Árið 2018 samþykkti Alþingi frumvarp Flokks fólksins sem felldi niður skerðingar á styrkjum, sem öryrkjar og lífeyrisþegar fá, til að standa straum af kostnaði við útgjöld vegna veikinda. Með þessu var hætt að skerða lífeyri vegna hjálpartækjastyrkja, lyfjakaupastyrkja og bensínstyrkja. Þessi breyting sparar 6.000 öryrkjum og eldri borgurum að meðaltali um 120.000 kr. á ári.
Þegar þetta mál var rætt á Alþingi viðurkenndi ríkisstjórnin að þessar skerðingar hefðu aldrei átt að eiga sér stað og sagði þær hafa viðgengist fyrir mistök. Þetta kom hagsmunasamtökum aldraðra og öryrkja talsvert á óvart, enda höfðu þau barist fyrir afnámi þessara skerðinga áratugum saman. Sú barátta fór greinilega fram hjá fjórflokknum.
Árið 2019 vann Flokkur fólksins dómsmál fyrir hönd ellilífeyrisþega. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn eldri borgurum með því að skerða greiðslur til þeirra með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Niðurstaðan í þessu máli varð til þess að ríkið greiddi 32.000 eldri borgurum um sjö milljarða króna með vöxtum. Viðbrögð félags- og barnamálaráðherra við þessari niðurstöðu var ekki afsökunarbeiðni fyrir lögbrotin. Hann valdi þess í stað að gagnrýna niðurstöðuna þar sem hann hefði gjarnan viljað fjárfesta þessum peningum í einhver önnur verkefni. Peningum sem ríkið aflaði með ólögmætum skerðingum.
Á þessu ári lagði Flokkur fólksins fram frumvarp um að bætur almannatrygginga hækkuðu í samræmi við launavísitölu, sem hefði komið í veg fyrir vaxandi kjaragliðnun, meðal annars hjá þeim sem lifa undir lágmarksframfærsluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. Aðeins þingmenn ríkisstjórnarinnar felldu frumvarpið, allir aðrir þingmenn voru því fylgjandi.
Um það bil 20 þingmál Flokks fólksins hafa verið svæfð í nefndum frá árinu 2017. Þessi sanngirnis- og réttlætismál fá ekki einu sinni þinglega meðferð. Ríkisstjórnin vill ekki hleypa málum, mörgum hverjum samhljóða kosningaloforðum ríkisstjórnarflokkanna, til atkvæðagreiðslu. Þar segja gjörðir meira en orð.