Flokkur fólksins hefur á árinu 2019 lagt fram á Alþingi um 20 mál og þar erum að ræða bæði frumvörp og þingsályktanir. Þetta eru um 10 mál á hvort okkar og er það meira en helmingi fleiri mál á mann en hjá þeim flokki sem kemur næst okkur í málfjölda á mann, sem er með rétt um 5 mál á hvern þingmann. Flest okkar mál varða kjör eldri borgara, öryrkja og láglaunafólk, þar sem allt of stór hópur í þeirra röðum býr við fátækt og svo einnig við sárafátækt, sem er okkur sem ríkri þjóð til háborinnar skammar. Þarna eru um 10.000 börn sem verða að lifa við fátækt og þar af um 3000 við sárafátækt, sem er óviðunandi og ekkert annað en brot á stjórnarskránni.
Hækkun á lífeyrislaunum eldri borgara og öryrkja verður bara 3,5% nú um áramótin eða nær helmingi minna en laun eiga að hækka á næsta ári. Enn og aftur er verið að viðhalda fjárhagslegu ofbeldi undanfarinna áratuga gagnvart þessum hópi fólks sem hefur það verst í okkar þjóðfélagi. Engin leiðrétting gagnvart þessum hópi aftur í tímann eins og eins og við þingmenn, ráðherrar og allir aðrir launamenn hafa fengið?
Ef rétt væri gefið ætti persónuafsláttur að hækka það mikið að lægstu laun og lífeyrislaun væru nú þegar skattlaus. Þá væri ríkisstjórnin að færast nær því að hætta að skatta sárafátækt. Þá ætti strax að setja á hátekjuskatt og afnema persónuafslátt af hátekjufólki því að þeir tekjuhæstu hafa ekki þörf fyrir persónuafslátt.
Þá ber þess að geta að ef þessi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir hefðu staðið við hækkanir á persónuafslætti og lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins, frá því að tekin var upp staðgreiðsla skatta 1988, væru launin yfir 300.000 krónur skatta- og skerðingarlaust, í dag en ekki rúmlega 200.000 krónur sem er sú smánar upphæð sem mörgum eldri borgurum og veiku fólki er boðið upp á í dag til að reyna að lifa á.
Desemberuppbót örorkulífeyrisþega nemur um 45 þúsund krónum eða um 28 þúsund eftir skatt. En þetta er síðan skert hjá stórum hópi lífeyrisþega. Það er stórfurðulegt að ríkið mismuni fólki með skerðingum fyrir jólin og skerði desemberuppbótina vegna lífeyrissjóðlauna þannig í núll og það á sama tíma og þingmenn fá fjórfalt hærri jólabónus og það óskertan.
Þingmenn og embættismenn fá 181 þúsund króna desemberuppbót. Munurinn er 136 þúsund krónur eða rúmlega 100 þúsund krónur eftir skatt sem er eins og áður segir um fjórfalt meira. Þá er jólabónus atvinnulausa er 80 þúsund krónur og síðan fá þeir smá auka með hverju barni.
Það er ekki í lagi að við þingmenn fáum svona háa desemberuppbót á sama tíma og þeir sem lifa í fátækt, hvað þá í sárafátækt eru að fá skerta desemberuppbót. Þessu verður að snúa við og þeir sem lifa á lífeyrislaunum fái 181 þúsund krónur í desemberuppbót, en við þingmenn verðum skertir fjárhagslega eins og lífeyrisþegar þannig að við fáum ekki krónu í bónus.
Nei, það er ekki til umræðu hjá þessari ríkisstjórn. Loforð um leiðréttingu og að þeirra tími væri kominn? Nei, ekkert um það og enn einu sinni, eru kosningaloforðin svikin. Yfirlýsing um að þessi hópur gæti ekki beðið lengur, innantóm orð, enn og aftur.
Þá ætlar ríkisstjórnin að gefa þessum hópi og láglaunafólki lægri skattprósentu með hægri hendinni, en taka hana að stórum hluta með vinstri hendinni til baka með lækkun á persónuafslætti. Hvers vegna gat þessi ríkisstjórn ekki að minnsta kosti látið persónuafsláttinn vera óbreyttan?
Það hefði verið frábært skref, að láta hann bara vera eða hækka samkvæmt neysluvísitölu eins og þeim ber að gera. Nei, það er allt of mikið fyrir þessa ríkisstjórn. Það varð að sjá til þess að þeir sem minnst hefðu það fengju bara sömu smáu hungurlúsina, eins og þeim hefur verið skammtað undafarna áratugi í boði fjórflokksins.
Árið 2020
Vonandi verður árið 2020 betra hjá þessum hópi og þá von ber ég í brjósti vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur séð ljósið. Þau undur og stór merkilegi atburður varð nú á þinginu fyrir jólin að öryrkjar fengu heilar 10.000 þúsund krónur skatta og skerðingarlaust útborgað í boði ríkisins.
Ríkisstjórnin hefur nú séð smá ljósgeisla við hin myrka skerðingaskóg skatta og keðjuverkandi skerðinga sem er samkvæmt úreldum almannatryggingalögum, lögum sem vonandi verða einfölduð á nýju ári öllum til hagsbóta. Loksins er kominn skilningur á það að til að kjarabætur skili sér til þeirra sem fá lífeyrislaun verður sú kjarabót að fara til þeirra skatta og skerðingarlaust.