Er gervigreind við völd á Íslandi?

Með fjár­hags­leg­um hryðju­verk­um og með ofsa­trú á stýri­vaxta­hækk­an­ir að vopni er staða heim­il­anna að versna illa í boði rík­is­stjórn­ar­inn­ar og Seðlabank­ans.

Þeim er al­veg sama hvar fjár­hags­legt of­beldi þeirra drep­ur niður fæti. Stefna þeirra er að ganga fjár­hags­lega milli bols og höfuðs á ungu fólki sem í góðri trú keypti sér íbúð í lág­vaxta­land­inu Íslandi, sem var hjá þeim hin full­komna blekk­ing, ekk­ert annað.

Stjórn­völd eru ekki að fara af lím­ing­um vegna ör­magna heil­brigðis­starfs­fólks sem er að sinna sjúk­ling­um á göng­um sjúkra­húsa eða vegna biðlista í heil­brigðis­kerf­inu eða geðheil­brigðismál­um.

Þá er hún ekki að bæta hag aldraðs fólks, ör­yrkja, barna­fjöl­skyldna, ungs fólks eða fólks á lægstu laun­um með aukn­um skött­um og keðju­verk­andi skerðing­um.

Þá er búið að gera leigu­markaðinn að fjár­hags­legu sprengju­svæði, þar sem um tvö hundruð manns eru í ör­vænt­ingu að berj­ast um að fá hverja ein­ustu lausa íbúð og leigu­verð hús­næðis hækk­ar stjórn­laust, því það vant­ar að setja á leiguþak eins og frum­varp Flokks fólks­ins mæl­ir fyr­ir um.

Lausn Seðlabank­ans í boði rík­is­ins er að stöðva fram­kvæmd­ir á hús­næðismarkaði til að stöðva hækk­an­ir á íbúðum! Hvernig komust stjórn­völd og Seðlabank­inn að þess­ari fá­rán­legu og heimsku­legu niður­stöðu? Jú, með því að nota það eina tól sem þau þekkja; „gervi­greind­ina“.

Til að sleppa við mann­leg­ar til­finn­ing­ar virðist rík­is­stjórn­in og Seðlabank­inn hafa kveikt á gervi­greind­inni sinni. Gervi­greind hef­ur ekki mann­leg­ar til­finn­ing­ar og hún finn­ur ekki til samúðar með þeim sem eiga bágt og eru hjálp­ar þurfi vegna fá­tækt­ar eða vegna skorts á hús­næði.

For­gangs­röðunin er ein­fald­lega kol­röng hjá gervi­greind­ar­stjórn­inni og snýr ein­göngu að hinum ríku. Þegar litið er til hinna ómennsku stjórn­ar­hátta stjórn­valda gagn­vart fjöl­skyld­um, ungu fólki, öldruðu fólki og ör­yrkj­um virðist mennsk­an víðs fjarri við ákv­arðana­tök­ur og gervi­greindarómennsk­an hafa tekið öll völd á Íslandi.

Bank­arn­ir og fyr­ir­tæk­in græða á tá og fingri á sama tíma og ungu fólki er send­ur auka­reikn­ing­ur upp á um 200.000 krón­ur á mánuði í heima­banka í þeim eina til­gangi að láta unga fólk­inu blæða fjár­hags­lega út hægt og ró­lega. Stjórn­völd hlusta ekki, heyra ekki, sjá ekk­ert og gera ekk­ert nema gefa Seðlabank­an­um fullt og ótak­markað fjár­hags­legt skot­leyfi á al­menn­ing í formi ofsa­trú­ar hans á stýri­vaxtaguðinn þeirra.

Verðbólgu­mæl­ing er ekki nátt­úru­lög­mál, held­ur mann­anna verk, og því er ekk­ert auðveld­ara en að taka hús­næði út úr henni og festa vext­ina til að hjálpa ungu fólki í greiðslu­vanda.

Það hef­ur verið boðað til mót­mæla á Aust­ur­velli næst­kom­andi laug­ar­dag og það vegna aðgerðal­eys­is stjórn­valda og Seðlabank­ans í mál­efn­um heim­il­anna.

Og að gefnu til­efni: rík­is­stjórn, hættið að skatta fá­tækt!

Deila