Flokkur fólksins var stofnaður til þess að berjast fyrir réttindum og bættum kjörum þeirra sem bágast hafa það í samfélaginu. Við þykjumst ekki ætla að gera allt fyrir alla, heldur einbeitum okkur að þessari frumskyldu okkar gagnvart þeim sem sárast þarfnast þess að eiga sér öflugan málsvara á alþingi. Við munum aldrei hvika frá þessari grunnstefnu Flokks fólksins.
Ójöfnuðurinn í lífskjörum landsmanna er risavaxinn. Fátækt fólk á ekki að þurfa að sætta sig við mylsnuna af borðum hinna ofurríku. Við hjá Flokki fólksins einbeitum okkur að baráttunni gegn fátækt og krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi. Lágmarksframfærsla verði 350.000 kr. skatta- og skerðingalaust!
Á síðasta kjörtímabili barðist enginn flokkur af jafn mikilli einurð fyrir auknum réttindum öryrkja, eldra fólks og fólks á lægstu laununum en Flokkur fólksins. Við lögðum fram tugi þingmála sem miða að því að bjarga almannatryggingaþegum úr fátæktargildrunni sem stjórnvöld hafa búið þeim. Og strax nú á nýhöfnu kjörtímabili höfum við lagt fram enn fleiri slík mál.
Kjarni vandans er áberandi virðingarleysi stjórnvalda gagnvart aðstæðum fólks, sérstaklega þeirra sem eiga bágt. Sumum virðist tamt að líta bara í eina átt og snúa blinda auganu að þeim sem virkilega þurfa á aðstoð að halda. Fólki með vonir og þrár um betra og áhyggjulausara líf. Vonir um að þurfa ekki lengur að bíða eftir réttlætinu. Að vera ekki líkt við lífvana súlurit eða excel skjöl á tölvuskjá. Það er forgangsverkefni að koma þessu fólki til hjálpar og hrífa það úr köldum faðmi ómanneskjulegs og skilningsvana kerfis.
Við lifum nú við blússandi Covid vanda og vaxandi dýrtíð með tilheyrandi verðbólgu þar sem fátækt fólk verður fátækara með degi hverjum.
Við bindum sérstakar vonir við að stjórnvöld svari áköfu ákalli okkar um skatta- og skerðingarlausan jólabónus handa öryrkjum fyrir þessi jól. Sá þingmaður sem getur ekki sett sig í spor þeirra sem kvíða jólunum hvert einasta ár með tárin í augunum og grátstafinn í kverkunum er með hjarta úr steini. Við treystum því að enginn sé svo harðbrjósta.
Það er göfugt verkefni að tryggja öllum réttlæti í okkar ríka landi. Við vitum að með því að vinna af heilindum að almannahag sendum við ljósgeisla inn í líf margra bræðra okkar og systra sem hafa ekki litið glaðan dag lengi. Fátækt er mannanna verk. Það er í okkar höndum að útrýma henni. Það er með bjartsýni að vopni sem Flokkur fólksins treystir því að ráðamenn þjóðarinnar hafi heyrt okkar háværa bænakall og allra þeirra sem hafa sent okkur alþingismönnum óskir um hjálp fyrir jólin.
Gleðileg jól!