Frístundastyrkur yfir 1.000 barna notaður í frístundaheimilisgjöld

Þann 10. desember 2019 skipaði borgarstjóri starfshóp um endurskoðun á regluverki Frístundakortsins. Frístundakortið er styrkjakerfi Reykjavíkurborgar til þess að hvetja börn og ungmenni til þátttöku í íþróttum og annarri skipulagðri tómstundastarfsemi. Styrkurinn er 75.000 krónur á ári og er til að greiða niður hluta af þátttöku- og æfingagjöldum barna sem eiga lögheimili í Reykjavík. Samkvæmt reglum Frístundakortsins er einnig heimilt að nýta kortið til greiðslu á frístundaheimili eða vegna náms í tungumálaskóla.

Aðildarfélög Frístundakortsins eru fjölmörg og fjölbreytt. Barn getur t.d. valið að stunda badminton, ballett, bogfimi, crossfit, ýmis konar form af dansi, kórastarf, tónlistarnám, glímuþjálfun, golf, hestamennsku, boltaíþróttir, leiklist, fjölbreytt listnám og ótal fleira.

Staðan í dag er þannig að í tilfellum meira en þúsund barna er frístundakortið þeirra notað til að greiða fyrir Frístundaheimili og í tilfellum 150 barna er frístundastyrkurinn þeirra notaður til að greiða fyrir íslenskukennslu. Það er mat okkar í Flokki fólksins að  Reykjavíkurborg ætti skilyrðislaust að bjóða foreldrum sem þess þurfa sérstakan styrk til að greiða gjöld frístunaheimilis og málaksóla til þess að börnin geti nýtt styrkinn í íþrótta- og tómstundaiðkun að eigin vali.

Í reglum um fjárhagsaðstoð kveður á um að styrkur til að greiða fyrir þjónustu barns s.s. frístundaheimili standi foreldrum sem fá fjárhagsaðstoð til boða. Foreldrar sem ekki eru með fjárhagsaðstoð ættu að geta sótt um sambærilegan styrk í stað þess að þurfa að grípa til Frístundakorts barns síns til greiða upp í gjald frístundaheimili eða málaskóla.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur tekið þetta upp í borgarstjórn ótal sinnum og lagt ítrekað fram tillögur um breytingar á regluverki Frístundakortsins þ.m.t. að styrkurinn fái aftur sinn eina sanna upphaflega tilgang sem er að öll börn og unglingar í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Markmiðið með styrknum er jú að auka jöfnuð.

Miklar vonir voru bundnar við vinnu starfshópsins enda vænst að tekið yrði á þessum annmörkum Frístundakortsins. Þessu breytti hópurinn hins vegar ekki heldur var ákveðið að áfram megi nota Frístundakortið sem greiðslu upp í gjald frístundaheimilis og tungumálaskóla.

Frístundaheimili í flestum tilfellum nauðsyn

Það hafa ekki allir foreldrar efni á að leyfa barni sínu að stunda dans, tónlistar- eða leiklistarnám eða aðrar sértækar tómstundir. Foreldrar sem báðir vinna utan heimilis eiga hins vegar engan annan kost en að barn þeirri dvelji á frístundaheimili eftir skóla og þar til vinnu foreldra er lokið. Það er því útilokað að leggja að jöfnu annars vegar frístundaheimili, enda þótt þar fari sannarlega fram metnaðarfullt starf og hins vegar ýmis konar íþrótta-, lista- og tómstundaiðkun sem barnið velur sér sjálft eftir því sem áhugi þess og löngun segir til um.

Rök starfshópsins fyrir að Frístundakort barns mætti nota í greiðslu á frístundaheimili voru m.a. „að ef það yrði afnumið þá skapaðist sú hætta að foreldrar hefðu börn sín eftirlitslaus heima“.

Önnur rök starfshópsins voru að „með því að nota styrkinn upp í greiðslu á frístundaheimili veit fólk af honum og er hugsanlega líklegra til að nýta hann áfram þegar börn hafa ekki lengur aldur til að sækja frístundaheimili“.

En þau rök sem stungu hvað mest í augu voru að „kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og þess vegna ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að Frístundakortinu að svo stöddu.“

Á þessu má sjá að þegar á allt er litið eru það kostnaðurinn við dvöl barns á frístundaheimili sem meirihlutinn sér ofsjónum yfir og því ekki tilbúinn til að breyta reglum um Frístundakortið til þess sem þær voru í upphafi.

Að Frístundakortið fái aftur sinn upphaflega tilgang

Frístundakortið var hugsað frá upphafi sem styrkur til að auka jöfnuð og gefa börnum tækifæri til tómstunda- og íþróttaiðkunar að eigin vali. Það stóð aldrei til að heimila notkun hans í eitthvað annað. Þeir foreldrar sem þarfnast aðstoðar við að greiða þjónustu við barn sitt eiga að fá hjálp til þess með öðrum hætti. Barn á bæði að geta verið á frístundaheimili, sótt tungumálaskóla ef því er að skipta og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir, listnám eða tómstundir sem það velur sjálft. Það eina rétta í þessu er að Frístundakortið fái aftur sinn upphaflega tilgang

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn

Deila