Hamfarir enn á ný

Fregnir af skriðuföllum á Seyðisfirði eru sláandi. Þær sýna að við sem byggjum okkar góða land þurfum ávallt að vera á varðbergi gagnvart náttúruöflunum.

Fyrir mér rifjar þetta upp erfiðar minningar frá því í lok ágúst 1988. Þá féllu miklar aurskriður yfir Ólafsfjörð þar sem ég bjó á þessum tíma og hafði gert frá fæðingu. Aðra eins úrhellisrigningu og helltist yfir okkur á þessum tíma hef ég aldrei upplifað hvorki fyrr né síðar. Lækir breyttust í ár. Niðurföll í bænum höfðu ekki undan eða stífluðust. Gruggugur vatnselgur lá yfir götum og lóðum og flæddi inn í kjallara og inn á jarðhæðir húsa. Sums staðar var allt að 40 sentimetra vatnselgur sem flæddi um göturnar. Þetta var ógnvænlegt ástand.

Mikið vatn safnaðist upp í hlíðunum fyrir ofan bæinn en þar eru stallar svipað og á Seyðisfirði. Gróðurþekjan gaf sig og jarðvegurinn fór af stað. Litlar skriður fóru að falla í dreifbýlinu í grennd við bæinn. Ein þeirra hreif með sér bíl með hjónum og þremur börnum og bar hann fram af Múlavegi um fjörutíu metra niður hlíðina. Sem betur fer komust þau öll ómeidd frá þessu en bíllinn var ónýtur. Vegir og götur tóku að grafast í sundur. Flugvellinum var lokað. Almannavarnanefnd sat á fundi þegar stóra skriðan fór af stað úr fjallinu fyrir ofan bæinn. Hún lenti á nokkrum af efstu húsunum í hlíðinni og hreif með sér bíla. Fólk slapp undan með naumindum. Enn jók á flóðið í bænum og svo féll önnur stór skriða á íbúðarhúsahverfi. Margar minni aurskriður féllu einnig í grennd við bæinn. Mikið af laxi drapst í fiskeldisstöðinni rétt innan við bæinn.

Allt virtist annaðhvort á floti á Ólafsfirði eða það var þakið leðju sem hafði ruðst ofan úr fjallinu. Mikill einhugur var um björgunarstörf en þó kom aldrei til álita að rýma bæinn eða hluta hans. Líklega hefði slíkt verið gert í dag því frá þessum tíma höfum við öll upplifað sársaukafulla reynslu af völdum snjóflóða og aurskriða.

Allt rifjast þetta upp og vekur hjá mér sterkar tilfinningar þegar ég fylgist með sláandi fréttum frá Eskifirði og Seyðisfirði. Eigin reynsla hefur kennt mér að ekkert getur undirbúið mann fyrir það að standa algjörlega magnvana gagnvart óútreiknanlegum krafti náttúruaflanna. Ég hygg að enginn geti fyllilega sett sig í spor þeirra sem lenda í slíkum hamförum. Ég sendi öllum kærleiks- og baráttukveðjur. Stöndum saman og styðjum hvert annað. Öll él birtir upp um síðir. Kæru landsmenn.

Ég sendi ykkur öllum hugheilar hátíðarkveðjur.

Deila