Hvunndagshetjurnar okkar

Vonandi hillir nú undir að við förum að sigrast á kórónuveirunni hér heima. Sárafá ný smit greinast nú daglega og hefur fækkað óðum dag frá degi. Enn situr þó eftir hin gríðarlega efnahagslega óvissa af hennar völdum.Vonandi hillir nú undir að við förum að sigrast á kórónuveirunni hér heima. Sárafá ný smit greinast nú daglega og hefur fækkað óðum dag frá degi. Enn situr þó eftir hin gríðarlega efnahagslega óvissa af hennar völdum.

Á meðan á öllu þessu hefur gengið hef ég hvern einasta dag hugsað með hlýhug til þeirra sem standa í fremstu víglínu við að halda uppi þeirri starfsemi sem þó hefur verið hægt að sinna í samfélaginu. Ég vil nefna fólk í verslun, og sérstaklega þau sem hafa staðið vaktirnar við afgreiðslu á nauðsynjavörum svo sem matvælum og lyfjum. Þau hafa sinnt störfum sínum af trúmennsku og æðruleysi. Þau hafa lagt sig í hættu. Hið sama má segja um aðra sem hafa staðið vaktina í þjónustugreinum og við umönnun, svo sem á sambýlum fatlaðra og á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Allt þetta góða fólk er í flestum tilvikum illa launað og gegnir jafnvel vanþakklátum störfum. Við stöndum í djúpri þakkarskuld við það allt. Vonandi lærum við að meta störf þess betur eftir þessa reynslu, skiljum að það gegnir lykilhlutverki í samfélaginu.

Ég beygi mig og í auðmýkt gagnvart heilbrigðisstarfsfólkinu okkar. Bæði þeim sem hafa staðið í návíginu við umönnun þeirra sem hafa sýkst af Covid-19 og einnig öllum hinum. Ég ber djúpa virðingu fyrir öllum þeirra störfum. Ef við ættum einhvern tímann að átta okkur á því hversu ómetanleg þau eru þá er það nú á slíkum örlagastundum. Þau eru hetjur sem vinna verk sín að vanda og leggja líf sitt í sölurnar fyrir okkur hin. Hafa staðist mikla þrekraun sem við getum aldrei full þakkað.

Síðan er það sjálf þjóðin, almenningur í þessu landi. Við Íslendingar höfum svo sannarlega sýnt að við getum öll gengið í takt þegar á reynir. Sýnt samstöðu og sjálfsaga. Ég veit að það reynir á þolrifin að lifa í sóttkví. Það er búið að vera aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig fólk hefur farið eftir ráðgjöf og fyrirmælum yfirvalda. Við erum öll í sama báti. Ég hefði gjarnan viljað að við í stjórnarandstöðunni fengjum meiri aðkomu að stefnumótun í þeirri vinnu sem fram undan er á tímum sem verða mjög krefjandi fyrir okkur öll sem þjóð. Nú er ekki tími fyrir pólitískt argaþras, við verðum öll að róa í sömu átt. Góð og samhent frammistaða fólksins í landinu á eflaust stóran þátt í því að við erum búin að ná þeim árangri gegn veirunni sem raun ber vitni.

Við þurfum þó að halda árvekni okkar, fara varlega og þrauka aðeins lengur. Sumarið er handan við hornið, vonandi sólríkt og hlýtt. Tökum því opnum örmum. Verndum hvert annað og gleymum því ekki að kærleikurinn kostar ekkert.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila