Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er þrástaglast á orðinu velsæld. Ætlunin sé að vaxa til meiri velsældar í velsældarsamfélagi framtíðarinnar og tryggja þannig forsendur velsældar núverandi og komandi kynslóða. Öflugt velferðarkerfi sé undirstaða jöfnunar og tryggi að við getum öll blómstrað í velsæld. Síðast en ekki síst bendir forsætisráðherra hreykin á að Ísland hafi skipað sér í forystu alþjóðlegs samstarfs um þróun velsældarmælikvarða!
Orðið velsæld merkir vellíðan, velmegun, hamingja. Augljóst er að núverandi ríkisstjórn vill láta kenna sig við þetta útbólgna hugtak og því blasir við heitið Velsældarríkisstjórnin. En velsæld fyrir hverja? Fyrir öryrkja? Fyrir aldrað fólk? Fyrir láglaunafólk? Fyrir börn sem búa í sára fátækt? Nei. Þessum hópum er áfram ætlað að búa við basl og óvissu. Væri nafnið Ríkisstjórn vesældar kannski betur við hæfi?
50% kjaragliðnun
Forsætisráðherra vill ekki skipta á Íslandi í dag og Íslandi árið 2007. Frá þessum tíma hefur kjaragliðnun almannatrygginga orðið allt að 50% og kjaragliðnunin heldur áfram í boði velsældarríkisstjórnarinnar. Skerðingar og keðjuverkandi skerðingar halda áfram. Fyrirhuguð 5,6% hækkun almannatrygginga skilar ekki 15.000 kr. því að eftir skatta og skerðingar og keðjuverkandi skerðingar verður ekkert eftir hjá þeim verst settu. Skerðingarofbeldið fer um almannatryggingakerfið og það yfir í félagskerfi bæjar- og sveitarstjórna, sem er ekkert annað en 100% eignaupptaka þeirra best settu hjá þeim verst settu. Öryrkjar með 65 aura á móti krónu skerðingu, sem er ekkert annað en ávísun á sára fátækt: 1% hækkun hjá öryrkjum umfram verðbólgu, þvílík ofrausn, 1%, 1.500 kr. eftir skatt. Hvað verður eftir af þeim 1.500 kr. þegar það er búið að fara í gegnum skerðingar, bæði almannatryggingakerfis og sveitarfélaga? Nákvæmlega ekkert!
Þeir verst settu hafa beðið í nærri fimm ár og verða því miður að bíða enn eftir réttlætinu. Vonandi ekki í fjögur ár í viðbót. Víst er að við hjá Flokki fólksins munum berjast með oddi og egg fyrir þessa þjóðfélagshópa og höfum m.a. lagt fram fjölmörg þingfrumvörp þar að lútandi. Við einbeitum okkur að baráttunni gegn fátækt og krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi. Lágmarksframfærsla verði 350.000 kr. skatta- og skerðingalaust!
Óásættanlegir biðlistar
Þróun heilbrigðismála á Íslandi undanfarin ár er líka mikið áhyggjuefni. Úreltar flokkspólitískar áherslur hafa veikt heilbrigðiskerfið undir miklu álagi með löngum biðlistum eftir læknismeðferð. Víst er að þjónustuþeginn, sjúklingurinn, er ekki þungamiðja kerfis þar sem það er bannorð að nýta þjónustu einkaaðila, jafnvel í neyð. Í skýrslu sem ég fékk í vor í sambandi við biðlista kemur fram hve kulnun í starfi er orðin áberandi meðal heilbrigðisstarfsfólks. Þessi kulnun kemur ekki eingöngu til vegna ofurmannlegs vinnu- og vaktaálags. Áhyggjur starfsfólks af því að sjá ekki fram á að geta afgreitt biðlistana og sinnt bráðveiku fólki vega þar þungt.AUGLÝSING
Ég hef sérstakar áhyggjur af því skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar að hafa ekki samið við sjúkraþjálfara, sérgreinalækna og talmeinafræðinga. Hún neitar að semja við þetta fólk og hvaða afleiðingar hefur það haft? Svo koma stjórnarliðar upp í ræðustól Alþingis hver á fætur öðrum og segjast hafa lækkað greiðslukostnað í heilbrigðiskerfinu. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir hafa ekki lækkað hann neitt, bara fært hann til og þar hefur hann aukist. Nú láta stjórnvöld fólkið einfaldlega borga sjálft fyrir sjúkraþjálfun og meðferð sérgreinalækna og talmeinafræðinga. Þar með er málið afgreitt – kerfiskostnaðurinn lækkaður og hægt að monta sig af því. Svo er stokkið um borð í velsældarhraðlestina og skálað fyrir árangrinum!
Ríkisframleiðsla á öryrkjum
Tökum líka sem dæmi krabbameinsleit sem tekur allt of langan tíma. Það sem á að taka tvær til þrjár vikur tekur fimm til sex mánuði og þegar loksins kemur að viðkomandi einstaklingi er það kannski orðið of seint. Þessi staða er auðvitað grafalvarlegur veikleiki á íslensku heilbrigðiskerfi. Og hver er afsökun ríkisstjórnarinnar aftur og aftur? Hvers vegna vantar hjúkrunarfræðinga? Hvers vegna eru 1.000 hjúkrunarfræðingar ekki að vinna sem hjúkrunarfræðingar? Það er einfalt mál að upplýsa. Það er vegna þess að aðstæðurnar eru ekki boðlegar á sjúkrahúsunum; álag, kulnun og laun sem samsvara alls ekki ábyrgð og álagi.
Ríkisstjórnin, með því skeytingarleysi sem hún hefur sýnt í þessum málum, er hreinlega að búa til verksmiðju sem framleiðir öryrkja til framtíðar. Stjórnarliðar furða sig einatt á þessari þróun og segja að eitthvað róttækt þurfi að gera eitthvað í öryrkjamálum. Það sé nánast náttúrulögmál að þeir spretti upp eins og á færibandi og verði til úr engu.
Hér er vert að benda á að stærsti hluti öryrkja glímir við geðheilbrigðisvanda. Og hver er staðan í geðheilbrigðismálum á Íslandi? Á það ekki að hringja öllum viðvörunarbjöllum? Segir það okkur ekki bara hreint og beint að þetta er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, þetta eru afleiðingar af gerðum hennar, af biðlistakerfinu? Ég tel að meðan svo er geti ríkisstjórnin ekki komið aftur og aftur fram og sagt að það sé eins og öryrkjarnir spretti upp úr einhverju tómarúmi og það þurfi að lemja þá niður. Það er í verkahring stjórnvalda að horfast í augun við raunveruleikann og átta sig á orsökum og afleiðingu.
Við erum búin að vera í þessari baráttu núna í tvö ár. Biðlistar í heilbrigðiskerfinu hafa tvöfaldast, jafnvel þrefaldast á sumum stöðum. Eitt slær mann líka rosalega þegar maður hittir einstaklinga sem eru að bíða eftir liðskiptaaðgerðum og sérstaklega þegar um eldri einstaklinga er að ræða. Einn þeirra kvaðst vita af því að hann gæti farið í liðskiptaaðgerð til Svíþjóðar með þreföldum kostnaði en hann gat það ekki vegna þess að hann er með undirliggjandi sjúkdóma, hann getur ekki ferðast. Hann spurði hvort hann gæti þá gengið yfir götuna og farið í aðgerðina hjá einkareknum aðilum hér á landi með þrefalt lægri kostnaði. Nei, þá yrði hann að borga sjálfur, sem hann átti ekki pening fyrir! Fyrir vikið er þessi maður öryrki.
Virðingarleysi er kjarni vandans
Kjarni vandans er virðingarleysi stjórnvalda gagnvart aðstæðum fólks, sérstaklega þeirra einstaklinga sem standa höllum fæti í samfélaginu. Höfum hugfast að þessir einstaklingar eru manneskjur af holdi og blóði með tilfinningar, vonir og löngun eftir betra lífi en ekki súlurit eða excel skjöl á tölvuskjá. Það er forgangsverkefni að koma þessu fólki til hjálpar og hrífa það úr köldum faðmi ómanneskjulegs og skilningsvana kerfis. Tryggjum öllum réttlæti í okkar ríka landi!
– Guðmundur Ingi, þingmaður Flokks fólksins