Með fjárhagslegum hryðjuverkum og með ofsatrú á stýrivaxtahækkanir að vopni er staða heimilanna að versna illa í boði ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.
Þeim er alveg sama hvar fjárhagslegt ofbeldi þeirra drepur niður fæti. Stefna þeirra er að ganga fjárhagslega milli bols og höfuðs á ungu fólki sem í góðri trú keypti sér íbúð í lágvaxtalandinu Íslandi, sem var hjá þeim hin fullkomna blekking, ekkert annað.
Stjórnvöld eru ekki að fara af límingum vegna örmagna heilbrigðisstarfsfólks sem er að sinna sjúklingum á göngum sjúkrahúsa eða vegna biðlista í heilbrigðiskerfinu eða geðheilbrigðismálum.
Þá er hún ekki að bæta hag aldraðs fólks, öryrkja, barnafjölskyldna, ungs fólks eða fólks á lægstu launum með auknum sköttum og keðjuverkandi skerðingum.
Þá er búið að gera leigumarkaðinn að fjárhagslegu sprengjusvæði, þar sem um tvö hundruð manns eru í örvæntingu að berjast um að fá hverja einustu lausa íbúð og leiguverð húsnæðis hækkar stjórnlaust, því það vantar að setja á leiguþak eins og frumvarp Flokks fólksins mælir fyrir um.
Lausn Seðlabankans í boði ríkisins er að stöðva framkvæmdir á húsnæðismarkaði til að stöðva hækkanir á íbúðum! Hvernig komust stjórnvöld og Seðlabankinn að þessari fáránlegu og heimskulegu niðurstöðu? Jú, með því að nota það eina tól sem þau þekkja; „gervigreindina“.
Til að sleppa við mannlegar tilfinningar virðist ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa kveikt á gervigreindinni sinni. Gervigreind hefur ekki mannlegar tilfinningar og hún finnur ekki til samúðar með þeim sem eiga bágt og eru hjálpar þurfi vegna fátæktar eða vegna skorts á húsnæði.
Forgangsröðunin er einfaldlega kolröng hjá gervigreindarstjórninni og snýr eingöngu að hinum ríku. Þegar litið er til hinna ómennsku stjórnarhátta stjórnvalda gagnvart fjölskyldum, ungu fólki, öldruðu fólki og öryrkjum virðist mennskan víðs fjarri við ákvarðanatökur og gervigreindarómennskan hafa tekið öll völd á Íslandi.
Bankarnir og fyrirtækin græða á tá og fingri á sama tíma og ungu fólki er sendur aukareikningur upp á um 200.000 krónur á mánuði í heimabanka í þeim eina tilgangi að láta unga fólkinu blæða fjárhagslega út hægt og rólega. Stjórnvöld hlusta ekki, heyra ekki, sjá ekkert og gera ekkert nema gefa Seðlabankanum fullt og ótakmarkað fjárhagslegt skotleyfi á almenning í formi ofsatrúar hans á stýrivaxtaguðinn þeirra.
Verðbólgumæling er ekki náttúrulögmál, heldur mannanna verk, og því er ekkert auðveldara en að taka húsnæði út úr henni og festa vextina til að hjálpa ungu fólki í greiðsluvanda.
Það hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli næstkomandi laugardag og það vegna aðgerðaleysis stjórnvalda og Seðlabankans í málefnum heimilanna.
Og að gefnu tilefni: ríkisstjórn, hættið að skatta fátækt!