Hroki og hleypidómar

Er það furða þó manni mis­bjóði sú valdníðsla vald­haf­anna sem við höf­um orðið vitni að í kjöl­far þess að Katrín Jak­obs­dótt­ir ákvað að hella sér í bar­átt­una um Bessastaði. Virðing­ar­leysið gagn­vart ábyrgðinni sem felst í því að tróna á toppi píra­mída valds­ins sem ráðherra er al­gjört og geng­ur gjör­sam­lega fram af lands­mönn­um flest­um.

Hefði ein­hverj­um dottið í hug þann 10. októ­ber sl. þegar Bjarni Bene­dikts­son þáver­andi fjár­málaráðherra sagði af sér eft­ir að umboðsmaður Alþing­is hafði birt álit sitt á embætt­is­færsl­um hans, að hann yrði orðinn for­sæt­is­ráðherra hálfu ári síðar?

Rifj­um upp hvað það var sem Bjarni var tal­inn hafa brotið af sér sam­kvæmt áliti UA:

„Það er niðurstaða mín að við ákvörðun sína 22. mars 2022, um sölu á 22,5% hlut rík­is­ins í Íslands­banka hf., hafi fjár­mála- og efna­hags­ráðherra brostið hæfi sam­kvæmt 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993, sbr. 3. mgr. 1. gr. sömu laga, og þá í ljósi þess að meðal kaup­enda var einka­hluta­fé­lag und­ir fyr­ir­svari og í eigu föður hans.“

Við skul­um ekki draga fjöður yfir það að umboðsmaður er skýr­lega að benda á að Bjarni Bene­dikts­son braut stjórn­sýslu­lög.

Bjarni Bene­dikts­son taldi sig axla ábyrgð gagn­vart áliti umboðsmanns með því að færa sig yfir í ut­an­rík­is­ráðuneytið. Nú hálfu ári síðar hef­ur hann gert sjálf­an sig að for­sæt­is­ráðherra þjóðar­inn­ar.

Umboðsmaður Alþing­is birti og álit sitt á embætt­is­færsl­um Svandís­ar Svavars­dótt­ur frá­far­andi mat­vælaráðherra þar sem hann kemst að þeirri niður­stöðu að hún hafi bæði brotið gegn meðal­hófs- og lög­mæt­is­reglu stjórn­sýslu­rétt­ar sem leiðir ef sér brot á 75. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar um at­vinnu­frelsi. Leiða má að því lík­ur að með reglu­gerð sinni hafi hún gert rík­is­sjóð bóta­skyld­an um millj­arða króna. Hún axl­ar ábyrgð með því að færa sig í enn yf­ir­grips­meira ráðuneyti og er nú orðin innviðaráðherra þjóðar­inn­ar.

Í áliti UA um reglu­gerð Svandís­ar seg­ir orðrétt:

„Það er álit mitt að út­gáfa reglu­gerðar nr. 642/2023, um (12.) breyt­ingu á reglu­gerð nr. 163/1973 um hval­veiðar, hafi ekki átt sér nægi­lega skýra stoð í 4. gr. laga nr. 26/1949, um hval­veiðar, eins og sú grein verður skýrð með hliðsjón af mark­miðum sín­um, laga­sam­ræmi og grunn­regl­um stjórn­skip­un­ar­rétt­ar um vernd at­vinnu­rétt­inda og at­vinnu­frels­is. Án til­lits til þess­ar­ar niður­stöðu tel ég einnig með hliðsjón af aðdrag­anda og und­ir­bún­ingi reglu­gerðar­inn­ar, svo og rétt­mæt­um vænt­ing­um Hvals hf., að út­gáfa henn­ar hafi ekki, við þær aðstæður sem uppi voru, sam­rýmst kröf­um um meðal­hóf eins og þær leiða af al­menn­um regl­um stjórn­sýslu­rétt­ar.“

Það er löngu tíma­bært að æðstu vald­haf­ar þjóðar­inn­ar átti sig á því að völd­um þeirra eru tak­mörk sett og að lög­brot í starfi séu tek­in föst­um tök­um.

Deila