Tillögur Flokks fólksins fyrir síðari umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020-2024
F-1 Biðlistar vegna þjónustu við börn (SFS)
Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundssviðs verði hækkaðar um 40,5 m.kr. til þess að vinna niður biðlista í þjónustu við börn. Lagt er til að sú leiði verði farin að ráða inn hóp fagfólks tímabundið til að taka niður biðlistann. Ráðnir verði 2 sálfræðingar til viðbótar og einn talmeinafræðingur til eins árs til að byrja með fyrir leik- og grunnskóla. Gert er ráð fyrir að kostnaður fyrir þessi þrjú stöðugildi nemi 40,5 m.kr. sem fjármagnað verði með tilfærslu af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.
Greinargerð
Það eru biðlistar alls staðar, börn bíða mánuði og jafnvel ár eftir að fá nauðsynlega þjónustu. Bið eftir skólaþjónustu, fyrstu og frekari þjónustu eru tæp 900 börn samkvæmt nýjum tölum frá velferðarsviði. Hér er m.a. verið að bíða eftir sálfræðiviðtölum og eftir að fá greiningar sem kennarar, fagfólk og foreldrar telja nauðsynlegar fyrir barnið til að hægt sé að skilgreina þjónustuna og miða hana út frá einstaklingsþörfum. Það er mikilvægt að svo kölluð frumgreining sem veitt er af skólasálfræðingum tefjist ekki enda er slík greining inngöngumiði í aðrar ítarlegri greiningar sem veittar eru af ríkinu í þeim tilfellum sem þess er talið þörf.
Með því að ráð fleira fagfólk inn til skamms tíma til að ná niður biðlistum er hægt að byrja með hreint borð hvað þennan hóp varðar í það minnsta Í framhaldi er þess vænst að með hagræðingu og breyttu skipulagi á vinnu og aðsetri sálfræðinga sé hægt að sporna við að biðlistar myndist í þeim mæli sem nú er og hafa verið árum saman. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lengi talað fyrir því að aðsetur skólasálfræðinga sé í skólunum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Í skólunum eru sálfræðingarnir í nálægð við börnin og til stuðnings og ráðgjafar við kennara og starfsfólk. Með þeim hætti má telja víst að þeir komist einnig yfir fleiri verkefni enda fer tími í að aka á milli þjónustumiðstöðva og skóla.
Biðlistar eru í alla þjónustu við börn sem borgin veitir enda hafa þarfir barna ekki verið í forgangi hjá þessum né síðasta meirihluta. Bið er slæm fyrir börn og foreldra þeirra og óvissan ekki síður erfið. Börn og aðrir viðkvæmir hópar eiga einfaldlega ekki að þurfa að bíða. Hér eiga valdhafar að sjá sóma sinn og forgangsraða fjármunum í þágu þjónustu við fólkið. Við eigum að geta gert kröfu um að börn hafi gott aðgengi að allri þjónustu borgarinnar þar með talið sálfræðiþjónustu skólanna. Barn sem þarf að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila eða fær ekki aðstoð við hæfi er í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða eða þaðan að af enn verra.
F-2 Fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum (SFS)
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundssviðs verði hækkaðar um 1.605 m.kr. vegna tekjulækkunar.
Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.606 m.kr.á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséður ræður ekki við útgjaldaraukningu af þessar stærðargráðu. Jafnframt er lagt til að fjárfestingar ársins 2020 verði lækkaðar um sömu fjárhæð eða 1.605 m.kr. og sem felur í sér að sjóðsstaða borgarinnar helst í jafnvægi. Í þeirri áætlun sem nú er verið að leggja fram til síðari umræðu er áætlað að 19,5 milljarðar króna fari í fjárfestingar en nái tillagan fram að ganga lækki þær í 17,9 milljarða króna. Lagt er til að eignaskrifstofunni verði falið að forgangsraða fjárfestingum upp á nýtt í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið með þetta í huga.
Greinargerð
Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir. Flokkur fólksins leggur jafnfram til að leitað verði leiða til að spara í rekstri til að koma á móts við útgjöld sem fríar skólamáltíðir kalla á. Leitað verði leiða til að minnka matarsóun og þar með lækkka kostnað mötuneyta. Í ljós hefur komið í rannsóknum að mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Daglega eru yfirfullir ruslastampar af matarafgöngum í skólunum. Með átaki gegn matarsóun er hægt að draga kostnað við máltíðir skóla niður á sama tíma og hugað er að umhverfismálum. Einn liður í að draga úr matarsóun er að leyfa börnum um leið og þau hafa aldur og þroska til, að skammta sér sjálf á diskinn og einnig að börnin skrá niður hvað og hversu mikið þau leifa. Í að leyfa börnum að taka virkan þátt í að draga úr matarsóun er líklegt til að draga úr matarsóun. Mikilvægt er að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir fríum skólamáltíðum eða lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja.
F-3 Styrkir til dagforeldra (SFS)
Flokkur fólksins leggur til að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15%. Um er að ræða leigustyrk, styrk vegna ákveðins fjölda barna og aðstöðustyrk. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 61,4 m.kr. Viðbótarútgjöld verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum til menningar- og ferðamálasviðs um sömu fjárhæð, nánar tiltekið verði fjárheimildir til annarrar menningarstarfsemi kostn.st. 03550 lækkaðar um 25 m.kr., til landnámssýningar kostn.st. 03710 lækkaðar um 25 m.kr. og fjárheimildir til listaverka á opnum svæðum kostn.st. 03350 lækkaðar um 12,1 m.kr..
Greinargerð
Bilið sem átti að brúa milli dagforeldra og ungbarnaleikskóla hefur ekki verið brúað. Á meðan verið er að brúa þetta margumrædda bil þarf að styðja við bakið á dagforeldrum ef stéttin á ekki að þurrkast út. Lagt er til að dagforeldrum verði greiddir út þeir styrkir sem nefndir hafa verið að gætu hjálpað dagforeldrum og stutt við bakið á þeim á meðan þetta millibilsástand varir. Styrkir sem nefndir hafa verið eru:
- Dagforeldrar sjálfir hafa nefnt leigustyrk til þeirra sem eru að leigja dýra gæsluvelli á vegum borgarinnar
- Einnig að bjóða dagforeldrum sem að ekki eru með 4-5 börn viðbótarniðurgreiðslu til áramóta
- Aðstöðustyrk sem var samþykktur en síðan ákveðið að yrði ekki greiddur í bráð. Þessi styrkur myndi hjálpa þeim dagforeldrum sem ekki hafa náð að fylla í plássin sín.
Haustið sem nú hefur kvatt hefur verið einstaklega erfitt fyrir dagforeldra. Þeir vita ekki endilega hversu mörg börn eru hjá þeim í næsta mánuði. Stundum bjóða leikskólarnir pláss með stuttum fyrirvara. Dagforeldrar geta því staðið uppi um mánaðamót með einungis hluta af laununum sem þeir gerðu ráð fyrir að hafa. Þeir dagforeldrar sem eru ekki með laus pláss geta síðan ekki tekið við nýjum börnum fyrr en eldri börnin komast inn á leikskóla. Leikskólar Reykjavíkurborgar innrita börn yfirleitt einungis að hausti og því er mjög erfitt að fá laust pláss hjá dagforeldri eða á ungbarnaleikskóla á öðrum tíma ársins en á haustin.
Margir dagforeldrar hafa áratuga starfsreynslu hjá borginni. Sveitarfélagið Reykjavík hefur brugðist þessum hópi að mati margra, stéttinni, foreldrum og börnum sem reiða sig á þjónustuna. Haustið hefur verið sérlega slæmt fyrir dagforeldrana og verður vorið slæmt fyrir foreldrana sem leita nú að dagforeldrum fyrir börn sín. Í vor munu margir foreldrar spyrja „hver á að passa barnið mitt svo ég komist út að vinna”?
F-4 Opnun á göngugötum í miðbænum
Flokkur fólksins leggur til að opna aftur göngugötur fyrir umferð a.m.k. þar til að framkvæmdir hefjast og nota tímann sem framundan er til að ræða við rekstraraðila á svæðinu
Greinargerð
Ákveðið hefur verið að fresta framkvæmdum í tengslum við göngugötur á
Laugavegi og nágrenni í um það bil ár. Flokkur fólksins leggur til að götur sem
nú hafa verið lokaðar í miðbænum verði opnaðar aftur fyrir bílaumferð að
minnsta kosti þar til frekari ákvarðanir hafa verið teknar um framkvæmdir. Á
tímanum verði rekstraraðilum á svæðinu og öðrum sem telja sig eiga hagsmuna að
gæta boðið upp á alvöru samráð. Kannaðar verða forsendur þeirra sem lúta að
rekstri en dregið hefur mikið úr verslun ákveðinna verslana og fyrirtækja eftir
að götur voru gerðar að göngugötum og lokaðar alfarið fyrir umferð.
Ekkert er gert ráð fyrir útgjaldarauka vegna þessarar tillögu nema einhverju
smáræði sem kostar að fjarlægja
hindranir til þess að bílar geti ekið göturnar á ný.
F-5 Ráðstöfun innri leigu í viðhaldskostnað
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi.
Greinargerð
Bókfærð innri leiga á fasteignum skólanna til eignasjóðs nemur 8,5% af stofnverði viðkomandi fasteignar. Þar af er 1,5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi fasteignarinnar. Sé þeirri fjárhæð sem innheimt er til að standa undir viðhaldi ekki varið til raunverulegs viðhalds má tala um að það safnist upp viðhaldsskuld. Það hefur orðið raunin eftir hrun þar sem viðhald fasteigna borgarinnar hefur verið af skornum skammti. Afleiðingarnar eru að viðhaldsþörf hefur safnast upp í skólunum og er nú svo komið að margar byggingar eru ýmist skemmdar eða þurfa miklar viðgerðir. Nægir jafnframt að nefna ábendingar frá innri endurskoðun um að ósamræmi sé á milli þess sem fram kemur í forsendum fyrir viðhaldi eigna í útreikningi á innri leigu og þeirri upphæð sem fer í raunverulegt viðhald. Í skýrslum sínum hefur innri endurskoðandi bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir.
Flokkur fólksins leggur áherslu á að eignasjóður geri skýra grein fyrir því í fjárhagsáætlun í hvað innri leigan fari, hversu stór hluti innri leigu fari í
- raunverulegt viðhald og endurbætur og
- byggingu nýs húsnæðis.
Þannig verði hægt að lesa út hve stór hluti innri leigunnar fari í raunverulegan húsnæðiskostnað og hvaða hluti fara bara í afborganir af lánum, eða önnur verkefni s.s. bragga í Nauthólsvík og Gröndalshús.