Ef svo fer sem horfir missa fjölmargir, jafnvel þúsundir, heimili sitt á næstu mánuðum og árum VEGNA aðgerða stjórnvalda. Þeim skaða munu núverandi stjórnvöld bera fulla og algjöra ábyrgð á og á meðal fórnarlamba þeirra verða þúsundir barna, sem þau eru með þessu að dæma til fátæktar.
Það er ekki verðbólgan sem er að valda heimilunum mestum vanda í dag, heldur vaxtahækkanir Seðlabankans sem enn sér ekki fyrir endann á. Seðlabankastjóri Evrópu hefur sagt að þessi verðbólga muni lækka, jafnvel þó vextir séu ekki hækkaðir.
En þrátt fyrir það hafa seðlabankar Evrópu flestir hækkað vexti, en enginn þeirra er þó jafngrimmur í ofbeldi sínu gagnvart heimilunum og Seðlabanki Íslands.
Ég er ein af þeim sem barðist fyrir heimili mínu eftir hrun og missti það VEGNA aðgerða stjórnvalda og þekki því á eigin skinni örvæntinguna sem fylgir því og ég lýsi því yfir að það hefur ENGINN rétt til að búa til aðstæður þar sem fólk missir heimili sín. Alveg sama hvaða titil fólk hefur eða hvaða embætti það gegnir eða hvaða menntun það hefur aflað sér.
Í dag er Seðlabankinn samt, í skjóli ríkisstjórnarinnar, að búa þær aðstæður til.
Hár húsnæðiskostnaður er að sliga heimilin í dag og ríkisstjórnin og Seðlabankinn láta eins þessi hái húsnæðiskostnaður sé eitthvert náttúrulögmál sem stafi af verðbólgu. Grófari gaslýsing er varla til.
Við skulum ekki láta neinn ljúga því að okkur að þessar stjarnfræðilegu hækkanir á afborgunum lána séu VEGNA verðbólgunnar, því svo er ALLS EKKI! Þær eru til komnar VEGNA vaxtahækkana Seðlabankans og vegna þess að það hefur hreinlega verið tekið meðvituð ákvörðun um að fórna heimilunum fyrir bankana.
Aðrar leiðir en vaxtahækkanir hafa hreinlega ekki verið skoðaðar – þær hafa ekki einu sinni verið til umræðu –Lausnir sem ekki felast í vaxtahækkunum eru meðhöndlaðar eins og samsæriskenningar í umræðunni. Bæði ríkisstjórnin og Seðlabankinn eru með rörsýn á einstefnu sem leiða mun til glötunar.
Það er óhætt að segja að vaxtafíklarnir í Seðlabankanum séu búnir að sýna sitt rétta andlit og opinbera fyrir hverja þeir vinna. Hvorki þeir né ríkisstjórnin eru að vinna fyrir almenning heldur í þágu fjármagnseiganda og þeirra sem vita jafnvel ekki aura sinna tal.
Fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Paul Volcker, sagði á sínum tíma að til þess að ná verðbólgu niður þurfi lífskjör að lækka og það er í alvörunni hugmyndafræðin sem Seðlabankinn starfar eftir. Hugmyndafræði sem hefur það beinlínis að markmiði að gera lífskjör almennings verri!
Vaxtahækkanir undanfarinna mánaða eru glæpur gegn fólkinu í landinu.