnvalda í þessum raunum á að vera að hafa fólkið í forgangi – fólkið fyrst. Ríkisvaldið verður að taka utan um og vernda þegna sína. Það er frumskylda stjórnvalda.
Við fáum bóluefni gegn pestinni á nýju ári. Okkur mun takast að vinna bug á henni, bæði hér á landi og á heimsvísu. Helsta áskorun stjórnmálanna og kjörinna fulltrúa 2021 verður að sjá til þess að það takist sem skjótast að færa samfélagið og virkni þess í sama horf og var áður en sóttin sótti að okkur.
Að koma hjólunum í gang sem fyrst er afar mikilvægt svo afla megi þeirra tekna sem þarf til að reka hér öflugt velferðarsamfélag. Megin forsendan fyrir því að vel takist til með þetta er að okkur auðnist að verja og vernda mannauðinn. Að allir þegnar samfélagsins verði uppreistir og reiðubúnir að leggja sitt af mörkum við endurreisnina um leið og sú stund rennur upp að við erum laus undan oki og helsi veirunnar.
Varnir fyrir fátæka
Þingstörf okkar í Flokki fólksins hafa í þessu ástandi miðað mjög að því að halda uppi öflugum vörnum fyrir þau sem hafa úr minnstu að moða í okkar samfélagi. Við erum í stjórnarandstöðu og höfum því ekki þau völd sem við gjarnan hefðum viljað værum við í ríkisstjórn. En við getum veitt stjórnarmeirihlutanum öflugt aðhald í ræðum, með fyrirspurnum, og gerð og framlagningu frumvarpa og þingsályktunartillagna. Þetta höfum við gert.
Faraldurinn hefur ekki dregið máttinn úr okkur í Flokki fólksins þó við gætum ítrustu varúðar í öllum okkar daglegu störfum. Við höfum starfað ötullega í þinginu því við vitum að við megum ekki bregðast þeim sem við berjumst fyrir. Fremsta hugsjón okkar er að fátækt sé bölvun og hún á ekki að finnast í okkar ríka samfélagi. Við erum staðráðin í að útrýma fátækt í okkar ríka landi. Þegnar Íslands eiga ekki að líða skort á nauðsynjum né búa við þá niðurlægingu sem fylgir örbirgð.
Kraftur í þingstörfum
Ég sit í velferðarnefnd þingsins og þar er ávallt af nægu að taka við að standa vörð um hagsmuni þeirra sem úr minnstu hafa að moða. Starfið þar er mjög gefandi og lærdómsríkt.
Inga Sæland er 2. varaformaður fjárlaganefndar. Þar er unnið mikið starf á erfiðum tímum. Inga hefur ásamt öðru verið óþreytandi við að þrýsta á um aðstoð við hjálparsamtök sem aðstoða fátæka, og einnig svo dæmi sé tekið, barist af alefli fyrir SÁÁ en mikið mun reyna á þau góðu samtök í kófinu.
Leiðarljósið í okkar störfum er að halda utan um mannauðinn okkar, verja fólkið á erfiðum tímum.
Til að gera þetta nýtum við okkur þá aðstöðu sem þingsetan veitir okkur. Það sem af er þessu löggjafarþingi sem hófst nú 1. október þá hefur þingflokkur Flokks fólksins lagt fram alls 18 lagafrumvörp þar sem ég eða Inga Sæland formaður flokksins erum fyrstu flutningsmenn. Auk þess erum við meðflutningsmenn á fjölda annarra þingmála með öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum. Við höfum lagt fram níu þingsályktunartillögur. Við höfum borið upp 38 fyrirspurnir til ráðherra ríkisstjórnarinnar. Þau fá engan frið fyrir okkur. Frá 1. október höfum við farið 220 sinnum í ræðustól og samtals talað í um 15 klukkustundir.
Allt er þetta afrakstur þriggja mánaða vinnu í tveggja manna þingflokki.
Áhersla á velferðarmálin
Við í Flokki fólksins erum stolt af störfum okkar, bæði á þingi og í Reykjavíkurborg þar sem Kolbrún Baldursdóttir er ötull fulltrúi okkar. Ég hvet fólk til að nota tækifærið og kynna sér hvað við höfum verið að gera. Þingstörf okkar, bæði ræður og þingmál, má skoða á vef Alþingis.
Ég hef flutt röð þingmála sem snúa að bættum réttindum aldraðra og öryrkja. Nefna má frumvörp um rétt til þess að aldurstengd örorkuuppbót skuli haldast óbreyttur þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst, skerðingarlausa atvinnuþáttöku öryrkja afnám skerðingar á lífeyri vegna búsetu, að upphæð skaðabóta fylgi launaþróun og gjafsókn í skaðabótamálum.
Auk þessa hef ég lagt fram þingsályktunartillögu um búsetuöryggi aldraðra í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Svo má nefna nær tuttugu fyrirspurnirnar til ráðherra sem svo til allar snúa að velferðarmálum og kjörum aldraðra og öryrkja.
Fjölbreytni í þingmálum
Inga Sæland hefur lagt fram þrjú frumvörp til breytinga á almannatryggingum, þ. e. kostnað við greiðslur, frítekjumark vegna lífeyrisgreiðslna og fjárhæð bóta. Hún hefur mælt fyrir frumvarpi um bann við okri á nauðsynjavörum til að hamla gegn útbreiðslu veirunnar. Inga er sömuleiðis fyrsti flutningsmaður frumvarps um niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda, frumvörp um bætta tilhögun strandveiða og niðurfellingu strandveiðigjalds og um tengda aðila í sjávarútvegi. Inga hefur einnig lagt fjölda fyrirspurna fyrir sjávarútvegsráðherra um málefni tengd sjávarútveginum þar sem fjölmargt áhugavert hefur komið fram í svörum og iðulega vakið athygli fjölmiðla.
Inga er einnig í forsvari fyrir frumvarpi um niðurfellingu verðtryggingar og afnám virðisaukaskatts á hjálpartæki fatlaðra. Inga hefur einnig lagt fram fjölbreyttar þingsályktunartillögur. Þar má nefna afnám vasapeningafyrirkomulags aldraðra og stofnun embættis hagsmundafulltrúa aldraðra. Síðan eru það þrjú mál um lífeyrissjóði. Þau snúa að auknu lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum, eignarétt og erfð lífeyris og svo staðgreiðslu skatta af lífeyrisgreiðslum við innborgun í lífeyrissjóði. Síðan er það frumvarp um hækkað frítekjumark fyrir eldri borgara vegna atvinnutekna og lífeyristekna. Inga hefur einnig lagt fram þingsályktun um að ríkisstjórnin dragi til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu með óyggjandi hætti.
Samstaða og samkennd um hátíðar
Þetta ár hefur verið bæði annasamt og krefjandi fyrir okkur öll. Eins og ég sagði þá horfum við í Flokki fólksins þó fram á veginn með bjartsýni í huga. Við höfum óbilandi trú á að nú fari að rofa til. Árið 2021 verður betra en 2020. Við í Flokki fólksins erum reiðubúin að leggja okkar að mörkum til að koma hjólum samfélagsins aftur í gang á árinu sem bíður okkar nú. Nýja árið skal verða ár endurreisnar.
Nú þarf þjóðin að sýna samstöðu og þann aga sem þarf til að svo við megum halda smiti farsóttarinnar í skefjum. Förum varlega um hátíðarnar. Pössum upp á hvert annað og sýnum samkennd og nærgætni. Gleymum ekki þeim sem minnst hafa. Munum að fólkið á ávallt að vera í forgangi.
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og friðar.
Höfundur er varaformaður og þingflokksformaður Flokks fólksins