Fyrr í vikunni birtist á sama stað í Morgunblaðinu pistill eftir Helgu Völu Helgadóttur. Pistillinn fjallaði um nauðsyn þess að koma á laggirnar embætti umboðsmanns aldraðra. Helga minntist þess að slíkar tillögur hefðu komið fram á Alþingi fyrir nokkrum árum en ekki náð fram að ganga og sagði að nú væri tilefni til að rifja þær upp á ný.
Ég er henni hjartanlega sammála að þörf sé á stofnun slíks embættis. Ég tel þó enga þörf á upprifjun, enda hefur Flokkur fólksins lagt fram þingsályktunartillögur um stofnun slíks embættis síðustu þrjá þingvetur. Tillagan liggur nú inni í velferðarnefnd og bíður þar afgreiðslu. Því vekur það furðu mína að Helga Vala, formaður velferðarnefndar, virðist ekki þekkja málið. Mögulega liggur vandinn í því að tillaga Flokks fólksins nefnir embættið hagsmunafulltrúa en ekki umboðsmann. Ég ætla þó að vona að slíkt formsatriði komi ekki í veg fyrir stuðning hennar við það. Ljóst er að um samskonar embætti er að ræða. Í tillögu Flokks fólksins segir m.a. um hlutverk hagsmunafulltrúa: „Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim.“
Öll viljum við eiga áhyggjulaust ævikvöld. Því miður er raunin önnur hjá alltof mörgum. Eftir því sem við eldumst þurfum við sífellt oftar að glíma við hið opinbera, meðal annars almannatryggingar, lífeyrisréttindi, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og fleira. Stjórnvöldum ber að taka tillit til aldraðra og sníða opinbera þjónustu algerlega að þörfum þeirra. Ekki er langt um liðið síðan ríkið skerti ellilífeyrisgreiðslur með ólögmætum afturvirkum hætti. Í stað þess að viðurkenna mistökin og bæta fyrir þau barðist ríkið af hörku. Flokkur fólksins átti frumkvæði að því að dómsmál var höfðað gegn ríkinu og þurfti á endanum að leita til Landsréttar til að fá mistökin leiðrétt. Eldri borgarar eiga skilið virka réttinda- og hagsmunagæslu og hafa mikla þörf fyrir hana, eins og dæmin sanna.
Tillaga Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa aldraðra hefur ítrekað farið fyrir velferðarnefnd Alþingis og þangað hafa borist margar jákvæðar umsagnir um málið. Þrátt fyrir það hefur tillagan aldrei losnað úr prísund nefndarinnar. Því er það mikið fagnaðarefni að heyra, að formaður nefndarinnar vilji veita málstaðnum liðsauka. Nú gefst Helgu Völu kjörið tækifæri til að standa við stóru orðin og beita sér fyrir því að tillagan verði afgreidd úr velferðarnefnd til síðari umræðu á Alþingi og atkvæðagreiðslu.
Inga Sæland