Í gærmorgun var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gestur þeirra Heimis og Gulla í Bítinu á Bylgjunni. Þar ræddi hann meðal annars almannatryggingakerfið. Ummæli hans vöktu undrun okkar í Flokki fólksins. Augljóst að hann er búinn að skipta um skoðun og virðist nú styðja ýmis mál sem Flokkur fólksins hefur mælt fyrir árum saman.
Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir frumvöpum til að bæta almannatryggingakerfið og draga úr skerðingum. Þar á meðal um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna eldra fólks. Vegna andstöðu stjórnarflokkanna hefur það aldrei náð fram að ganga.
Bjarni sagði einmitt um þá hugmynd haustið 2018: „Við eigum að stilla upp frítekjumarkinu í almannatryggingakerfinu hvað atvinnutekjurnar snertir með skynsamlegum hætti. Við höfum nýlega hækkað frítekjumarkið verulega. Það væri algjörlega galið að afnema það.“ Í útvarpinu í gær svaraði hann því hins vegar játandi þegar hann var spurður hvort það kæmi til greina að ellilífeyrisþegar ættu að eiga þess kost að vinna án þess að verða fyrir skerðingum vegna atvinnutekna sinna. Þetta þótti sem sagt galið þegar hann sat í ríkisstjórn og hafði tækifæri til að breyta kerfinu en kemur nú vel til greina þegar kosningar eru á næsta leiti.
Eldri borgarar verða fyrir grimmilegum skerðingum vegna eigin atvinnutekna. Þeir mega vænta þess að missa 70-80% af þeim í skatta og skerðingar.
Þá hefur ríkisstjórnin sett aftur á það ömurlega fjárhagslega ofbeldi sem felst í „krónu-á-móti-krónu-skerðingum“ á hóp eldra fólks. Það furðulegasta við þá lagasetningu er að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra voru tilbúin að borga milljónum meira fyrir að koma skerðingum aftur á en það hefði kostað að gera það ekki.
Milljóna króna ástæðulaus útgjöld sem einungis ollu þeim verst settu fjárhagstjóni. Verst setta eldra fólkið sett á ný í þessar ömurlegu skerðingar þrátt fyrir að fá 10% minna útborgað en lægstu lífeyrislaun almannatrygginga sem allir vita að eru langt undir framfærsluþörf.
Það yrði fagnaðarefni ef Bjarni Benediktsson myndi styðja frumvarp Flokks fólksins um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem formaður Sjálfstæðisflokksins lofar slíkum breytingum korter fyrir kosningar.
Bjarni sendi eldri borgurum bréf skömmu fyrir alþingiskosningarnar 2013 þar sem hann einmitt lofaði því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi afnema tekjutengingu ellilífeyris. Efndirnar þekkja allir þrátt fyrir að tækifærin hafi ekki skort enda Sjálfstæðisflokkurinn búinn að vera í ríkisstjórn sleitulaust síðan.
Öryrkjar mega enn þola skerðingar sem nema 65 aurum á hverja krónu. Það þrátt fyrir öll loforð um annað sem gefin voru fyrir síðustu kosningar.
Flokkur fólksins segir burt með skerðingar, bætum kjörin.
Guðmundur Ingi Kristinsson