Gerist það sama og árið 2008?

„Við viljum að Al­þingi geri tafar­lausar ráð­stafanir með laga­setningu til að vinna gegn því tjóni sem vafa­laust hlýst af því þegar verð­bólgan vex með til­heyrandi hækkun á verð­tryggð lán heimilanna. Það er á­stand sem við þekkjum því miður allt of vel,“ segir Inga Sæ­land, þing­maður og for­maður Flokks fólksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Inga segir að Flokkur fólksins hafi þungar á­hyggjur af efna­hags­legum af­leiðingum kórónu­veirufar­aldursins fyrir heimilin og fólkið í landinu. Bendir Inga á að allar for­sendur fyrir verð­bólgu­skoti séu nú þegar fyrir hendi og lán­takar megi búast við því að höfuð­stóll lána þeirra hækki um­tals­vert með litlum fyrir­vara eins og í kjöl­far hrunsins 2008.

„Þá ruku skuldir heimilanna skyndi­lega upp vegna verð­bólgu­skots. Þúsundir misstu heimili sín. Kórónu­veirufar­aldurinn dregst á langinn. Við horfum fram á mesta efna­hags­sam­drátt í heila öld, hrun gjald­eyris­tekna og at­vinnu­leysi aldrei meira. Við verðum að undir­búa okkur betur fyrir það sem fram undan er,“ segir Inga.

Hún bendir á að vextir séu lágir núna og boðið sé upp á endur­fjár­mögnun hjá lána­fyrir­tækjum með töku ó­verð­tryggðra lána. Þó muni fjöl­margir ekki geta breytt skuldum sínum með endur­fjár­mögnun vegna at­vinnu­missis eða annarra á­stæðna.

„Þeir sem skulda verð­tryggð lán eru ber­skjaldaðir. Við megum ekki skilja þetta fólk eftir varnar­laust. Nauð­syn­legt er að vernda heimilin fyrir hörðustu á­hrifum verð­bólgu­skots. Skelfingar hrunsins 2008 mega aldrei endur­taka sig. Verð­tryggð hús­næðis­lán taka mið af mánaðar­legum breytingum á vísi­tölu neyslu­verðs.“

Inga segir að Flokkur fólksins hafi nú lagt fram frum­varp um að þak verði sett á neyslu­vísi­töluna sem þannig komi í veg fyrir á­hrif verð­bólgu­skots á höfuð­stól verð­tryggðra lána á næstu 12 mánuðum.

„Þannig væri strax hægt að tryggja heimili landsins fyrir ó­væntu verð­bólgu­skoti á erfiðum tímum. Jafn­framt leggjum við til að verð­trygging hús­næðis­lána verði al­farið af­numin. Enda hefur hún valdið ó­bætan­legu tjóni í þjóð­fé­lagi sem býr við sveiflu­kenndan gjald­miðil sem krónan okkar er. Það er því nauð­syn­legt að leggja bann við töku verð­tryggðra hús­næðis­lána svo heimilum landsins verði ekki kastað á verð­bólgu­bál í hvert sinn sem kreppir að í þjóðar­bú­skapnum. Þar sem ekki er hægt að af­nema verð­tryggingu af gildandi lánum er nauð­syn­legt að þeir sem það kjósa fái heimild til að endur­fjár­magna sig inn í nýtt kerfi.“

Inga segir að lokum að einnig sé mikil­vægt að niður­stöður láns­hæfis- og greiðslu­mats standi ekki í vegi fyrir því að skuldari geti breytt verð­tryggðu hús­næðis­láni sínu í ó­verð­tryggt lán.

„Til að liðka fyrir endur­fjár­mögnun leggjum við í Flokki fólksins til að ekki þurfi að fara fram láns­hæfis- og greiðslu­mat þegar neytandi skiptir út eldra verð­tryggðu fast­eigna­láni fyrir ó­verð­tryggt lán. Það er skylda stjórn­valda að sjá til þess að heimilum lands­manna verði ekki kastað á verð­bólgu­bálið eins og í kjöl­far efna­hags­hrunsins 2008.“

Frétt þessi birtist á Hringbraut.is

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila