Ég held að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra séu búin að stinga hausnum í sandinn. Með því telja þau sig ekki þurfa að sjá fátækt og hvað þá sárafátækt. Þau sjá ekki allt fólkið sem stendur í biðröð eftir mat eða þann fjölda fólks, sem þarf að leita sér heitrar máltíðar á hverjum degi, en hann hefur nær tvöfaldast.
Fjármálaráðherra hefur sagt að það séu bara örfáir einstaklingar í þeirri ömurlegu aðstöðu að vera í fátækt, en samt tekst honum að gleyma þeim. Enn færri í sárafátækt, en samt eru þeir ekki hluti af því sem hann eða ríkisstjórnin hefur metnað til að hjálpa.
Hvers vegna í ósköpunum er ríkisstjórnin ekki með áætlun um að útrýma fátækt? Fámennur hópur segir fjármálaráðherra, en samt ekki hægt að hjálpa honum. Þessi litli hópur fólks sem samanstendur af öryrkjum, eldri borgurum og láglaunafólki.
Þá bætist við sá fjöldi atvinnulausra sem detta út af atvinnuleysisskrá og beint í sárafátækt. Ömurlegast við það er að þetta snertir fjölda barna sem lenda í fátækarpyttinum með foreldrum sínum.
Svarið sem fjármálaráðherra gefur, spurður um framtaksleysi ríkisstjórnarinnar við að útrýma fátækt, er; „hvar á að finna peninga til þess?“ Já, það er til fjármagn í flestallt nema til að útrýma þjóðarskömminni fátækt. Fátækir verða að bíða lengur og jafnvel í fjögur ár í viðbót ef þessi ríkisstjórn verður áfram við völd eftir kosningar. Sjáum til þess að það verði ekki, því annars heldur áfram misskiptingin og þá einnig stéttaskipting sem af fátæktinni leiðir á Íslandi og hún bitnar hvað verst á börnunum.
Enn og aftur í boði ríkisstjórnarinnar þarf veikt fólk með undirliggjandi sjúkdóma að lokast inni á heimilum sínum og það jafnvel peninga- og matarlaust. Getur ekki staðið í biðröð og hefur ekki efni á að panta mat eða aðrar nauðsynjar á netinu og hvað þá að fá vörurnar sendar heim.
Á sama tíma er ríkisstjórnin að borga fyrir erlenda ferðamenn í sóttkví, en segist ekki eiga fjármagn til að hjálpa fátækum, sem er fáránlegt. Vitanlega eiga túristarnir að borga sína sóttkví sjálfir, eins og Bretar og Norðmenn láta ferðamenn gera.
Þá er óþolandi hið fjárhagslega ofbeldi sem viðgengst hefur ár eftir ár, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, gagnvart fötluðu fólki. Ég geri þá kröfu að hætt verði ómannúðlegum skerðingum á kjörum fatlaðs fólks. Vegna þeirra á stór hópur ekki lengur fyrir mat á diskinn sinn nema rétt fyrstu daga hvers mánaðar. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin sýni fötluðu fólki virðingu og lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna og viðauka hans strax.
Fólkið fyrst, svo allt hitt, segir Flokkur fólksins. Því miður er það ekki hjá þessari ríkisstjórn. Hún segir: Allt hitt fyrst og smámolar handa fólkinu og þeir verst settu fá ekki neitt.
Guðmundur Ingi Kristinsson