Er ekkert undarlegt við það, að á sama tíma og allir formenn þingflokka á Alþingi vinna að breytingum stjórnarskrárinnar, þá skuli það einungis vera formaður Flokks fólksins sem krefst fullrar greiðslu fyrir aðgang að sjávarauðlindinni?
Aðrir vilja „sanngjarnt“ eða „eðlilegt verð fyrir aflann. Auðvitað eigum við að setja reglur um fullt verð fyrir aðgang, ekki einungis að sjávarauðlindinni heldur og öðrum auðlindum sem landið okkar hefur að gefa og ekki eru sérstaklega skilgreindar sem einkaeign.
Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs haustið 2012 eftir langt ferli endurskoðunarvinnu um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kom skýr vilji þjóðarinnar í ljós hvað lýtur að því að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign. Þjóðin tók af allan vafa þar sem 82,9% þeirra sem tóku afstöðu sögðu JÁ.
Er ekki ágætt að fá „sanngjarnt“ eða „eðlilegt“ verð fyrir aðgang að sjávarauðlindinni? Flokkur fólksins segir NEI! Það er algjörlega óásættanlegt að ætla að halda uppteknum hætti þar sem það er undir geðþótta hagsmunatengdra stjórnmálamanna komið hvað telst „sanngjarnt“ og/eða „eðlilegt“ gjald hverju sinni. Króna gæti þótt sanngjarnt hjá einhverjum á meðan 0 krónur væru sanngjarnt verð hjá öðrum.
Hundruð milljarða hafa flætt til fárra fjöldskyldna sem telja sig eiga nánast allan óveiddan fisk í sjónum umvherfis landið og það til framtíðar. Milljarðar hafa farið í að sölsa undir sig eignarhald í nánast öllu sem nöfnum tjáir að nefna og koma sjávarútvegi ekkert við. Allt í boði hagsmunagæslupólitíkusanna sem gefa lítið fyrir samfélagslega ábyrgð og velferð þeirra sem ekki hafa ráð á að styrkja þá með stæl.
Það er hver að verða síðastur til að taka í taumana og neita að verja þetta rán á því sem þjóðin á öll saman. Við búum við lýðræði þar sem kjósendur velja sér valdhafana sem síðan starfa í skjóli þingræðis. Það er löngu orðið tímabært að alþingismenn axli þá ábyrgð sem þeim ber. Það er ekki nóg að hrópa að við búum við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi þegar staðreyndin er sú að við búum við eitt það versta arðránskerfi sem um getur.
Flokkur fólksins vill afturkalla allar fiskveiðiheimildir á næstu 5 árum. Þá reynir á lagaákvæði um að afturköllun tímabundinna veiðiheimilda myndar aldrei bótakröfu á ríkissjóð.
Veiðiheimildir á öllum nytjastofnum í íslenskri lögsögu verði boðnar upp. Það er þrugl að þeir ríku gætu keypt allan aflann og að það yrði algjör samþjöppun í greininni. Hún er þegar til staðar. Flokkur fólksins vill kvótann heim. Þjóðin á sjávarauðlindina sem og allar aðrar auðlindir landsins sem ekki eru í einkaeign.