Hagsmunafulltrúi aldraðra

Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum halda áfram að lengjast. Í dag þurfa 42% þeirra sem bíða eftir hjúkrunarrými að bíða í meira en 90 daga eða lengur samanborið við 26% árið 2014 samkvæmt landlækni. Fram kemur í nýrri greinargerð Landlæknisembættisins að löng bið eftir hjúkrunarrýmum sé verulegt áhyggjuefni og þá sennilega um allt land. Hin langa bið endurspeglast meðal annars í fjölda einstaklinga sem bíða eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili á Landspítalanum segir á vef Landlæknisembættisins.

Það eru slæm örlög að vera fastur á sjúkrahúsi án þess að þurfa þess. Skerðing lífsgæða er mikil við þær aðstæður. Það versta í þessu er að ekki er verið að byggja nógu mörg hjúkrunarrými eins og landlæknir hefur bent á. Alls eru 2.700 hjúkrunarrými á landinu samkvæmt opinberum tölum. Áætlað er að allt að 270 ný rými vanti til viðbótar við þau hjúkrunarrými sem þegar hefur verið ákveðið að byggja samkvæmt gögnum landlæknis, auk þess þurfi að bæta eða endurbyggja allt að 400 hjúkrunarrými til að mæta kröfum um bættan aðbúnað. Eftir er að svara hvort verið sé að byggja nægjanlega mörg hjúkrunarrými í sjálfri höfuðborginni?

Nýlega, á fundi borgarráðs, lagði ég fram beiðni um að fá nýjar upplýsingar um stöðu eldri borgara í Reykjavík og hver biðin sé m.a. eftir heimaþjónustu og hjúkrunarrýmum. Samkvæmt Velferðarsviði Reykjavíkurborgar voru í desember 2018 53 einstaklingar sem lágu á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið myndar eitt heilbrigðisumdæmi. Um 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur og á annan tug biðu eftir heimahjúkrun. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu um að sett yrði á laggirnar starf “hagsmunafulltrúa eldri borgara” en sú tillaga hugnaðist ekki meirihlutanum og var hún felld. Öldungaráð Reykjavíkur veitti umsögn þar sem segir: „að nú þegar sé verið að fjalla um þessi mál auk þess sem starfandi sé umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara.“ Ekki var talin þörf á stofnun sérstaks hagsmunafulltrúa í Reykjavík fyrir aldraða.

Umboðsmaður borgarbúa og málefni eldri borgara

Í ljósi umsagnar Öldungaráðs Reykjavíkur að umboðsmaður borgarbúa sinnti málum eldri borgara var kannað hver staða þessa málaflokks er hjá honum. Fram kom hjá umboðsmanninum að mikið álag er á embætti umboðsmanns og neyðist embættið til að forgangsraða verkefnum og málsmeðferðartími getur því verið langur. Ljóst má vera að embættið þarf aukið fjármagn og mannafla til að anna öllum þeim málum sem það fæst við að sögn umboðsmanns borgarbúa. Ekki hvað síst svo það geti haft frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða, með það að markmiði að kynna starfsemi embættisins og auðvelda og hvetja hópinn til að leita til þess um hagsmunagæslu og réttarvernd. 

Eldri borgarar í neyð

Í tiltölulega nýrri rannsókn Berglindar Blöndal á aðstæðum aldraðra kemur fram að þunglyndi og einmanaleiki einkenndi þátttakendur rannsóknarinnar og voru sumir einnig vannærðir. Þessar upplýsingar hafa oft komið fram. Þess vegna skyldi ætla að Velferðarsviðið sem og Öldungaráðið hefðu viljað styðja þessa tillögu heils hugar eða í það minnsta skoða hana nánar. Sífellt er verið að fullvissa borgarfulltrúa um að fylgst sé vandlega með eldri borgurum sem eru í viðkvæmri stöðu en ítrekað hefur það verið staðfest að betur má ef duga skal. Hagsmunafulltrúinn skoðar málefni eldri borgara ofan í kjölinn, heldur utan um hagsmunamál þeirra og fylgist með aðhlynningu og aðbúnaði. Hagsmunafulltrúinn á að kortleggja stöðuna í heimaþjónustu og dægradvöl fyrir aldraða. Meirihlutinn í borginni hefur hins vegar ákveðið að ráða sérhæfðan þjónustufulltrúa sem er gott og vel.  En hinn sérhæfði þjónustufulltrúi er einfaldlega allt annars eðlis. Hlutverk hans er eins og segir í bókun meirihlutans “að svara fyrirspurnum vegna þjónustu við eldri borgara og vísa erindum á viðeigandi aðila þar sem eldri borgarar geta fengið úrlausn sinna mála“. Hlutverk þjónustufulltrúa meirihlutans er fyrst og fremst að „búa yfir sérhæfðri þekkingu á málefnum eldri borgara og mæta eldri borgurum með vinsemd og áhuga og vinna að því að þeir fái á markvissan hátt úrlausn sinna mála“.

Ekki á okkar vakt

Velferðarráð hafnaði þeirri tillögu að styrkja stöðu eldri borgara með því að koma á fót hagsmunafulltrúa aldraðra. Nú hefur þingflokkur Flokks fólksins lagt fram þingsályktunartillögu sem hvetur félagsmálaráðherra til koma á fót hagsmunafulltrúa aldraðra. Skyldi ríkisstjórnin vera tilbúin til að hlúa að öldruðum í meira mæli en borgarstjórn Reykjavíkur? Við í Flokki fólksins höfum sterka sannfæringu fyrir því að með því að koma á fót hagsmunafulltrúa aldraðra verði haldið utan um málefni þessa hóps með markvissari og skilvirkari hætti og að staða hvers og eins verði betur kortlögð. Einn vannærður eldri borgari sem er einangraður eða fastur á sjúkrahúsi vegna skorts á heimaþjónustu eða hjúkrunarrými er einum eldri borgara of mikið í aðstæðum sem þessum og ekki líðandi í okkar gjöfula samfélagi.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila